18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Magnús Torfason:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 358, við brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), og er hún fram komin til þess, að það sjáist glögt, hvað meint er með þeirri tillögu.

Brtt. mín er fólgin í því, að maður sá, sem á að vera fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu, megi engin störf hafa nje haft hafa á hendi fyrir útlend ríki. Það, sem sjerstaklega kom mjer til þess að koma fram með brtt. þessa, var hin hjartnæma hugvekja háttv. þm. Dala. (BJ) í gær, þar sem hann setti utanríkismálin í öndvegi og dró ekki úr, að þau væru merkustu mál þjóðanna.

Háttv. þm. gat þess líka, að ekki væru önnur mál, sem meiri vandi væri með að fara, vegna þess, að mest hætta væri fyrir okkur, að meðferð þeirra tækist illa. Þetta get jeg undirstrikað og bætt því við, að því minna sem ríkið er, því meira á það á hættu í þessu efni. Því að í þessum viðskiftum sem öðrum verður sá, sem minni háttar er, að fara varlegar en hinn, sem getur haft reiddan hnefann á lofti. Enda held jeg, að utanríkismálasaga okkar bendi ótvírætt í þá átt, að best sje að fara varlega; því að hún er ein óslitin raunasaga. Má þar fyrst til nefna bresku samningana frægu, og mun það vera upphaf utanríkissamninga, er við sjálfir höfum farið með. Þá má og nefna Spánartollinn, sem líka er raunasaga. Loks má nefna kjöttollinn norska; þar urðum við sömuleiðis að ganga að neyðarkjörum. Þetta bendir alt í þá átt, að sjálfsagt sje fyrir okkur að fara varlega og athuga vandlega hvert fótmál, sem við stígum á utanríkismálasviðinu, og ekki síst þegar undirstaða sú, sem við höfum á að byggja, er mjög veik.

Þegar við fengum ríkisvaldið í okkar hendur, áttum við engan mann, sem fengist hafði við utanríkismál, og ennþá eigum við ekki nema einn mann, sem nokkuð kann við þau að fást. Okkur vantar því tilfinnanlega læringu í þessum efnum, og er því best fyrir okkur að fara varlega, því að víst er, að við höfum engan Franklín til þess að bera fyrir okkur.

Jeg hjelt, að mál það, sem nú er til umræðu, ætti ekki við hið hærra „diplomati“, heldur væri hjer aðeins að ræða um brot af verslunarfulltrúa, þar sem fiskifulltrúinn er, sem alveg eins mætti kalla þorskfulltrúann okkar. Annars mun óhætt að segja að því er snertir þessa fulltrúa, að ekki sje kunnugt um, að þeir hafi komið að miklu gagni. Að minsta kosti er það mál flestra, að gagnið hafi verið ekkert eða sáralítið t. d. að gamla fiskifulltrúanum á Spáni og Ítalíu, svo jeg tali ekki um Ameríkulegátana, sem munu hafa kostað upp undir 200 þús. kr. Sumir, sem til þekkja, bera það upp í sjer, að þeir hafi ekki komið að neinu eða sama sem engu gagni. En hitt er víst, að hvernig svo sem þessu er varið, þá er það álit almennings hjer á landi, að fjarskalega lítið gagn hafi orðið að þessum sendimönnum hingað til. Nú veit jeg það, að öllum hv. þdm. er mjög ant um það, að utanríkismálin fari vel úr hendi. Og í gær var því haldið fram hjer í deildinni, að ekki mætti skera fjárveitingar í þessu efni of mjög við neglur sjer, ef von ætti að vera til þess að ráða þessum málum vel til lykta. Jeg játa fúslega og fullkomlega, að þar sem þörf er á sendi herra, og þegar við höfum völ á manni, sem treysta má til þess að gera gagn, þá er sjálfsagt að gera sæmilega til slíks manns og slíkra manna í alla staði, enda er það alþjóðaregla að sjá um, að þeir menn, sem eru fulltrúar þjóðar sinnar í útlöndum, þurfi engar fjárhagslegar áhyggjur að hafa. En jeg er ósköp hræddur um það, að ef ekki tekst betur til um val á þessum sendimanni, sem hjer er um að ræða, en hingað til hefir tekist — hjer undanskil jeg sendiherrann í Kaupmannahöfn —, þá muni þjóðin verða treg til þess að láta fje af mörkum til slíkra hluta. Þess vegna er ver farið en heima setið, ef nú mishepnast um þessa sendiferð.

En svo að jeg að lokum komi að efninu í brtt. minni, þá gengur hún út á það, að þeir menn, sem verið hafa sendimenn annara ríkja, eigi ekki að verða okkar fulltrúar; því mjer er sagt af mönnum, sem bera skyn á slíkt, að það eigi sjer hvergi stað og hjer sje um að ræða brot á alþjóðavenjum. Við vitum allir, að þessi lög eru búin til fyrir sjerstakan mann, og hann hefir verið fulltrúi þessa lands í öðrum löndum. Síðan hefir hann verið fulltrúi annara ríkja og nú á aftur að gera hann að fulltrúa okkar. Það er þetta hneyksli, sem brtt. mín á að koma í veg fyrir.

Úr því jeg stóð upp á annað borð, þá held jeg, að jeg verði að drepa ögn á 2. gr. frv. Er það vegna þess ákvæðis, sem þar stendur og gerir bönkunum hjer að skyldu, að hvor þeirra um sig leggi fram 1/3 af kostnaðinum við sendiför þessa, móti 1/3, sem ríkissjóður greiði. Meðan þetta er gert með fúsum og frjálsum vilja bankanna, þá er ekkert um það að segja. En nú hafa verið lesin upp hjer í deildinni mótmæli frá öðrum bankanum gegn þessu, og verð jeg því að segja, að það er ákaflega varúðarvert að leggja honum þessa skyldu á herðar, af sömu ástæðu og fram var færð hjer áður í þessari háttv. deild í sambandi við önnur lög, og bygðust á því, að það væri óhæfilegt að seilast ofan í vasa bankans að honum fornspurðum. Það hefir verið fært fram sem ástæða fyrir þessu, að sendiför þessi væri gerð vegna hagsmuna bankanna og þeir mundu græða á henni. Jeg skal nú ekki fara neitt út í þær sakir að öðru leyti en því, að það er að sjálfsögðu mikið komið undir sendimanninum, hvernig hann rækir sitt embætti. Það er alt undir því komið, og jeg skal ekki segja af eða á um það, hver von sje til þess, að hann ræki það vel eða illa. En að því er þetta atriði snertir, ef skifta á kostnaðinum með tilliti til hagsmuna bankanna, þá tel jeg ekki rjett hlutfall, að Landsbankinn borgi jafnmikið og Íslandsbanki, því Íslandsbanki er banki sjávarútvegsins og hefir hjer því miklu meiri hagsmuna að gæta en Landsbankinn. En hvað sem því líður, þá skilst mjer, að þetta, að skylda bankana til þess að leggja fje fram í þessu augnamiði, skjóti langt yfir mark ið. Rökrjett hlýtur þetta að ganga svo langt, að ef svo verður litið á, að þingið geri einhverja ráðstöfun, sem sje til hagsmuna fyrir bankana, þá beri þeim að taka þátt í kostnaðinum. En ef svo er, þá ber ekki að miða það við sjerstök lög, sem allir vita, að eru gerð fyrir sjerstakan mann, heldur taka það beint upp sem reglu. Ber þá bönkunum að kosta utanríkismálin til jafns við ríkissjóð eftir því „principi“, sem gefið er í þessu frv. Jeg rek þetta svona vegna þess, að þetta fordæmi, sem gefið er með þessum lögum, er í mínum augum alveg afskaplegt. Og ef það ætti að geta skert traust bankans, að hann gæfi út bankavaxtabrjef með háum vöxtum, þá verð jeg að segja það, að ef hægt er að benda á önnur eins ákvæði og þetta, þá kippir það ekki síður fótum undan trausti bankans en hitt. Jeg dreg enga dul á það, að jeg lít svo á, sem líka er mál margra manna, að í þess í frv. kenni talsverðrar bitlingapólitíkur. Og ef fara á að draga bankana inn í slíkt, þá er skörin farin að færast upp í bekkinn. Jeg get ekki fylgt því nje látið vera að mótmæla slíkum aðförum.