17.03.1925
Efri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

24. mál, fiskveiðar í landhelgi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þetta frv. hefir gengið gegnum Nd. án þess að sæta andmælum, og breytingar hafa ekki verið gerðar við það, nema að orðalagi hefir lítið eitt verið breytt í 2. málsgr. 1. gr. Efni frv. er það, að hindra, að sjávarútvegur vor verði svo að segja kæfður í erlendum leiguskipum. Eins og allir vita, ásælast útlendingar mjög hin auðugu fiskimið vor og standa auðvitað langtum betur að vígi í samkepninni við oss, ef þeir koma því svo fyrir, að þeir selji skipin á leigu hingað, oftast aðeins að nafninu til, og geta þannig lagt hjer upp aflann. Útlendingar, sem hingað sigla til veiða, njóta hinnar góðu aðstöðu heima fyrir, t. d. um kolakaup, vistir og ódýrari vinnukraft. Ef þeir svo geta lagt fiskinn á land hjer, geta þeir boðið hann ódýrara verði en vjer á heimsmarkaðinum og þannig eyðilagt markaðinn fyrir oss. Ef þeir aftur á móti verða að sigla með afla sinn til annara landa, missa þeir mikið af veiðitímanum í ferðir fram og aftur, svo að þeir standa ekki betur að vígi en vjer.

Þetta á frv. að tryggja, og vona jeg, að það þyki rjettmætt.