16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. (Jakob Möller):

Eins og nál. ber með sjer, er öll nefndin sammála um aðalefni frv., það, að brýn nauðsyn sje á að hafa fulltrúa þar syðra. Ágreiningur er hins vegar um aukaatriði.

Meiri hl. lítur svo á, að úr því að viðurkend er full nauðsyn á að hafa mann í þessari stöðu, þá sje sjálfsagt, að staðan sje föst. Með þeim hætti einum virðist fengin fullkomin trygging fyrir því, að hæfur maður fáist í embættið, sem annars er óvíst um að fáist, og jafnvel að nokkur fáist í stöðuna.

Þótt veitt sje fje til þessarar stöðu í fjárlögum, verður að gæta þess, að sá maður, er í stöðuna kynni að fást, hefir ekkert til að byggja á. Starfið er mjög þýðingarmikið, þar sem þessi maður myndi verða milliliður milli ísl. fiskframleiðenda og spánskra fiskkaupenda og gefa upplýsingar um markaðshorfur. Hefir reynslan þegar sýnt, að starf þessa manns hefir komið að góðu gagni, enda þótt það hafi aðeins verið rækt á hlaupum. Þá er það og ekki síður þýðingarmikið að kynna sjer kröfur neytenda um vörumeðferð, sem annars kynni að taka þeim breytingum, er vjer fylgdumst ekki með í. Þótt fiskimatsmenn sjeu sendir út öðruhvoru, kemur það ekki að fullu gagni, þar sem langt líður á milli. Þó tel jeg sjálfsagt, að þeir færu þessar ferðir eftir sem áður. En annars er enginn ágreiningur um nytsemi þessarar stöðu, og þarf jeg því ekki að fara fleiri orðum um það atriði.

Eins og menn sjá, hefir einn nefndarmanna borið fram brtt. við frv. Fer hún fram á, að ákveða skuli laun fulltrúans í frv. Meiri hl. nefndarinnar vildi þó ekki bera slíka till. fram, þótt nefndarmenn hafi annars óbundin atkv. um hana. Meiri hl. gat ekki sjeð, að ákvæði þetta væri nauðsynlegt, enda þótt hann gæti viðurkent, að vel færi á því. En þess er að gæta, að gert er ráð fyrir, að manni þessum verði greidd laun sín af þrem aðilum, ríkissjóði, Landsbankanum og Íslandsbanka. Það virðist því langeðlilegast, að launaupphæðin verði samningsatriði milli þessara aðilja. Ennfremur virðist skorta nægan undirbúning og upplýsingar um það, hve há launin þurfa að vera. Að vísu má afla sjer vitneskju um laun erlendra sendimanna, en óvíst er, hvort þau væru sambærileg. Verksvið þessa sendimanns yrði allvíðtækt og auk þess yrði hann ekki bundinn við ákveðinn stað. Þingið ætti og að geta treyst því, að þessir þrír aðiljar semdu með sjer um launin, svo að allir mættu vel við una.