27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Forsætisráðherra (JM); Jeg geri ráð fyrir, að jeg þurfi nú að fara í hv. Nd., og vil því ljúka mjer hjer af, enda vona jeg, að ekki þurfi margt að taka fram fleira við þessa umr., ekki síst fyrir þá sök, að hv. frsm. minni hl. (JJ) hefir nú heitið mikilli ræðu eða ræðum um málið við 3. umr. Gefast þá sjálfsagt nóg tækifæri til að taka það fram, sem nú kann að falla niður. Hv. þm. (JJ) var bæði í gær og í dag að tala mikið um það, að dr. Alexander kendi ekki nema 4 stundir á viku. En hv. þm. verður að gæta þess, að finna má dæmi til þess, að prófessorar hafi ekki meiri kenslu hjer við háskólann.

Hv. þm. (JJ) talaði um, að enginn hefði kvartað, þó að vantað hefði kennara í þessari grein fyrstu árin, sem háskólinn starfaði. Það kemur málinu harla lítið við. Vitanlega var alt þar sem annarsstaðar minna í byrjun og búist við, að við yrði bætt síðar, er tök yrðu á.

Jeg veit eiginlega ekki, hvers vegna hv. þm. (JJ) talar nú um mentamálin eins og hann skilji þar ekkert upp nje niður. Það getur varla komið til af öðru en því, að hann vill ekkert skilja, en hyggur, að hann muni með þessum hætti fá kastað ryki í augu manna. Hv. þm. (JJ) sagði, að menn hefðu kunnað fullvel íslensku á söguöldinni, og hefði þó enginn þá kent íslensku, og hann virtist vilja draga þá ályktun af þessu, að því væri ekki fremur ástæða til þess að kenna íslensku nú. En þá má eins spyrja, hvers vegna á þá nú að kenna sögu og bókmentir íslenskar? Kunnu menn þetta ekki líka á söguöldinni án þess að kent væri í háskóla? Hv. þm. (JJ) má ekki tala svo bjánalega um þessi mál nje hyggja, að hann slái ryki í augu manna með því.

Hv. þm. (JJ) var að tala um það eins og fullkomna sönnun fyrir sínu máli, að einhver samflokksmaður minn hefði í fyrra viljað leggja þennan kennarastól niður. Jeg vil minna hv. þm. á það, að hann var að heimska mig fyrir það í gær, að jeg hefði Verið á móti því, að alþýðuskólinn í Þingeyjarsýslu yrði reistur, sjerstaklega fyrir þá sök, að það væri alveg óhugsað mál, hvernig koma ætti alþýðuskólunum fyrir í landinu. En hver hefir reyndin á orðið? Sú, að þessi skóli er að vísu reistur, mikið til fyrir skuldir, að jeg held, en alveg er enn ósjeð, fyrir hve mikinn hluta Norðurlands skólinn verður. Í því sambandi má geta þess, að Árnesingar eru að hugsa um að reisa annan slíkan skóla, en málum háttar svo þar, að Rangæingar vilja alls ekki taka neinn þátt í þessu, og verður skólinn því aðeins sýsluskóli. Og hvernig fer? Einn úr flokki hv. þm. (JJ), sá, sem þar hefir einna best vit á þessum málum, ber fram frv. nú um það, að alþýðuskólarnir skuli vera 4–5 á landinu, tala þeirra alveg óákveðin. Sá maður sjer það vel, að athugavert er að reisa þessa skóla án þess að athuga, hve margir þeir skuli vera og hvernig þeim skuli haga; má segja, að frv. sje yfirleitt þannig, að það byggi á því, sem jeg sagði áður um það, hvernig þessum málum skyldi skipa. Jeg held því, að hv. þm. (JJ) ætti að athuga það, þegar hann er að tala um, að mínir samflokksmenn sjeu mjer ekki sammála, að svo er engu síður um hann og flokksbræður hans.

Mjer þykir næsta undarlegt, að maður, sem þykist vera jafnmikill mentafrömuður og hv. þm. (JJ) telur sig vera, skuli geta lagt jafnmikið kapp á að reyna að fyrirbyggja það, að ísl. tunga verði kend við háskólann. Hann ber mjer stundum það á brýn, að jeg hafi ekki mikinn áhuga á þessum málum, en sjálfur vill hann ekki, að kvenfólkið fái neina sjerskóla, nema þá húsmæðraskóla, að engin íslenska sje kend og alt eftir þessu. Annaðhvort er því, að hv. þm. talar hjer á móti betri vitund, eða þá af hinu, að fyrir honum er þetta alt óljóst, svo sem í þoku á köflum. En ef til vill kemur þetta af þeirri blindni, sem jeg hefi tekið eftir, að háttv. þm. (JJ) er stundum haldinn. Og þegar svo er, getur hann aldrei sjeð nema svolítinn part af hlutunum. Háttv. þm. (JJ) var dálítið seinheppinn, eins og stundum hendir hann, þegar hann var að tala um launin fyrir það að bjarga stjórninni fyrir fáeinum dögum, sem verið væri að greiða með þessu. Hann sagði í gær, að þau laun hefðu verið greidd með því að bera þetta frv. fram viku áður en nokkur vissi með vissu, að það mál kæmi fram, sem frv. átti að vera borgun fyrir, að stjórninni var bjargað í. Í dag segir hann, að farið hafi verið að borga þetta miklu fyr. Þannig hafi þegar fyrir ári síðan stjórnin gefið í skyn, að hún myndi koma þessum manni inn í fjárlögin. Las hv. þm. því til sönnunar kafla úr ræðu, sem hann sagði eftir mig. Mjer þótti mjög ólíklegt, að jeg hefði sagt þau orð, enda var það ekki jeg, heldur háttv. 1. landsk. (SE). Svo að það er þá háttv. 1. landsk., sem farið hefir að borga fyrir stjórnina svo löngu fyrirfram!