29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi ekki miklu að bæta við þau fáu orð, sem jeg sagði fyr í þessari umræðu. En út af þeim umræðum, sem jeg hefi hlýtt á, vil jeg þó segja nokkur orð.

Umræðurnar hafa mest hnigið í þá átt að mæla með auknum útgjöldum, fram yfir það, sem fjvn. hefir lagt til.

Háttv. Nd. hefir við meðferð sína á fjárlögunum aukið raunveruleg útgjöld ríkissjóðs um 700 þús. kr. og afgreitt frv. með tekjuhalla, sem nemur milli 3 og 4 hundruð þús. kr. Og nú hefir fjvn. þessarar deildar borið fram tillögur til hækkunar útgjöldunum, sem nema samtals um 50 þús. kr. Vitanlega hefir hún farið fram á ýmsar lækkanir, sem nema samtals heldur hærri upphæð. En jeg tel tvísýnu á, að þær tillögur verði samþyktar, eða að þær fái að standa í Nd., þó aldrei nema þær yrðu samþyktar hjer.

Þá liggja og hjer fyrir hækkunartillögur frá ýmsum þingmönnum, sem nema samtals 60 þús. kr., og eftir því, sem jeg hefi skilið umræðurnar, þá þykir mjer ekki ugglaust, nema þær verði samþyktar, að minsta kosti mikið af þeim.

En ef svo fer, þá bætast hjer við útgjöldin milli 60 og 100 þús. kr., og ef neðri deild bætir svo við ennþá miklum upphæðum til útgjalda, sem fyllilega má búast við, þá er hætt við, að þingið fari ekki öldungis ámælislaust frá meðferð sinni á fjárlögunum í þetta sinn.

Það er sýnilegt af þeim tillögum, sem hjer hafa fram komið, og á það bendir öll meðferð fjárlaganna, að menn hafa látið hina góðu afkomu síðasta árs draga nokkra blæju fyrir hin góðu áform síðasta þings, svo að þau standa ekki eins skýr fyrir þeim nú eins og í fyrra. Jeg held, að það færi vel á því, að þessi deild sýndi, að hún er sá hluti þingsins, sem vænta má mestrar festu af. Og nú gefst henni tækifæri til þess að sanna þetta með því að halda nokkuð fast fram stefnu síðasta þings um afgreiðslu fjárlaganna. Þetta vildi jeg gjarnan segja áður en brtt. hv. fjvn. og einstakra hv. þingmanna koma til atkvæða. Hinsvegar ætla jeg ekki að fara neitt út í það að mæla á móti einstökum upphæðum.

Jeg vil þakka háttv. fjvn. fyrir það, að hún hefir felt úr frv. heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ganga í ábyrgð fyrir tveimur lánum. Jeg álít, að það sje öldungis óforsvaranlegt að ýta með þessu móti undir bæjarfjelög og einstaklinga til þess að ráðast í verklegar framkvæmdir, sem ekki bera alveg sjerstaklega mikinn og fljótan arð. En það er víst, að ef fjárlögin heimila stjórninni að ganga í ábyrgðir, og jafnvel þótt stjórnin sýni þá harðneskju að neita að nota heimildina, þá verður samt litið á þessa heimild sem einskonar stimpil frá þinginu, að framkvæmdin sje skynsamleg og rjett ráðin, ef hlutaðeigendur hafa einhver úrræði um að fá fje. Því var lýst greinilega af háttv. frsm. (JóhJóh), í hverju hættan væri fólgin fyrir fyrirtæki, sem stofnuð eru á þessum tímum, og skal jeg því ekki fara frekar út í það. En af þessari afstöðu leiðir það, að jeg vil fremur beiðast undan því, að heimildin á þskj. 400,XVII, um ábyrgð á láni til eins hrepps vegna rafmagnsveitu, nái fram að ganga. Því fremur, sem jeg þykist sjá af upphæðinni, að hjer er um verulega vafasamt fyrirtæki að ræða hvað snertir fjárhaginn. Jeg er hræddur um það, ef verðgildi peninga hækkar, og verð fyrirtækisins lækkar að því skapi, þá muni þing og stjórn fá litlar þakkir eftir á hjá þeim mönnum, sem eiga að verða aðnjótandi þessara hlunninda nú.

Þá ætla jeg að minnast ögn á brtt. 400, XVI, sem fer fram á heimild til þess að lána bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum 15 þús. kr. til þess að koma upp embættisbústað. Þó jeg geti ekki fullyrt um það, að fje verði fyrir hendi í viðlagasjóði til slíkra útlána, því það fer eftir því, hvað inn borgast af útistandandi skuldum og lánum, þá verð jeg að segja það, að jeg tel, að það standi nær að verja fje viðlagasjóðs til þess að koma upp sæmilegum embættisskrifstofum en til annars, sem ríkinu kemur minna við. Hvað fjárhagshliðina snertir, þá á ríkið mikið undir því, að embættisfærsla bæjarfógetans í Vestmannaeyjum sje í góðu lagi, því hjer er um að ræða eitthvert hið mesta uppgangspláss hjer á landi hvað snertir tekjur fyrir ríkissjóð. Aðstaðan er hjer einnig sjerstök að því er snertir afgreiðslu útlendra skipa og það, hvað bæjarfógetinn þarf að koma mikið fram gagnvart útlendingum. Jeg hugsa þó, ef það kennir til minna kasta að nota þessa heimild, þá muni því skilyrði verða bætt við, að lánið falli í gjalddaga þegar húsið verður ekki lengur notað sem embættisbústaður. Og með þeirri viðbót vil jeg mæla með því, að heimildin verði veitt.