02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Jeg geri það nauðugur, að tala hvað eftir annað í þessu máli. Ekkert nýtt hefir komið fram, nema það, sem hv. 6. landsk. (IHB) mintist á, um leikfimiskennara, að ekki væri sanngjarnt að heimta, að þeir kendu fleiri stundir en aðrir kennarar. Jeg viðurkenni, að mjer er þetta atriði ekki kappsmál, en jeg held þó, að alment sje álitið, að þeir geti það. Það virðist ekki ósanngjarnt, að þeir kenni fleiri stundir en aðrir, þó ekki sje nema vegna þess, að þeir munu kenna styttri tíma af árinu en aðrir kennarar. Þótt jeg segði, að kensla í ríkisskólunum væri ekki meira þreytandi en mörg önnur embættisverk, þá er það auðvitað, að mjög er áríðandi, að kennarar ofþreytist ekki. Þessvegna er það víða orðinn siður, að veita kennurum endrum og sinnum langt frí, t. d. ársfrí frá störfum, og styrkja þá til utanfara. Ef mönnum sýndist að koma því á hjer, skyldi jeg styðja það. En þess á milli vil jeg láta nota krafta þeirra.

Þó ekki komi það þessu máli við, þá skal jeg taka fram, að jeg álít, að kenslutíminn sje alt of langur fyrir nemendur, og það í öllum skólum.

Jeg staðhæfi, að hjer er ekki farið fram á neitt, sem ekki er fullkomlega sanngjarnt og rjett. Það er alt annað mál, hvernig farið er með kennarana að öðru leyti, og skal jeg ekki fara út í það.