02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3310 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

34. mál, mannanöfn

Sveinn Ólafsson:

Jeg vil leggja þessu frv. liðsyrði áður en gert er út um forlög þess hjer í hv. deild. Jeg hefi verið þessu frv. fylgjandi á undanförnum þingum, og vil jeg taka það fram, eins og jeg hefi áður gert, að hin mesta nauðsyn er á að stemma stigu fyrir ættarnafnafarganinu og einnig að reyna að fyrirgirða ónefnin. Með þetta fyrir augum hefi jeg borið fram brtt. á þskj. 426. Hún er hvorki fyrirferðarmikil nje efnisrík, en er þó nokkur bót á 1. gr. Jeg held það sje rjettara að leyfa mönnum að hafa tvö nöfn en að skylda þá til að hafa aðeins eitt. Jeg hygg, að fleiri hafa tekið eftir því en jeg, að mæður vilja oft halda uppi nafni föður og móður, með því að láta börnin heita hvorumtveggja nöfnum. En af þessu getur leitt hreinustu nafnaskrípi, ef ekki leyfast tvínefni, eins og t. d. þegar Páls nafn og Sigríðar verður Sigurpáll eða Sigurpálína. Mörg slík nöfn mætti telja. Þannig verður Kristþór til af Þorsteinn og Kristín o.s.frv. Þetta eru óhæfileg nöfn, og með það fyrir augum að fyrirbyggja ónefni þessu lík, hefi jeg borið fram brtt. mína.

Enda þótt prestar eigi að hafa eftirl. með nafngjöfum, býst jeg ekki við, að þeir hlutist til um, þó að börn sjeu skírð nöfnum eins og Sigurpáll eða Sigurpálína Þorvaldína, Mensaldrína o. s. frv. Jeg mun ekki fjölyrða meira um þetta, en vænti, að frv. megi ganga gegnum hv. deild tálmunarlaust.