25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. (Björn Líndal):

Mentamálanefnd hefir að vísu ekki borið sig saman um breytingartillögurnar, en jeg hygg þó, að jeg tali fyrir munn meiri hluta hennar. Getur hún ekki mælt með brtt. hv. 1. þm. Árn. (MT). Nefndin vill ekki, að einskorðað sje við I. einkunn; telur litla sönnun fyrir því, að nemendur sjeu frekar verðir styrks með I. einkunn en II. Miklu meira er um vert, að sá, sem til útlanda fer, sje svo siðferðilega þroskaður, að hann sjái fótum sínum forráð. Jeg álít ekki rjett að kosta nám margra við erlenda háskóla. Fleiri eða færri þeirra koma ekki aftur, og það er augljós skaði að kaupa unga og efnilega menn burt landinu, en að því stuðlar alt of rífleg fjárveiting.

Hin brtt. á þskj. 86, er meinlausari. Þó er hætt við, að til að byrja með yrði farið of langt, veitt fleiri en fjórum árlega, og yrðu þá afskiftir þeir, er síðar kæmu. Ef brtt. hefði gengið í þá átt, að styrkurinn væri geymdur til næsta árs, ef ekki þætti ástæða til að veita fjórum, hefði jeg ekkert við það að athuga. Ef mentamálaráðherra gæfi yfirlýsingu um að hann skildi lögin þannig, teldi jeg það nægilegt.

Jeg mun greiða atkv. móti báðum breytingartillögunum.