02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. (Klemens Jónsson):

Fjhn. hefir athugað brtt. á þskj. 78 og 83, og getur hún ekki gengið inn á að fallast á brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) á þskj. 78. Nefndin getur ekki álitið, eins og fjárhagsástæður ríkissjóðs eru nú, að hann geti komist af án tekjuauka þess, sem lög þessi gefa honum, og fellst því ekki á, að gengisviðaukinn sje lækkaður úr 25% niður í 15%. Þegar nefndin fór vegna þessara brtt. að athuga, hvort ekki gæti komið til mála að láta tollhækkun þessa vera bundna tímatakmörkum að einhverju leyti, þá gat hún fallist á þá hugsun. Þó að lögin um gengisviðaukann væru aðallega til þess sett að afla ríkissjóði tekna, þá var þó miðað við ástandið eins og það var þá og heimildin bundin því skilyrði, að verð sterlingspunds væri meira en 25 kr. Þá þegar var gengið út frá því, að tollhækkun þessi yrði aðeins til bráðabirgða. Þegar breyta á þessu skilyrði um verð sterlingspundsins, fanst nefndinni rjettast að binda gildi laganna einhverju tímatakmarki í staðinn. Hún áleit ekki rjett, að nú yrði ákveðið, að þau skyldu standa óhögguð þangað til þingið afnæmi þau, heldur vill hún láta þingið í hvert skifti athuga, hvort tími sje til þess kominn að fella tollhækkun þessa úr gildi með öllu. Þess vegna leggur nefndin nú til, að ákveðið verði að þessu sinni, að lögin falli úr gildi við árslok 1926. Hún kaus þetta tímatakmark til þess að hæstv. stjórn gæti reiknað með þessari tollhækkun í áætlunum sínum fyrir alt næsta ár. Það er svo á valdi næsta þings, hvort lögin verða enn framlengd, ef þá verður fyrirsjáanlegt, að ríkissjóður megi ekki vera án þeirra.

Í rauninni hefði ef til vill verið rjettast í þetta sinn að binda gildi laganna við 1. apríl 1926, eins og hæstv. stjórn hefir farið fram á, að gert verði við önnur tollaukalög, verðtollslögin, sem samþykt voru á síðasta þingi. En við nánari athugun fjellst nefndin þó á, að það væri of stuttur frestur og að rjettara væri, að hæstv. landsstjórn gæti nú þegar reiknað með þessari 25% tollhækkun alt árið 1926. Mælist nefndin því eindregið til þess, að brtt. hennar verði samþykt.