05.03.1925
Efri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Jónas Jónsson:

Það er ekki eins einfalt og hæstv. fjrh. (JÞ) hjelt fram, að losna við þessar nokkur hundruð þúsund króna tekjur, sem hæstv. stjórn krafðist með harðri hendi í neðri deild. Hœstv. ráðherra verður að skilja það, að tilgangur minn með umræðum á þessu stigi málsins miðast eingöngu við það að skýra aðstöðu mína til þess nú þegar, svo ekki verði hœgt að segja við 2. umræðu þess, að strax hafi verið goldið jákvæði við því með þögninni.

Það var eitt í ræðu hæstv. ráðherra, sem jeg álít hann meiri mann fyrir, því að þar kvað við alt annan tón en hjá sumum öðrum stjettarbræðrum hans. Hann viðurkendi nefnilega, að það hefði ekki verið neinn kóngakraftur, sem breytt hefði fjármálaástandi landsins. Það var árferðið og þorskurinn síðastliðið ár, en ekki stjórnin, eins og Morgunblaðið og hæstv. forsrh. hafa viljað telja þjóðinni trú um.

En þegar hann kom að gengisviðaukanum, var rjettlœtistilfinningin farin að dofna. Hann vildi halda því fram, að gengisviðaukinn væri ekkert viðkomandi lággenginu, en frv. bygðist á lággengi. Og þess er ekki langt að minnast, að í fyrra var lögleiddur gulltollur í Noregi, einmitt með tilliti til lággengis norsku krónunnar, og engum í Noregi dettur í hug, að þessi tollur verði látinn standa, ef krónan hækkar. Hið sama á sjer stað hjer. Almenningi dettur ekki í hug, að þessi gengisviðauki verði látinn standa, ef krónan hækkar. En ef hæstv. ráðherra og fylgifiskar hans geta komið því til leiðar, að hann verði látinn haldast, ætti að breyta um nafn á honum og kalla hann tollhækkun. Það er rjetta nafnið. Jeg get vitanlega ekkert sagt um, hvað gengi krónunnar verður í árslok 1926, en jeg vil halda því fram, að þessi lög þurfi að endurskoða fyrir þann tíma.

Þá leyfði hæstv. fjrh. (JÞ) sjer að tala um verslun hjer í deildinni. Jeg þakka honum þau „kompliment“, sem hann gaf mjer, þó jeg búist samt við, að hann í hjarta sínu hafi ekki meint, að jeg væri honum fremri í verslunarþekkingu. Því jeg býst við, að öll hans sement- og járnverslun hafi aflað honum mikillar æfingar, að minsta kosti í álagsreikningi. Og jeg vildi óska, að hún hefði aflað honum svo mikillar þekkingar, að ef hann eftir næstu kosningar skyldi láta sjer detta í hug að mynda stjórn, þá gæti hann að minsta kosti keypt sjer eitt atkvæði, ef svo ólíklega vildi til, að hann vantaði það. Já, verslunin er svo rík í huga hæstv. ráðherra, að hún er honum alt. Hann sjer ekkert annað. Hann skilur ekkert annað. Á honum sannast því málshátturinn: „Alt er safi hjá selveiði“.

Það hefir nú sýnt sig, að stefna hæstv. stjórnar er að koma sem flestum beinum nefsköttum á þjóðina. Má þar til nefna berklavarnagjaldið, sóknargjöldin o. fl. Jafnframt á að halda dauðahaldi í gengisviðaukann og verðtollinn, samhliða því, að stjórnin vill svifta ríkissjóð mörg hundruð þúsund króna tekjum með breytingu á tekjuskattslögunum og með því að drepa tóbakseinkasöluna.

Jeg verð að leiðrjetta dálítinn misskilning, sem ennþá loðir í höfði hæstv. fjrh., þrátt fyrir 4 daga umrœðu um málið í neðri deild. Það má vel líta svo á eftir reikningi einkasölunnar síðastl. ár, að tap landssjóðs verði 450 þús. Og tapið getur vel orðið meira. Og tollurinn, sem talað er um að leggja á tóbakið í viðbót, verður aðeins aukaskattur á landsmenn. Þetta er ofurskiljanlegt. Allir skilja það, nema máske hæstvirt stjórn. Það stendur því óhrakið, sem haldið var fram í Nd. um daginn, að hjer væri verið að kasta frá sjer tekjustofni, sem vel getur gefið 1/2 milj. króna. Hæstv. ráðherra ætti að skilja, að við Framsóknarmenn getum ekki verið með, þegar verið er að leika slíkt ljettúðarspil með fjárhag landsins.