23.03.1925
Efri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

59. mál, sundnám

Sigurður Eggerz:

Þó óþarft sje að bæta við hina skörulegu framsögu, vil jeg þó segja örfá orð.

Út af þeim ummælum hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að æskilegast hefði verið, að í frv. sjálfu hefðu verið ákvæði um, hvað standa hefði átt í reglugerðinni, vil jeg taka það fram, að nefndin leit svo á, að heilbrigðisstjórninni væri best trúandi fyrir að semja slík ákvæði, og vildi því fela henni það.

Annars var mjer mikil ánægja að taka vel á móti þessu frv. háttv. þm. Vestm. (JJós), því að jeg hefi alla tíð haft mikla trú á leikfimi og sundi sem sjerstaklega nauðsynlegum íþróttum fyrir hreysti þjóðarinnar. Jeg hefi tekið eftir því, að við Akureyrarskólann er lögð mikil áhersla á þessar íþróttir. Auk þess hvetur skólastjóri nemendur sína til þess að iðka skauta- og skíðaferðir. Þetta held jeg, að sje stór þáttur í uppeldi þjóðarinnar.

Það má vel vera, að heimildarlög þessi verði ekki notuð mikið til að byrja með, en það er trú mín, að með reynslunni aukist notkun þeirra. Jeg leyfi mjer því að vænta, að hv. deild taki þessu máli vel, þó aldrei nema sumir hv. þm. telji það smámál. En jeg tel alt stórmál, sem stefnir að því að auka hreysti og heilbrigði þjóðarinnar.