01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

31. mál, sektir

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Þetta frv. er stjfrv. Það hefir verið samþykt í hv. Nd. með nokkrum orðabreytingum á 4. gr. Frv. á að koma í staðinn fyrir 31. gr. hinna almennu hegningarlaga, 25. júní 1869. En þar sem ákvæðin eru sett 1869, eru þau orðin úrelt, m. a. af því, að gildi peninga hefir breyst mjög á síðari árum. Aths. við frv. eru ítarlegar og upplýsandi, og vil jeg því vísa til þeirra. Hingað til hefir verið munur á sektum, eftir því hvort dæmt hefir verið eftir hegningarlögunum eða öðrum hegningarákvæðum. Þegar sektir eru nú dæmdar eftir hegningarlögunum, er jafnan í sama dómnum ákveðin vararefsingin, er koma skal í stað sektarinnar, ef hún er ekki öll greidd innan ákveðins tíma. En þegar sektum hins vegar er beitt utan hegningarlaganna, koma til framkvæmda fyrirmæli tilskipunarinnar frá 25. júní 1869, sem tiltekur, hve mikið skuli afplána af sektinni með hverjum degi fangelsisvistar, og má það aldrei vera meira en 5 krónur á dag. Þegar þessi ákvæði voru sett í lög, voru peningar í háu verði og kaupgjald þar af leiðandi lágt, og var þetta því sanngjarnt þá, enda voru sektir allar lágar, er hæsta sekt, sem dæma mátti í samkvæmt hegningarlögunum, var 2000 kr. En á síðari tímum hafa verið sett ýms lög með ákvæðum um miklu hærri sektir, svo sem lögin um bann gegn botnvörpuveiðum og einkasölulögin, sem færa sektarhámarkið upp í 20 þús. kr., og á ófriðarárunum giltu lög og tilskipanir, sem varðaði alt að 100 þús. kr. sektum að brjóta gegn ákvæðum þeirra. Tilskipunin frá 25./6. 1869 er því orðin úrelt og óviðunandi, því samkvæmt henni hefði erlendur togaraskipstjóri, er nýlega var hjer dæmdur í háa sekt, orðið að sitja 11 ár í fangelsi, áður en hann hefði afplánað alla sektina, ef hann hefði ekki verið leystur út með því, að sektin var greidd fyrir hann. Nú er í þessu frv. svo ákveðið, að um leið og sektin er ákveðin, skuli vararefsingin einnig tiltekin, og er ætlast til, að til 200 kr. sektarupphæðar komi aldrei meira en 20 daga fangelsi. Er því ekki hægt að afplána minna en 10 kr. á dag samkvæmt þessum ákvæðum, en í framkvæmdinni verður venjulegast afplánað miklu meira, þar sem fangelsistíminn má ekki fara fram úr 3 árum alls. Samkvæmt núgildandi lögum má dæma í alt að 30 þús. kr. sekt fyrir ýms lögreglubrot, en er vararefsingin getur ekki farið fram úr þriggja ára fangelsi, svarar það til þess, að 10 þús. kr. verði afplánaðar á ári, í stað 1800 kr. samkvæmt tilskipuninni frá 1869. Þá er hjer eitt nýmæli í þessu frv., að bannað skuli að leyfa mönnum að afplána sektir í fangelsi við vatn og brauð. Með þeim hætti var afplánað 6 sinnum meira, eða 30 kr. á dag, en nú er í öllum nýrri tíma hegningarlögum horfið frá þeirri tegund refsingar og hún ekki viðhöfð lengur, og þykir því rjett að taka þetta einnig í lög hjer hjá okkur. Jeg mun svo ekki fjölyrða frekar um mál þetta, en jeg get þess, að vararefsingin má aldrei vera harðari en það, að minst sjeu afplánaðar 10 kr. á dag, en það má ákveða, að miklu meira sje afplánað með hverju dagsfangelsi, enda verður svo, er um hærri sektir er að ræða.

Í frv. er svo ákveðið, að ákveða skuli í dómi, úrskurði eða sátt frest til sektargreiðslu. Lít jeg svo á, að þessi frestur eigi að vera mun lengri en aðfararfrestur í sakamálum og lögreglumálum, því hann myndi reynast alt of skammur fyrir sökunaut til öflunar fjár til sektargreiðslunnar, ef um háar sektir er að ræða. Leyfi jeg mjer að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra, hvort hann sje mjer ekki sammála um þetta.

Aðfararfresturinn í lögreglumálum — 3 sólarhringar — væri t. a. m. alt of stuttur ef um nokkra verulega sektarupphæð væri að ræða.

Þá er enn það nýmæli í þessu frv., að sýslumenn og bæjarfógetar skuli annast um afplánun sekta. Þetta hefir ekki verið ákveðið í lögum hjer til þessa, en var þó venjan, eins og segir í athugasemdunum við 5. gr. frv.

Meðan landsyfirdómurinn var við lýði, var venjan sú, að hann sendi dómsmálaráðuneytinu ágripsútskriftir af sektardómum einnig í einkamálum, er dómsmálaráðuneytið svo sendi hlutaðeigandi sýslumanni eða bæjarfógeta til fullnustugerðar, en síðan hæstirjettur var settur á stofn, hefi jeg ekki orðið þess var, að þessari reglu væri fylgt, og tel jeg það skaða, því hætt er við, að ekki komi öll kurl til grafar að því er hæstarjettardómana snertir.

Jeg skil þessa grein frv. svo, að það sje sá dómari, sem ákveður sektina ásamt vararefsingunni, sem skuli annast um afplánun sektarinnar, en ekki sá valdsmaður, sem sökunautur var fyrst fluttur til. Um sektir í einkamálum vil jeg taka það fram, að jeg efast um, að allar þær sektir, sem þannig hafa verið gerðar á hendur mönnum og ekki hafa fengist greiddar, hafi verið afplánaðar. Jeg hygg, að þar muni ekki ætíð hafa komið öll kurl til grafar, og mundi því vera rjettara að taka upp þá gömlu venju, er hjer tíðkaðist áður við landsyfirdóminn, að hjer eftir yrðu afrit hæstarjettardómanna send dómsmálaráðuneytinu, er síðan tilkynti undirdómurunum úrslit málanna og fæli þeim á hendur að annast fullnustu dómanna.