06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í C-deild Alþingistíðinda. (2885)

76. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Magnús Torfason:

Jeg stend ekki upp til þess að ræða efni þessa frv. Jeg býst við, að það gangi til nefndar, sem jeg á sæti í, og er þá siður minn að geyma aths. mínar, þangað til nefndin tekur málið til meðferðar. En það voru nokkur orð hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem gerðu það að verkum, að jeg get ekki látið undir höfuð leggjast að segja örfá orð við þessa umr. Hv. þm. (JakM) vildi halda því fram, að lögskýringin, sem jeg lýsti hjer á dögunum í sambandi við þessi mál, væri orðin gömul og úrelt. Það er rjett, að hún er gömul, en hún er líka ný og enganvegin úrelt, því að allir dómar landsyfirrjettarins um þessi efni hafa staðfest hana síðan. Umrætt ákvæði um lögheimili kom inn í sveitarstjórnarlöggjöfina árið 1889 og hefir alla tíð síðan verið tekið óbreytt upp í lög um sveitarstjórnarmálefni og einnig yfirleitt upp í lög um málefni kaupstaðanna. Þetta ákvæði hefir sem sagt verið rauði þráðurinn í allri löggjöf vorri um útsvarsálagningu síðan.

Að því er snertir útsvarsálagningu Ölvesinga, ber þess að gæta, að hún kemur ekki málinu við. Nú er frómt frá því að segja, að í þessum hreppi og fleirum voru menn farnir að seilast nokkuð eftir útsvörum. Um þetta tilfelli, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gat um, get jeg ekki sagt neitt, man það ekki. En jeg get skýrt frá því, í sambandi við það, sem hv. þm. (JakM) sagði, að einn vel efnaður maður í þessum bæ á eina af landnámsjörðunum þar eystra, það er að segja, hann hefir ekki eignarrjett yfir jörðinni, heldur á hann 20 þús. króna veðskuld í henni, en annar maður hjer í bæ, sem ekkert á til, hefir eignarrjettinn, og af honum hafa einu sinni náðst 50 krónur í útsvar. Yfirleitt eiga Ölvesingar við það að búa, að jarðir komist í hendurnar á Reykvíkingum fyrir svo hátt verð, að þær verða ekki leigðar með þolanlegu eftirgjaldi og standa því í eyði.

Annars mun jeg ekki fara fleiri orðum um þetta.