25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

13. mál, smjörlíki

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi ekki sagt, að jeg myndi setja mig þvert upp á móti því, að mál þetta yrði nú lagt fyrir Búnaðarfjelagsstjórnina, en hinsvegar sje jeg enga knýjandi ástæðu til þess. En satt að segja er mál þetta ekki lengur beinlínis undir minni umsjón, heldur háttv. landbn., og ef vill, þá hefi jeg ekkert á móti því, að það verði nú tekið af dagskrá, sjerstaklega þegar hv. þm. Str. (TrÞ) hefir lofað, að enginn verulegur dráttur skuli verða á málinu við það, að stjórn Búnaðarfjelagsins fái það til umsagnar.

En um leið vil jeg beina því til háttv. þm. (TrÞ), að hann sjái svo um, að öll stjórn Búnaðarfjelagsins fjalli um málið, en ekki búnaðarmálastjóri einn. (TrÞ: Það skal gert). Hann fjallar oft einn um þau mál, sem stjórn Búnaðarfjelagsins fær til umsagnar, en slíkt tel jeg ekki borið undir stjórnina. Get jeg og ímyndað mjer, að búnaðarmálastjóri muni leggjast á móti þessu frv., ef hann á einn að segja álit Búnaðarfjelagsins á því.