12.02.1925
Efri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í C-deild Alþingistíðinda. (2732)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get algerlega látið mjer nægja að vísa til athugasemda þeirra, er frv. þessu fylgja. Það hefir að vísu verið sagt, að breytingum þeim, sem frv. fer fram á, hefði eins vel mátt koma á með reglugerð. Jeg hefi þó álitið betra og rjettara að gera það með lögum, eins og gert hefir verið í nálægum löndum.

Þetta, sem krafist er með frv. þessu af kennurum ríkisskólanna, er ekki eins mikið og t. d. við samskonar skóla í Danmörku, þegar tillit er til þess tekið, að skólaárið er þar lengra. Í sjálfu sjer er hjer ekki um neitt stórmál að ræða, en auðsætt er, að með þessum breytingum er þó hægt að spara dálítið.

Það má vel vera, að færa mætti aldurstakmark kennara, sem full stundatala er ætluð, úr 60 árum niður í 55 ár. Þetta og því um líkt vænti jeg að hv. mentmn. — því að til hennar mun frv. fara — athugi nánar og afgreiði það síðan sem líkast eða í líku formi og það er nú.