21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í D-deild Alþingistíðinda. (3352)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) virðist hafa misskilið það, sem jeg sagði um afstöðu eins flokksbróður hans í hv. Nd. Jeg benti á ummæli hans því til sönnunar, að málið sje ekki flokksmál.

Um nefndarskipunina sjálfa verð jeg að segja það, að jeg get ekki sjeð mun á eyðslu við það að skipa óþarfa nefnd eða óþarft embætti.

Jeg hefi ekki borið fram till. um að vísa málinu til stjórnarinnar til þess, að það skyldi verða því til trafala. Hæstv. stjórn hafði áður lýst yfir því, að gefnu tilefni, að hún væri fús til að taka það að sjer og ráða því til lykta á sama hátt og þáltill. gerir ráð fyrir. Þetta er ekki að svæfa málið. En þar sem stjórnin treystir sjer til þess að afgreiða það, verður það ódýrara en með nefndarskipun.