07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1926

Árni Jónsson:

Það var viðvíkjandi þeirri till., sem jeg á hjer á þskj. 299, sem jeg ætlaði að segja nokkur orð, í sambandi við það, sem hv. frsm. síðari kafla fjárlagafrv. (TrÞ) sagði í dag.

Eins og menn rekur minni til, gat jeg um undirbúningsmentun þessa manns, Lúðvíks Jónssonar, og sýndi fram á, að hann mundi vera betur mentaður í sinni grein en nokkur annar maður hjer á landi. Eftir að hann kom hingað var hann fyrst í þjónustu Búnaðarfjelags Íslands, og síðast sem ráðunautur í sauðfjárrækt. Veit jeg ekki betur en að hann hafi leyst starf sitt mjög vel af hendi, og kom mönnum því mjög á óvart, þegar honum var sagt upp starfi sínu hjá Búnaðarfjelaginu. Annars ætla jeg ekki að tala um það, heldur hvernig þessu málefni Lúðvíks Jónssonar er fyrir komið. Þessi maður skrifaði ritgerð um búnaðarmál, þar sem hann gerir ítarlega grein fyrir skoðun sinni á jarðyrkjuverkfærum, sem við ættu hjer á landi, en þau hefir hann kynt sjer í Danmörku og Englandi, en þar var hann á stríðsárunum. Hefir hann komist að þeirri niðurstöðu, að vinnuvjelar, sem hestum væri beitt fyrir, mundu eiga best við hjer, því að það er aðeins á stærstu búum, að vinnuvjelar dregnar af aflvjelum geta átt við. Aflvjelarnar eru auk þess mjög dýrar og erfitt að koma þeim hjer um, og þar á ofan oft mjög erfitt að ná til verkstæða, sem geta gert við stykki úr þeim, ef eitthvað bilar, en það hefir mikið að segja hjer á landi, þar sem alt er yfirleitt í svo smáum stíl, að rekstur slíkra vjela getur ekki borið sig, og jarðvegurinn allur annar en í þeim löndum, sem hann hefir kynst. Nú hafa menn ekki kynst nema útlendum verkfærum hjer á landi, og af því að þau útlendu verkfæri, sem menn hafa kynst hjer, hafa ekki reynst vel, hafa margir komist á þá skoðun, að hjer myndi það borga sig best að nota verkfæri, sem knúin væri af aflvjelum, en það segir hann, að geti alls ekki borgað sig hjer.

Nú er einnig bent á í þessari ritgerð og færð góð rök fyrir því, að hestaflið verður okkur Íslendingum langódýrast, en þá þurfi líka að gera vjelarnar svo úr garði, að þær verði við hæfi okkar smáu hesta. Hefir hugur þessa manns því hnígið að því að finna upp hentugar vjelar eða breyta öðrum til mikilla bóta, og er nú komið svo langt, að hann hefir látið smíða vjel, sem hann telur, að geti komið jarðyrkjunni að miklu gagni.

Háttv. frsm. síðari kafla (TrÞ) sagði það reglu Búnaðarfjelags Íslands að styrkja aðeins menn í þessu efni, ef vjelar þær, er þeir hefðu uppfundið eða breytt, reyndust vel.

Þess vegna vil jeg leyfa mjer að skýra lítilsháttar frá viðskiftum þessa manns og Búnaðarfjelags Íslands. Hann sótti um 2000 kr. styrk fyrir 2 árum til fjelagsins, en fjekk það svar, að Búnaðarfjelagið mundi telja sjer skylt að veita honum 1000 kr. viðurkenningu, ef verkfæri þetta reyndist vel. Búnaðarsambandið á Austurlandi ljet reyna verkfæri þetta og komst að raun um, eftir því sem vottorð herma, er jeg hefi hjer fyrir framan mig, að það mundi gefast vel og svara ágætlega til staðhátta allra á landi hjer. Aðeins var tekið fram, að þetta verkfæri, sem reynt var, væri of veikt, og þess vegna er það, að maður þessi sækir um þennan styrk, að hann vill fullkomna vjel þessa og gera hana svo úr garði, að hún reynist nógu sterk.

Annars skal jeg ekki eyða fleiri orðum að þessu. Vænti jeg, að hv. þdm. sjái nauðsyn þá að bæta vjelar og jarðyrkjuverkfæri, svo að landinu verði að sem mestu gagni, og geti því fallist á að greiða þessum styrk atkv. sín.