05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

1. mál, fjárlög 1926

Jónas Jónsson:

Hv. frsm. fjvn. (JóhJóh) áleit augnlækningastyrkinn bundinn við nafn. En úr því að hann stendur í fjárlögunum ár frá ári, þá er það sýnt, að þingið ræður þessu. Það er alveg löglegt að breyta um. Og jeg geri ráð fyrir, að það yrði bygt á þeirri trú, að sá, sem síðar hefir lært, sje betri.

Mjer fanst á hv. 1. þm. Rang. (EP), sem annars er mjer alveg sammála í bifreiðastyrksmálinu, að hann hefði ekki athugað, að það er verra, sje gamla till. látin standa. Nú stendur í fjárlögum: „bifreiðafjelag, sem njóta vill styrksins“. Þetta er ekki heppilegt, vegna þess, að það eru 2–3 fjelög, sem keppa um flutninga á vegunum austur. Það verður misræmi, ef eitt er látið hafa allan styrkinn, þótt það hefði kannske ekki nema 1/3 flutnings. Ef annaðhvort B. S. R. eða Zophónías fengi styrkinn, þá yrði útundan stór hluti Árnessýslu. Jeg vil fyrirbyggja, að nokkur, er með sanngirni á nokkra kröfu til þessa styrks, verði alveg Útundan. Hv. 1. þm. Rang. gerði því vel að styðja mína till., og því fremur, sem hún er vel rífleg í garð hans kjördæmis, sem ætlaðir eru 3/5 hlutar fjárins.

Jeg mun taka aftur síðari hluta brtt. á þskj. 447, 8. lið, viðvíkjandi Jóni Gunnarssyni, af því að hv. frsm. fjvn. (JóhJóh) mælir með því, að hann fái af þessu fje, og hæstv. atvrh. (MG) hefir heitið að taka það til greina.

Hv. meiri hl. fjvn. hjelt fast við skilning sinn á því, að styrkurinn til hjeraðsskóla væri bundinn við tvær eða fleiri sýslur. Hv. frsm. færði engin rök að þessu. Jeg hefi fært rök að hinu gagnstæða. Annars er svo mikil trygging í því, að húsameistari og stjórnarráð velji skólum staði, að hv. fjvn. ætti að hafa ráð á að sjá næst, að þannig er þeim málum best borgið.

Hæstv. atvrh. (MG) var á móti, að meira væri sparað við fiskifulltrúann. Þar verður hver að hafa sín rök. En það er ekki alveg rjett, sem hv. frsm. fjvn. sagði, að það væri nokkrum mun dýrara að lifa á Spáni en í Frakklandi. Franki hefir að vísu fallið mjög, en vegna styrjalda Spánverja hafa þeirra peningar einnig fallið. Og jeg sje yfirleitt enga ástæðu til þess, að við borgum fiskifulltrúa meira en Noregur borgar konsúl í Marseille. Það er alveg óvanalegt, að laun sjeu ekki ákveðin. Það er eins og þingið ætti að semja við ráðherra, hvað hann skyldi hafa að launum. Menn segja líka jafnvel, að bjóða megi í embætti, þegar upphæðin er ekki ákveðin. Jeg óska, að hæstv. atvrh. (MG) gefi upplýsingar um, hvort uppboð sje í vændum. Hann verður einnig að skýra frá, af hverju launin eru ekki fast til tekin.

Jeg gleymdi í dag að mæla með brtt. um styrk til Byggingarfjelagsins. Í húsi þess búa nú á þriðja hundrað manns. íbúðirnar eru myndarlegar. En fjelagið á örðugt og voru því í fyrra veittar 4–5 þús. kr., sem það notaði sjer ekki. Þetta er því endurveiting og hún er bundin skilyrði um tvöfaldan styrk annarsstaðar að. Og nú eru allar líkur til þess, að bærinn veiti það fje. Raunar býst jeg við, að engin meðmæli dugi, úr því hv. nefnd hefir snúist á móti.