20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í C-deild Alþingistíðinda. (2972)

114. mál, ríkishappdrætti

Jakob Möller:

Jeg neita ekki, að mjer kom dálítið á óvart, að frv. þetta skyldi koma fram og verða samferða tóbakseinkasölunni, enda flaug mjer í hug, hvort ekki mætti um það segja, eins og stendur í vísunni:

Kemur einn, þá annar fer,

ungur sveinn í staðinn.

Að minsta kosti virðist mjer eins og samband geti verið milli þessara tveggja mála, er jeg nefndi.

En hitt vil jeg segja fyrir mig, að einu gildir, hvort frv. eins og þetta er borið fram í ríkisrekstrarformi eða ekki; jeg verð altaf á móti því. Enda tók jeg það fram í fyrra, er frv. sama efnis var hjer til umr., að jeg væri á móti því, að löggjafarvaldið fjefletti almenning með svikaspili. Og nú tek jeg það enn fram, að það er óviðeigandi og ekki sæmandi, að ríkið stofni til rekstrar, sem ekki er annað en svikamilla, og hugsi sjer með því að afla tekna í ríkissjóð. því að það er svikaspil, að veifa því framan í almenning, að hjer sje um gróða að ræða, gróða, sem aldrei fæst. Þetta er líka auðsætt af því, að vinningarnir miðast við, hvað mikið selst. Nú er vitanlegt, að aldrei selst svo mikið, að vinningarnir geti orðið eins miklir og ráðgert er í útboðunum. Þetta verður því hreint og beint fals og prettir

Hv. aðalflm. (MJ) sagði eitthvað á þá leið, að allur almenningur mundi kaupa hlutamiðana með glöðu geði og fúsum vilja. Jú, jeg gæti hugsað mjer, að fátæki maðurinn tæki bitann frá munni barnanna og keypti hlutamiða, í von um, að happið, sem aldrei kemur, væri á næstu grösum.

Annars ætla jeg ekki að orðlengja frekar um þetta. Jeg hefi frá upphafi verið á móti þessu máli, og jeg mun ekki ljá þessu frv. atkv. mitt til 2. umr.