27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

86. mál, Landhelgissjóður

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vona, að þetta frv. sæti sömu góðu meðferðinni í þessari hv. deild eins og í hinni deildinni. Jeg geri ráð fyrir því, að allir hv. þm. sjái nauðsynina á því að auka landhelgisgæsluna svo mikið sem oss framast er unt. Það hefir sýnt sig árið sem leið, að það mundi vera mjög hyggilegt að hafa lítið skip, togarabygt, til landhelgisvarna, og þótt það megi búast við því að hafa hið sama skip áfram, sem haft var í fyrra, þá veitir ekki af að bæta öðru við. Á hinn bóginn geri jeg ráð fyrir því, að ef þrjú skip eru til varnar, þá muni sæmilega sjeð fyrir þessu máli.

Jeg ætla ekki að orðlengja frekar um þetta, því að umr. hafa orðið svo miklar um önnur mál, sem þó eru miklu smærri en þetta, og vona jeg, að frv. fái að ganga til 2. umr., og síðan sje máske rjett, að sjútvn. taki það til athugunar. Það þykir máske rjettara, enda nógur tími til þess.