12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

24. mál, fiskveiðar í landhelgi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Ef engin lög eiga að koma á um þetta og gengið er út frá, að leigja megi erlend skip til fiskiveiða, — en um það er nokkuð deilt, hvort heimilt sje, — þá er gefið, að svo mörg skip munu koma hingað, að þau, ef svo má að orði kveða, kæfa oss. Mun það reynast óheppilegt, bæði fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn. Mun það styðja mjög til þess að draga fólk úr sveitunum til kaupstaðanna, en því vilja flestir hv. þm. vinna á móti. Því er ekki rjett, eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vill, að halda status quo, heldur ber þegar að byrgja brunninn, svo að ekki verði lengra farið á þessari braut en orðið er, því hún er vissulega hál. Jeg þykist og sjá af undirtektum hv. sjútvn., að hún skilji þetta vel, og þar eð jeg mun fara nærri um vilja hv. þdm. í þessu efni, tel jeg óþarft að ræða þetta frekar.