13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skil, að hv. 5. landsk. (JJ) þykir slæmt að geta ekki tekið þátt í umræðunum um vantraustið í hinni deildinni, og vill því bæta það upp hjer.

Hv. þm. var ennþá að tala um það, að jeg hefði fengið ofanígjöf við Ölfusárbrú. Það er þá best jeg segi frá þessu atviki, til að sýna, hvað þetta bendir á mikla fávisku. Jú, jeg sagði það í ræðu, að ferðin hefði gengið mjög vel, og vildi þakka það, að hamingja konungsins hefði fylgt okkur. Konungur svaraði, að það hefðu verið æðri völd en sín hamingja, sem hefðu hjálpað á ferðinni.

Ef sá maður, sem heyrði þessi orð og bar söguna, hefði þekt ofurlítið það, sem allir nokkurnveginn sæmilega mentaðir menn þekkja, úr sögunni um Cæsar, þá hefði honum aldrei dottið í hug, að neitt athugavert væri við þetta. Ferjumennirnir óttuðust, að þeir mundu farast, er þeir fóru yfir fljótið, en Cæsar bað þá að óttast ekki, af því þeir hefðu hamingju Cæsars í förinni. Þetta er síðan frægt orðið, og hafa margir minst þessara orða síðan. Nú hlustaði þarna maður, sem efalaust er fremur fáfróður og skildi þetta ekki. Háttv. 5. landsk. (JJ) skilur það vel, þó hann vilji ekki skilja, að hviksaga þessi er einungis sprottin af heimsku og fáfræði manns, er á hlýddi.