14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2454)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Atvinnumálaráðherra(MG):

Jeg fjekk greinilegt svar hjá hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að það sje meiningin, áð bera málið fram seinna í þáltill.formi. En þáltill. þessa efnis skilst mjer, að stjórnin geti varla borið fram, þar sem að líkindum verður um áskorun á stjórnina að ræða, eins og venja er til um þáltill. Úr þessu mætti auðvitað bæta með því, að hv. þm. Vestm. (JJós) flytti till. eða einhver annar, sem vill selja, eins og t. d. hv. 5. landsk. (JJ); því að nú er það upplýst, að hann vill selja, ef nóg verð fæst, að hans dómi.

Hv. 1. landsk. (SE) þarf jeg litlu að svara. En jeg gekk ekki út frá, að það væri bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum, sem ætti að útnefna matsmennina, af því að þeir eiga að vera búsettir utan Vestmannaeyja. (SE: Hver þá?) Jeg geri ráð fyrir, að stjórnin mundi láta bæjarfógetann í Reykjavík gera það. Jeg efast um, að það sje formlegt, að bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum útnefni. (SE: Eftir reglunni um þjóðjarðasölu á að útnefna menn á staðnum.) Já, en þar er ekki tekið fram, að matsmenn skuli vera utan sýslu.

Það varð misskilningur milli okkar hv. 1. landsk. (SE) út af reikningi mínum. En við höfum nú leiðrjett hann undir fjögur augu. En hafi aðrir misskilið, er rjett að taka það fram, að jeg hugsaði mjer að leggja á vöxtu með 6% vöxtum aðeins það, sem borgað yrði umfram það, sem Eyjamar renta sig nú, og láta standa í 60 ár; þá er kaupverðið orðið alls um 1 milj., því þessi 50 þús. verða eftir 60 ár orðin 800 þús. Hefi jeg altaf gengið út frá 6%, en ekki 5%, eins og í brtt. Einnig hefi jeg sagt það, að jeg vil heldur selja allar Eyjarnar, ef þær verða seldar, heldur en part.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) kvaðst vera á móti allri þjóðjarðasölu, en fanst þó frekar ástæða til að selja, þar sem bæjarfjelag ætti í hlut. Þó skildist mjer hann vera óráðinn um, hvort hann vill selja eða ekki. En það er meiningarlaust fyrir þá, sem eru ráðnir í því að selja ekki, að greiða atkv. með að kosta til virðingar á Eyjunum.

Þá kem jeg að hv. 5. landsk. (JJ). Hann er altaf að vitna í fasteignamatið. Jeg sýndi þessum hv. þm. fram á, að lóð, sem er metin á 400 kr. í fasteignamati, rentar sig næstu 80 ár ekki meira en fyrir 100–150 kr. Þessa vill hann ekki taka tillit til, en segir, að sama ráði um þessar eignir og jarðeignir uppi í sveit. Þetta er ekki rjett, af þeirri einföldu ástæðu, að þær síðarnefndu eru ekki leigðar til svo langs tíma. Væri þær leigðar til svo langs tíma, hefði það stórkostleg lækkandi áhrif. Lóðirnar í Vestmannaeyjum hafa verið leigðar svo óheppilega, að það hefir rýrt verðgildi þeirra fyrir ríkissjóð. Nú hefir langmest af þeim verið leigt á síðustu 10 árum, svo yfirleitt eru 70–80 ár þangað til þær losna. Þrátt fyrir alt þetta leyfir hv. 5. landsk. (JJ) sjer að halda því fram, að fasteignamatið eigi að leggjast til grundvallar, þótt upplýst sje, að það geti ekki verið miðað við afgjaldið, heldur söluverð leigurjettindanna. Jeg hefi sýnt fram á það, að 70–80 ár hjer eftir gefa lóðir þessar ekki meira af sjer en þriðjung til fjórðung matsverðsvaxta, og að því væri eins hagstætt fyrir ríkissjóð að selja nú fyrir 250.000 eins og fyrir 1 milj. kr. eftir 60–70 ár. Þetta skilur hv. 5. landsk. (JJ) ekki, heldur tekur það ráð að bera mig brigslum og bregða mjer um hlutdrægni, heimsku eða tvöfeldni í málinu. En jeg læt mig það engu skifta. Fjarstæður hans snerta mig ekki.

Hv. þm. (JJ) var að tala um tvær grímur, sem jeg notaði venjulega. Minst veit hann um það, en jeg held hann hafi sjálfur tvær grímur í þessu máli. Mig grunar sterklega, að hann vilji ekki selja, en hann vill ekki segja það. Hv. þm. (JJ) hugsar sjer, að hann geti altaf bjargað sjer á því, að ekki komi nógu hátt boð.

Út af þingfrjettunum í Tímanum skal jeg viðurkenna, að jeg hjelt, að hv. 5. landsk. (JJ) hefði skrifað þær; en jeg get vel gengið inn á, að hann hafi ekki gert það; enda voru þetta rjettari þingfrjettir og betri en hann hefir venjulega skrifað. Þó má enganvegin misskilja mig svo, að þær væri rjettar, enda væri alt of mikið að búast við því.

Hv. þm. sneri alveg frá þeirri heimsku sinni, að nokkuð væri „ómóralskt“ í því að selja sinn leigurjett, en sagði, að aðferð mín í málinu væri „ómórölsk“; því hefir hann ekki fundið upp á fyr. Næst verður það líklega „ómóralskt“ hjá hv. þm. Vestm. (JJós) að bera þetta frv. fram. Annars vil jeg benda hv. 5. landsk. (JJ) á, að maður eins og hann getur ekki greint í sundur, hvað er „móralskt“ og hvað „ómóralskt“.