16.04.1925
Efri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3074)

107. mál, viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi

Ingibjörg H. Bjarnason:

Hv. þm. Snæf. (HSteins) hefir nú flutt snjalla og ítarlega ræðu um báða liði till. á þskj. 236 og sýnt fram á, hve nauðsynlegt er að hraða viðbótarbyggingunni á Kleppi sem allra mest. Jeg er hv. flm. sammála í öllum aðalatriðum till. og kannast fyllilega við nauðsynina á því, að haldið sje áfram með Klepp. Þótt jeg hafi ekki beitt mjer neitt fyrir það mál — áleit, að það ætti svo marga og öfluga formælendur hjer á þingi — sbr., að á þinginu 1923 var því haldið fram af þáverandi stjórn, að Kleppsviðbótarbyggingin yrði að ganga fyrir öllu. Þessi liður till. er því gamall kunningi, sem jeg beygi mig fyrir enn þá, ekki síst eftir að jeg hefi nú heyrt ástæður hv. flm. (HSteins). Get jeg svo látið útrætt um þennan fyrri lið till.

Hv. flm. hefir í ræðu sinni rakið sögu landsspítalamálsins á tveimur undanförnum þingum, og hv. þdm. er því ljóst, hvernig málið horfði við í byrjun þessa þings.

Fyrir rás viðburðanna hefi jeg ekki getað hreyft landsspítalamálinu fyr á þessu þingi.

Jeg átti kost á að vera meðflm. till. þeirrar, sem hjer liggur fyrir, á þskj. 236, en þótt jeg teldi mjer það sóma og í alla staði ljúft, þá gat jeg það ekki að svo búnu máli.

Hv. þdm. er ef til vill ekki kunnugt um, að stjórn landsspítalasjóðsins hefir á síðustu árum reynt á ýmsa lund að hafa áhrif á það, að byrjað yrði sem fyrst á byggingu landsspítalans, og því til sönnunar má benda á tilboð landsspítalasjóðsnefndarinnar til ríkisstjórnarinnar 2610. 1922, þar sem hún býðst til að leggja fram f je, 20000 kr., til þess að hraða undirbúningi landsspítalabyggingarinnar. Þar næst bauð stjórn landsspítalasjóðsins með brjefi 21. febr. 1924 ríkisstjórninni að lána alt að helmingi sjóðsins, þá rúmlega 120000 kr., gegn tvöföldu framlagi úr ríkissjóði og því skilyrði, að byrjað yrði á verkinu, þ. e. byggingu spítalans, þegar eftir að lánið væri tekið.

Þetta sama tilboð lá enn fyrir í byrjun þessa þings; sjóðsnefndin hafði ekki afturkallað það og var líkleg til þess að teygja sig enn þá lengra, ef trygging fengist fyrir því, að fje þetta gæti hrundið málinu í framkvæmd. Auðvitað hafa konur ekki viljað afhenda fje það, er þær hafa safnað á síðastl. 10 áfram með allmikilli fyrirhöfn, án þess að sýnt væri, að það kæmi að tilætluðum notum,

Í skipulagsskrá sjóðsins frá 19. júní 1916, staðfestri 24. nóv. s. á., segir, að konur þær, er standa að fjársöfnun í landsspítalasjóð Íslands, ætli að styðja að því, bæði í orði og verki, að reistur verði sem fyrst fullkominn landsspítali hjer í Reykjavík. Að reisa spítalann hafa konur aldrei ætlað sjer, því það var ofurefli þeirra.

Eins og hæstv. forsrh. (JM) tók fram í síðustu ræðu sinni, hafa undanfarið staðið yfir samningar milli ríkisstjórnarinnar og landsspítalasjóðsnefndarinnar um það, að sjóðsstjórnin ljeti þegar á þessu ári fje af hendi til þess að hægt væri að byrja á byggingu landsspítalans þegar á þessu sumri.

Það gleður bæði mig og aðra vini þessa máls, að svo virðist, sem landsspítalinn eigi marga stuðningsmenn í báðum deildum þingsins. Og það er aðalatriðið, að nú er vaknaður almennur áhugi fyrir því að koma spítalanum upp. En hitt greinir menn á um, bæði hvenær spítalinn skuli reistur og fyrir hvaða fje. Á fundi, sem stjórn landsspítalasjóðsins boðaði til 15. mars síðastl. og hv. þingmenn voru boðnir á, var landsspítalamálið rætt frá ýmsum hliðum, og allir, sem tóku til máls á fundinum, virtust vera sammála um, að málið væri svo nauðsynlegt, að ekki væri unt að slá því enn á frest um óákveðinn tíma.

Bæði í fyrra og nú hefi jeg fengið yfirlýstan vilja læknafjelags Reykjavíkur og læknadeildar háskólans um þetta mál, og hafa öll plögg, sem að því lúta, legið frammi hjer í lestrarsal Alþingis. Þannig hafa hv. þdm. átt kost á að kynna sjer, hvernig þeir, sem mesta þekkingu hafa á nauðsyn landsspítalans, líta á málið.

Það kemur bæði fram í álitsskjali læknanna og till. hv. flm., hve nauðsynin er margföld á því að koma hjer upp landsspítala, enda virðast nú allir sammála um þörfina. Háttv. flm. (HSteins) taldi fram ýmsar ástæður um nauðsyn landsspítala, þar á meðal þá, að hann ætti að búa læknanemendur undir starf sitt og sömuleiðis hjúkrunarkonur og ljósmæður. Þetta er alveg rjett, og þegar við athugum það, að hjúkrunarnemar eru útilokaðir frá því að stunda nám við Landakotsspítalann, getur manni skilist, að ekki sje vel ástatt í því efni fyrir þeim konum, er það nám vilja stunda. Þær eiga ekki í annað hús að venda en þessa þrjá spítala: Vífilsstaði, Klepp, eða sjúkrahúsið á Akureyri. En sú mentun, er þær geta fengið á þessum stöðum, er hvergi nærri fullnægjandi.

Fyrir tilstilli frú Bjarnhjeðinsson, sem manna mest hefir látið mentun íslenskra hjúkrunarkvenna til sín taka, er þó svo komið, að stúlkur, er numið hafa hjúkrunarfræði hjer heima og ætla sjer að ljúka fullkomnu hjúkrunarnámi, geta komist að í ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn, og er þá tekið tillit til þess náms, er þær hafa notið hjer heima. Þetta getur þó ekki orðið viðunandi í framtíðinni.

Jeg er hv. flm. (HSteins) þakklát fyrir hlýleg ummæli hans í garð okkar kvenna, fyrir það, að við höfum látið málið til okkar taka og lagt á okkur mikið starf þess vegna. Og jeg get fullvissað hv. þdm. um það, að konur munu styðja málið uns það er komið í framkvæmd. En það hefir orðið erfiðara með hverju árinu að fá konur og karla til að styðja málið, vegna þess, að þeim hefir fundist framkvæmdir dragast alt um of á langinn. Jeg hygg samt sem áður, að þegar ráðist er í framkvæmdir, muni vakna nýr áhugi fyrir málinu og aukast tillög í landsspítalasjóðinn. Jeg tel gott, að málið er komið á þennan rekspöl, því að margar hendur vinna ljett verk, og áhugi sá, sem nú er vaknaður fyrir landsspítalamálinu hjer á Alþingi, er mjer gleðiefni. Hinu get jeg ekki neitað, að mjer kom það allkynlega fyrir, að tveir hv. þm. í Nd. höfðu ráðstafað fje landsspítalasjóðsins, sem hvorki þeir nje jeg gat ráðstafað án samþykkis rjettra hlutaðeigenda, þ. e. landsspítalasjóðsnefndarinnar. Má vera, að þeir hafi gert þetta af áhuga fyrir málinu.