22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

50. mál, tollalög

Halldór Stefánsson:

Mál þetta hefir nú verið allmikið rætt, sótt og varið af miklu kappi. Eins og margtekið hefir verið fram, var tóbakseinkasalan sett á stofn af hagsmunalegum ástæðum, þeim að afla ríkissjóði tekna, án þess þó að íþyngja almenningi. Það, sem menn fyrst höfðu á móti einkasölu, var, að vonirnar um tekjuaukann myndu ekki rætast, og ennfremur að varan yrði verri og verðið hærra.

Um það hefir nú verið allmjög deilt. hvort vonir þær, sem gerðar voru um einkasöluna, hafi ræst. Jeg fyrir mitt leyti verð að halda því fram, að þær hafi ræst vonum framar.

Það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði um þetta atriði, sannar ekki það gagnstæða. Þegar tekið er tillit til, að tekjuáætlunin 1921 var gerð á mjög varasömum tímum, sanna ummæli hans og tölur ekki neitt.

Jeg vil nú spyrja hvort við áætlun þessara tekna hafi verið gert ráð fyrir örðugleikum, sem stöfuðu af gengisfallinn, og jafnframt, hvort tekið hafi verið tillit til hinna miklu birgða, sem stöfuðu af hinum óvenjulega mikla innflutningi tóbaks 1919, og loks, hvort menn sáu það fyrir, að tóbaksbirgðirnar í landinu myndu geta verið aðeins 1/3 af því, sem var undir hinu gamla fyrirkomulagi.

Jeg býst helst við, að ekkert af þessu hafi verið tekið með í reikninginn. Tel jeg því ekkert byggjandi á reynslu tveggja fyrstu áranna, sem einkasalan stóð. Það er því fyrst reynsla síðasta árs, sem byggjandi er á, og hún sýnir, að einkasalan gefur tekjur langt fram yfir vonir manna. Og er skemst á að minnast, er hæstv. atvrh. (MG) lýsti því yfir í þessari háttv. deild, að einkasalan hefði ekki brugðist vonum sínum að neinu leyti. Og hann er eins og kunnugt er, höfundur og formælandi hennar.

Á þinginu í fyrra var borin fram samskonar tillaga og þetta, um afnám einkasölunnar. En hún náði þá ekki fram að ganga, fyrir þá sök, að bæði meðhaldsmenn einkasölunnar og andstæðingar töldu þann tveggja ára tíma, sem hún var búin að standa, alt of stuttan reynslutíma. Fylgjendur einkasölunnar vonuðu, að það sýndi sig altaf betur og betur með hverju árinu, sem liði, að hún næði tilgangi sínum. En andstæðingarnir vonuðu aftur á móti, að eftir því, sem tímar liðu, myndi það sýna sig betur og betur, að hún uppfylti ekki vonir manna.

Nú er liðið aðeins eitt ár síðan. Á þeim tíma hefði því eitthvað átt að gerast sem því hefði getað verið valdandi, að andstæðingarnir sækja nú afnám einkasölunnar ennþá fastara en í fyrra. En það, sem gerst hefir á árinu, er ekkert annað en það, að vonir fylgjenda einkasölunnar hafa fyllilega ræst. Reynslan hefir vitnað á móti andstæðingunum. og þeir sjá því ekki annað ráð vænna en sækja af kappi að fá hana afnumda þegar í stað. Því að þeir sjá, að því lengur sem hún stendur, því erfiðara verður að fá hana lagða niður, því að reynslan muni sýna, að því lengur sem hún stendur, þeim mun betur uppfyllir hún vonir manna um allverulegan tekjuauka. Þetta er ástæðan fyrir því, að andstæðingarnir sækja afnám hennar svo fast nú.

Fylgjendur þessa frv. hafa ekki getað hrakið það, að af afnámi einkasölunnar myndi leiða tekjurýrnun fyrir ríkissjóð. Heldur hefir verið deilt aðeins um það. hve miklu sú tekjurýrnun myndi nema. Til þess nú að breiða yfir þessa tekjurýrnun, hefir verið borin fram sú óyndisástæða, að tóbaksnautn myndi aukast í landinu við afnám einkasölunnar og á þann hátt myndi tekjuhallinn nást. En jeg lít svo á, að þar sem tóbakið er bæði óþörf og skaðleg vara, þá væri það eitt út af fyrir sig næg ástæða til þess að halda einkasölunni áfram, ef hún hefði þau áhrif að draga úr tóbaksnautninni.

Jeg verð nú að segja, að ef þing og stjórn geta fallist á að kasta frá sjer þeim tekjum, sem einkasalan getur gefið á mjög auðveldan hátt, þá sje tvísýnt, hvort maður geti verið eins tilleiðanlegur hjer eftir sem hingað til að ljá fylgi sitt til þess að halda við hinum mikla neyðartolli frá í fyrra.

Á síðasta þingi þóttu tvö ár ekki nægilegur reynslutími. En nú eru þau orðin þrjú, og jeg verð að halda því fram, að það sje eigi að síður ónógur reynslutími. Og fyrst á annað borð er búið að setja fyrirtækið á stofn, þá er hið mesta óvit að afnema það strax. Enda ætti andstæðingunum ekki að geta verið það kappsmál, það er að segja, ef þeir trúa á sinn málstað. Þeir ættu miklu frekar að vera fúsir til að gefa þann frest, sem væri nægilegur til þess, að full reynsla fengist um fyrirtækið. Nei, sannleikurinn er sá, að þeir trúa ekki á sinn málstað, og fyrir þá sök leggja þeir svo mikið kapp á að fá frv. þetta í gegn nú.

Þar sem jafnskiftar skoðanir eru sem um þetta mál, vil jeg benda á, að búast má við, að einkasalan verði sett á fót aftur jafnskjótt og skiftir um fylgi við hana, sem ef til vill verður ekki langt að bíða. Er því slíkt hringl sem þetta afaróviturlegt.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál nú. Jeg hefi reynt að sýna fram á, hvernig jeg lít á það og hverjar afleiðingar það getur haft á afstöðu manna til annara mála.