24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2701 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Str. (TrÞ) var að gera kröfu til þess, að aðalatvinnuvegirnir ættu mann í þessari nefnd. Mjer þætti nú ekki ósennilegt, ef slíkt gengi fram, þá ætti einnig verkalýður landsins að fá sinn mann í nefndina. Mjer finst það að minsta kosti mjög sanngjarnt, því hann á ekki hvað síst hagsmuna að gæta um þetta mál. Því það er hagur hans, að verðgildi krónunnar hækki sem mest. Á sínum tíma, þegar gengið var að falla, þá var það hagur atvinnurekenda en tap verkalýðsins, en nú koma kvartanir frá framleiðendunum. að krónan hækki svo óskaplega í verði að þeir tapi stórfje. Það hefir nú ekki orðið ákaflega mikil breyting í liðugt ár. Við áramótin 1924 var sterlingspundið 28 krónur. (Einhver: 30 krónur). Nei, það hækkaði í janúar; og nú við áramótin 28 krónur. En nú er það lækkað í 27 kr. Þegar hv. þm. Str. (TrÞ) er að kvarta undan því fyrir atvinnurekendur, hvað verðgildi krónunnar hafi hækkað á síðasta ári, þá má minna á það, að verkamenn urðu fyrir stóru skakkafalli þegar sterlingspundið hækkaði úr 30 upp í 33 krónur á hálfum mánuði eða þar um bil. Þá var ekkert talað um, að það væri háskalegt, því þá voru atvinnurekendur að græða. Jeg held það sje misskilningur, ef háttv. þm. Str. heldur, að bændur græði ákaflega mikið á því, að íslensk króna hækki ekki í verði frá því, sem er. Jeg held, að fyrir þá geri það ekki mikið til. Þeir eru líklega flestir, sem ekki hafa meira að selja en þeir kaupa, og verðið á útlendu vörunni ætti að lækka eftir því, sem verð íslensku krónunnar hækkar. En fiskútflytjendur tapa á þessu; það er satt. En það eru aðeins fáir menn. En þeir eru búnir að taka stórgróða af gengislækkuninni meðan verkalýður landsins tapaði stórfje. Jeg er ekki viss um, að svo auðvelt sje að stöðva krónuna nú; ef til dæmis 1925 verður jafngott ár og 1924, þá finst mjer ekki nema eðlilegt, að verðgildi krónunnar hækki á árinu jafnmikið og 1924. Fyndist mjer ekki ólíklegt, að sterlingspundið yrði um næsta áramót komið niður í 23 kr.

Mjer finst öll rök mæla á móti þessu, sem hv. þm. Str. hefir haldið fram nú og mörgum sinnum, að íslenska krónan ætti ekki að vera látin hækka í verði á þessu ári eins og á árinu 1924. Að setja fastar reglur um það, hve mikið krónan ætti að hækka, var önnur uppástunga hv. þm. Jeg er ekki viss um, hvort slíkt er hægt eða rjettlátt; því það er sýnilegt, að afkoma ársins ræður því nokkuð. Ef ástandið versnar ekki, þá ætti íslenska krónan að halda áfram að hækka ekki minna en hefir átt sjer stað síðustu undanfarna mánuði. Verði það ekki, þá nýtur talsvert mikill hluti landsmanna ekki þeirrar árgæsku, sem verið hefir á síðasta ári og útlit er fyrir að haldist.