12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

90. mál, ungmennafræðsla

Forsætisráðherra (JM):

Eins og hv. flm. (ÁÁ) tók fram, er frv. þetta að miklu leyti bygt á frv. milliþinganefndar í kenslumálum, sem starfaði fyrir skömmu.

Jeg viðurkenni það, að það er mikil nauðsyn, að einhver festa gæti komist á þetta mál. Ungmennaskólarnir þjóta upp býsna reglulaust. Sumir þeirra munu auðvitað halda áfram til langframa, sjerstaklega 2–3 skólar, sem hafa verið talsvert sterkir og fjölsóttir. Aðrir detta úr sögunni óðar en varir, eftir svo sem 2–3 ár. Ef nú væri hægt að fyrirbyggja, að þessir ungmennaskólar yrðu of margir, væri þegar mikið gagn unnið með slíkum lögum sem þessum. Það mun að mörgu leyti heppilegast, að ungmennaskólarnir sjeu fáir; því það er ekki hægt að halda uppi mörgum skólum slíkum.

Í 4. gr. er gefin nokkru víðtækari heimild til þess að stofna annarskonar unglingaskóla. Jeg verð að segja það, að sú heimild er þannig vaxin, eftir minni skoðun, að það er ekki vel hægt að sjá fyrir, hvað mikil útgjöld fyrir ríkissjóð framkvæmd hennar muni hafa í för með sjer.

Eins og nú stendur, eru styrktir 12 ungmennaskólar. Þar af eru 3–4, sem að líkindum verða stöðugir skólar. Hitt er meiri og minni kensla eins og sú, sem gert er ráð fyrir í frv. Jeg held, að Þingeyingar hafi 2 skóla — fyrir utan skóla Arnórs Sigurjónssonar — sem hafa notið styrks.

Það er ómögulegt að gera sjer fullljóst, hvað kostnaður ríkissjóðs til ungmennafræðslu mundi vaxa við framkvæmd frv. þessa. En það er alveg auðsætt, að tillagið verður að vaxa mjög mikið. Mjer reiknast svo til, að ef 5 skólum verður komið upp, mundi árlegur styrkur þeirra allra koma til með að nema fram undir 60–80 þús. kr. Hvað mikið yrði borgað eftir 4. gr., skal jeg ekki segja, en jeg gæti trúað því, að það yrði ekki minna en nú er veitt á fjárlögum til unglingafræðslu. Þetta tekur hv. mentmn. til athugunar, og gerir sjer ljóst, hve mikinn kostnað mundi af leiða. Jeg geri ráð fyrir, að þó að hjer sje ekki talað um föst laun, mundi vera dýrtíðaruppbót við unglingaskólana, og út frá því hefi jeg reiknað.

Það mætti máske skjóta því fram, til athugunar fyrir hv. nefnd, að hún tali við þá menn, sem upphaflega bjuggu frv. til.