05.03.1925
Neðri deild: 26. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í C-deild Alþingistíðinda. (2688)

32. mál, varalögregla

Björn Líndal:

Þessar umræður hafa nú staðið í fjóra daga, og þó jeg hafi margsinnis fundið ástæðu til að tala, þá hefi jeg altaf horfið frá því aftur, því að jeg vildi mjög ógjarna lengja umræðurnar fram úr hófi, sjerstaklega eins og þessar umræður hafa snúist.

Jeg hefi verið á mörgum fundum um dagana. Jeg hefi verið á æsingafundum, bæði í sveit og kaupstöðum, þar sem verið hafa til umræðu hin mestu hita- og æsingamál. Jeg hefi verið á strákafundum, þar sem strákslega hefir verið talað um strákslega hluti og hjegómlega um hjegómamál. Jeg hefi meira að segja verið staddur þar, sem brjálaðir menn hafa átt í orðasennu. En aldrei hefi jeg hlustað á ræður líkar sumum þeim, sem hjer hafa verið fluttar í þessu máli á sjálfu Alþingi Íslendinga.

Jeg hefi aldrei fyrri hlustað á jafnsvívirðilegar dylgjur, aldrei verið viðstaddur, þar sem loftið hefir verið eins blandað heift og hatri og hjer, aldrei heyrt óþokkalegri skammir nje ósvífnari rangfærslur. Undir öllu þessu hefi jeg setið þegjandi, miklu lengur en sætt hefir verið. En lengur nenni jeg ekki að sitja undir slíkum lestri, án þess að leggja orð í belg.

Hjer, þar sem valinn maður ætti að skipa hvert rúm, hjer, þar sem þjóðin væntir, að fegurstu hugsjónir hennar og framtíðardraumar rætist og göfugustu hugsanirnar ættu að vera hugsaðar, þar slappast nú hver heiðarleg taug í hverjum góðum dreng í manndrápsveðri úlfúðar og rógburðar. Og eigi íslensk þjóð sjer nokkurrar viðreisnar von, þá verða allir góðir menn að taka höndum saman um það, að hjer verði umskifti á. Hingað og ekki lengra!

Mjer þykir rjett að taka það fram, að þó að jeg verði, vegna þingskapanna, að ávarpa þá menn, sem hjer hafa staðið fremstir í því að gera þjóðinni minkun, sem „háttvirta þm.“, þá meina jeg ekki meira með því, en þegar hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talar um drengskap eða hv. þm. Str. (TrÞ) um sannleika. Þeir, sem hjer hafa lengst komist í ósómanum, eru þeir hv. 2. þm. Reykv. (JBald) og hv. 1. þm. Árn. (MT). Við þann síðarnefnda vil jeg sem minst tala, og enn minna um hann. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) verður að segja það til afsökunar, að hann er í þeim flokki, að ekki verður sagt, að hann sigli undir fölsku flaggi. Sá flokkur er best þektur að æsingum, stóryrðum, rógi og rangfærslum, eftir blöðum hans að dæma. Öðru máli er að gegna með hv. þm. V.-Ísf. (AÁ) og hv. þm. Str. (TrÞ), sem báðir eru guðfræðingar, annar lærimeistari kennara, og hinn maður, sem hefir gert tilraun til að verða uppfræðari íslenskra presta og er nú ritstjóri að blaði, sem illu heilli hefir komist inn á of mörg heimili þessa lands. Á þessum mönnum hvílir því meiri siðferðisleg ábyrgð en á flestum öðrum þingmönnum, meiri en ætla má, að þeir hafi gert sjer grein fyrir sjálfir, eftir framkomu þeirra hjer í hv. deild að dæma. Og þetta eru menn, sem þykjast vera að sporna við því, að „Grimsby-lýðurinn“, sem þeir nefna svo, nái yfirtökum í þessu landi, en til hans telja þeir kaupstaðabúa og sjómenn. Þeir þykjast vilja sporna við því, að unglingarnir úr sveitinni siðspillist í kaupstöðunum. En eru þeir sjálfir þessum óspilta æskulýð til fyrirmyndar? Hjer á pöllunum er nú fult af áheyrendum, og margir ungir. Sennilega eru sumir þeirra nýlega komnir hingað úr sveit. Hvað læra þeir hjer af þessum hv. leiðtogum sínum? Geta þeir lært af þeim að haga sjer eins og siðuðum mönnum sæmir? Nei, af þessum mönnum læra þeir einmitt það, sem ungum mönnum er allra skaðlegast að læra, og það er ódrengskapur, undirhyggja, ósannsögli og yfirskin guðhræðslunnar.

það var vel farið, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) mintist á næstu kosningar. Jeg hefi oft verið við kosningar riðinn, en aldrei neinar, þegar meiri uggur og ótti hefir verið í mönnum en við síðustu kosningar. Atvinnuvegirnir voru í afturför og menn sáu, að svo búið mátti ekki vera. Ríkisfjehirslan var tóm og bæði ríkissjóður og einstaklingar í botnlausum skuldum. Gengi peninga okkar fjell meira og meira. Þjóðinni var það því lífsspursmál, að sem best tækist til með þingmannavalið að þessu sinni. Og eftir kosningarnar var naumast unt að segja annað með rjettu en það, að þjóðin hafði ástæðu til þess að vera sæmilega ánægð með úrslitin. Jeg veit ekki, hve miklar vonir kjósendur hafa gert sjer um þá þingmenn, sem hjer hafa lengst vikið frá vegi sæmilega góðs og heiðarlegs þingmanns, en hitt veit jeg, að jafnvel þær litlu vonir, sem jeg gerði mjer um þessa menn, hafa orðið sjer tilfinnanlega til skammar. Í stað þess að tala í einlægni og alvöru um alvarlegustu mál þjóðarinnar, eyða þeir mörgum dögum þingsins til þess að reyna að æsa þjóðina upp á móti því, að unt verði að halda uppi lögum og reglu í landinu. Þeir eru að æsa þjóðina til þess að virða að vettugi og brjóta þau lög, sem þeir sjálfir eru að setja, og þiggja borgun fyrir.

Það eru einmitt þessir menn, er blása mest að ófriðarkolunum og stjettahatrinu. Þeir halda klukkutímalangar ræður um þetta mál, eða öllu heldur í sambandi við þetta mál, ekki til þess að tala um það af nokkru viti, heldur til þess að ráðast á vissa menn í landinu. Þeir hafa barist með hinum ódrengilegustu og verstu vopnum og saurkasti. Og þegar þeir hafa dögum saman ausið ærumeiðingum og illgirnislegustu aðdróttunum yfir hæstv. forsrh., þá hneykslast þeir á því, að hann skuli loks neyðast til þess að gjalda þeim dálítið líku líkt. Þeir vita, að ljett er að sigra heiðarlegan mann með ódrengilegum vopnum, meðan þeir hika við að grípa til samskonar vopna sjer til varnar. En það má brýna svo deigt járn að það bíti um siðir. Og ef þeir eru beittir þeim sömu vopnum og þeir sjálfir beita, þá geta leikslokin orðið önnur en þeir ætlast til.

Einhver fáránlegasta fjarstæðan, sem heyrst hefir í þessu máli, er sú, að hjer sje verið að stofna til blóðsúthellinga. Jeg hefði naumast getað trúað því, að slík reginvitleysa væri sögð hjer á Alþingi, ef jeg hefði ekki heyrt það sjálfur.

Halda þessir hv. herrar, að þeir geti til lengdar talið nokkrum heilvita manni trú um það, að stofnað sje til blóðsúthellinga og bróðurvíga með aukinni lögreglu og löggæslu í landinu? Nei, það eru þeir sjálfir, sem stofna til bróðurvíga með því að æsa til stjettahaturs. Það eru þeir, sem eru að setja Kainsmerkið á enni þessa þings. Nú mundi jeg særa þessa hv. þm. við drengskap þeirra, ef þeir ættu nokkurn drengskap til — (Forseti, BSv (hringir): Jeg vil áminna hv. þm., að haga orðum sínum sæmilegar!) — Þetta, sem jeg er nú að segja, er hreinasta barnahjal í samanburði við orðbragð ýmsra annara þm. Þeir vita, að það er hættulegur leikur að kynda glóðum heiftar milli stjetta í þessu landi, og jeg vil vara þá við því, að fara lengra í því en orðið er. Sá eldur getur að lokum brent þá sjálfa.

Jeg hefi ánægju af því, að hv. forseti skyldi setja ofan í við mig. Jeg hefi þá ekki til einskis upp staðið, ef hv. þm. gættu betur hófs í ræðum sínum eftir en áður. Jeg vil enda mál mitt með því að geta þess, að jeg er alþýðuættar og alinn upp við fátækt. Jeg er of kunnugur basli og erfiðleikum alþýðunnar til þess að jeg geti annað en viljað henni vel. það má ef til vill telja alþýðu trú um það, að jeg sje hjer vargur í vjeum. Mjer fellur það sárt, ef þetta tekst. En hitt þætti mjer sárara, ef það yrði rjettilega um mig sagt, að jeg viki hársbreidd frá sannfæringu minni til þess að reyna að komast hjá upplognu ámæli. — Jeg styð þetta mál, vegna þess að jeg veit, að allri þjóðinni er það fyrir bestu, að þetta land sje bygt með lögum.