05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurður Eggerz:

Jeg skal fyrst minnast á brtt. á þskj. 456, um lítilfjörlega hækkun á styrk til útgáfu kenslubóka fyrir mentaskólann. Jeg ber þessa till. fram eftir tilmælum tveggja kennara við mentaskólann, sem töldu styrkinn of lítinn. Jeg geri ráð fyrir, eftir þeim undirtektum, sem mál þetta fjekk við 2. umr., að öllum komi saman um að veita þessa hækkun. Það er kunnugt, að erlendar kenslubækur eru alt of margar við þennan skóla. Bæði er það óviðfeldið, og svo gerir það nemendum örðugra fyrir.

Þá á jeg brtt. á þskj. 447 ásamt hv. 2. þm. S.-M. (IP), sem fer fram á, að endanlegir samningar um skeytasamband við umheiminn sjeu lagðir fyrir Alþingi. Jeg get látið nægja það, sem jeg lýsti yfir við 2. umr., að hjer væri um svo stórt mál að ræða, að úrslit hlytu að koma undir úrskurð Alþingis. Mundi jeg hafa óskað þess, hvaða stjórn, sem við völd hefði setið. Vænti jeg, að hæstv. stjórn fallist á, að hjer sje um svo þýðingarmikið mál að ræða, að ekki sje rjett að skapa það fordæmi, að úrskurðarvaldið sje tekið úr höndum Alþingis. Jeg treysti því, að fleiri en jeg líti svona á þetta mál.

Þá á jeg till. á sama þskj. um 800 kr. styrk til útgáfu fræðslumálarits. Það hefir áður verið veittur í fjárlögunum styrkur til slíks rits, en mun hafa fallið niður í fyrra, af því að þá var ekki um neitt slíkt rit að ræða. Nú er aftur byrjað á útgáfu fræðslumálarits, og verður að teljast nauðsynlegt fyrir kennarastjettina, að slíku riti sje haldið úti. Það bindur stjettina saman og eykur eftirtekju þess fjár, sem veitt er til fræðslumála, með því að auka áhuga kennaranna og gera þá hæfari til starfsins. Jeg lít svo á, að svona rit sjeu einn liðurinn í uppeldisstarfi þjóðarinnar. Jeg hefi áður lýst því hjer yfir, að jeg hefi trú á því, að sem mest sje gert til þess að auka mentun í landinu, enda er mesta nauðsyn á, að lögð sje rækt við mentun landsmanna, eftir því meiri, sem rjettindi einstaklinganna verða víðtækari, svo sem til kosninga. Jeg vona, að þessum litla styrk verði vel tekið.

Þá ætla jeg aðeins að minnast á till. hv. þm. Vestm. (JJós) um styrk til að rannsaka vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Jeg vjek að þessu við 2. umr. og verð enn að leggja áherslu á, að þessi styrkur sje veittur. Hjer er mjög mikið í húfi að því er snertir heilsufar í Vestmannaeyjum. Því hefir verið haldið fram, að bærinn ætti sjálfur að kosta þetta. En hjer stendur alveg sjerstaklega á. Það er engin vissa fyrir því, að vatnið fáist, og dregur það eðlilega úr bæjarbúum að leggja í þennan kostnað. En jeg segi, að það verður samt að gera tilraun, vegna þess, hve hjer er mikið í húfi. Þetta er mannmargur bær. Þangað safnast vertíðarfólk úr öllum áttum, og getur altaf verið hætta á farsóttum, ekki síst þegar vont og lítið vatn er fyrir hendi. Með þessum styrk væri ýtt undir Vestmannaeyinga með að gera þessa sjálf sögðu tilraun.

Jeg tel sanngjarnt að hækka styrkinn til Þórs eins og farið er fram á. Það er viðurkent, að skipið hefir gert mikið gagn og að þeir, sem fyrir þessu björgunarfyrirtæki standa, hafa sýnt bæði dugnað og áræði. Vestmannaeyingar eiga mikla þökk skilið fyrir það fordæmi, sem þeir hjer hafa skapað. Það er kunnugt, að þó Eyjarnar sjeu fengsælar, hafa þeir í mörg horn að líta. Vestmannaeyingar hafa lagt í margskonar kostnað, bæði hafnargerð o. fl., svo að þeir hljóta að eiga margt ógreitt, enda eru útsvör þar há. Þeir leggja miklar byrðar á sig vegna áhugamála sinna, og er það því ekki nema sanngjörn viðurkenning í þeirra garð að veita þeim þennan styrk.