09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2390)

51. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Þetta er frh. 3. umr. Henni var frestað um daginn og málinu vísað til allshn. Nál. er á þskj. 125. Þetta mál er svo einfalt, að ekki þarf miklu þar við bæta, sem sagt er í nál. Jeg tel ekki varhugavert að veita kaupstaðastjórnum slíka heimild, sem frv. fer fram á. Jeg vil vekja athygli á því, að nefndin fann tvær villur í frv., sem annaðhvort stafa af misritun eða eru prentvillur. Í frv. er vitnað í lög nr. 29, en á að vera 79. 2. málsgrein á að byrja á „enn“, en ekki „eins“. Nefndin álítur, að þetta megi laga í uppprentun milli deilda. Brtt. kom fram frá hv. þm. Dala. (BJ), á þá leið, að konfektbúðir sjeu undanskildar þessum lokunartíma. Jeg fyrir mitt leyti sje enga ástæðu til þess; það hlýtur að liggja í valdi bæjarstjórnar hvers bæjar, að sjá um, að alt fari þar sæmilega fram og setja reglur handa mönnum að fara eftir. Því sje jeg ekki ástæðu til að undanskilja konfektbúðir. Meirihluti nefndarinnar er á móti tillögunni. Tveir nefndarmenn í allshn. áskilja sjer óbundið atkv. um málið, og munu skýra frá, í hverju fyrirvarinn liggur. Eins og kunnugt er, afgreiddi hv. deild málið í fyrra, og var það þá samþykt í einu hljóði, en felt frá 2. umr. í hv. Ed. Því fór allshn. svo ítarlega í málið nú.