07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (2424)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Sigurður Eggerz:

Þar sem fasteignamatið á lóðunum nemur um 470.400 kr., en samkv. frv. er gert ráð fyrir að selja meginpartinn af þeim fyrir 200.000 kr., þá virðist mjer, að næg ástæða sje til frekari rannsóknar á verðmæti Eyjanna.

Lóðargjaldshækkun stjórnarráðsins, sem er fimmföldun á lóðargjaldinu, hendir fast á, að fasteignamatið sje síst of hátt. Og þó að hv. þm. Vestm. (JJós) væri tekinn trúanlegur og þreföldun lóðargjaldsins talin hæfileg, þá sýnir sú gjaldhækkun, hvað verðmæti Eyjanna er mikið. Leigan yrði þá 30 þús. kr. í stað 10 þús. kr. nú. Og þar sem verðmætið nú í frv. er gert 200 þús., með tilliti til 10 þúsund kr. leigu, yrði það þá 600 þúsund, ef leigan væri þrefölduð, og er þá komið yfir fasteignamatsverð.

Það viðurkenna nú allir líka, að fasteignamatið sje yfir höfuð of lágt, eins og hv. 2. landsk. (SJ) tók fram. Hjer í Reykjavík er t. d. vani að bæta 50% við fasteigamatsverðið, til þess að fá sannvirði húsanna, eins og tekið er fram í nál. okkar á þskj. 289.

Alt bendir því til þess, að fasteignamatið á lóðum Vestmannaeyjakaupstaðar sje síst of hátt, heldur miklu fremur of lágt.

Þá nýju leið í þessu máli, sem hv. frsm. minnihl. (JJós) benti á, að meta lóðirnar eftir dómi óvilhallra manna, eins og tíðkast um þjóðjarðir, tel jeg ekki sjerstaklega eftirsóknarverða að fara, og þann mikla kostnað, sem af því mundi leiða. Mjer finst sjerstaklega, að Alþingi megi á engan hátt sleppa því, að segja síðasta orðið um sölu eignar, sem er alt að 6–7 hundruð þús. kr. virði, en samkv. þjóðjarðasölulögunum ákveður stjórnarráðið verð eignanna, að fengnu matinu. Ef auk þess er svo sem hv. þm. Vestm. segir, að þetta mál sje alt í óreiðu frá hálfu umboðsstjórnarinnar, bæði frá fyrri og síðari tímum, þá er enn meiri ástæða til þess að krefjast rannsóknar, áður en málinu er ráðið til lykta.

Jeg þykist vita, að hv. þm. verði fylgjandi dagskrá þeirri, sem meirihl. ber fram, svo margvíslegar ástæður hafa verið færðar dagskránni til stuðnings.