12.02.1925
Efri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Það má vera, að það sje rjett hjá hv. 5. landsk. (JJ), að kenslustundafjölda við kennaraskólann mætti telja 27 stundir á viku, ef tekið væri tillit til stílaleiðrjettinga. En þannig hefir ekki verið talið, nje er talið í mentaskólanum. En við hann er, eins og rjett er, miðað í frv.

Jeg ljet þess getið, að jeg teldi ekki of mikið að setja kenslustundafjöldann þar 30 á viku, og hafði skólastjóri aðeins það að athuga, að sjer sýndist ekki sanngjarnt að ákveða stundafjöldann svo háan, nema sama væri gert við hliðstæða skóla, t. d. gagnfræðaskólann á Akureyri. Kenni kennarar kennaraskólans nú 27 stundir, er viðbótin ekki mikil, svo að þessi agnúi, sem hv. 5. landsk. (JJ) var að tala um, virðist mjer æði smávaxinn. En það er satt, að þessi viðbótarkensla getur ef til vill haft dálítil áhrif á laun þeirra kennara, sem hafa aukatíma við skólann framyfir skyldukenslu. En þá er þess að gæta, að flestir þessir kennarar eru síst ver launaðir heldur en aðrir embættismenn þjóðarinnar, t. d. hafa kennarar Akureyrarskólans langt sumarfrí og gætu eflaust aukið tekjur sínar þann tíma með ýmsu móti.

Jeg get ekki fallist á, að frv. þetta sje á neinn hátt ósanngjarnt í garð kennaranna, en á hitt skal jeg fallast með hv. 5. landsk. (JJ), að nauðsyn beri til að bæta launakjör allra starfsmanna landsins yfirleitt. Jeg hefi ekki heyrt hann halda slíku fram áður, en gott að eiga von á stuðningi frá honum, er farið verður fram á bætt kjör starfsmanna ríkisins.