31.03.1925
Efri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg skal ekki vera langorð. En vegna þess að nafn mitt stendur undir nál. meiri hl., þá vildi jeg segja fáein orð. Eins og menn muna, kom hjer fyrir þingið í fyrra frv. frá núverandi fjrh. (JÞ) um heimspekideildina. Það frv. kom fyrir mentmn., sem skipuð var þá sömu mönnum og nú, og í niðurlagi nál. um þetta frv. leggur nefndin til, að ætíð verði farið eftir óskum háskólaráðsins um stofnun nýrra embætta við háskólann. Nú liggur einmitt fyrir álitsskjal frá háskólaráðinu til stjórnarinnar, þar sem það fer fram á, að stofnað verði dósentsembœtti í íslenskri málfræði við heimspekideild háskólans. Það þarf ekki annað en að líta á umræðurnar um þetta í Alþingistíðindunum frá í fyrra til þess að sjá, að alt skraf hv. minni hl. mentmn. nú til að afsaka skoðanahringl sitt í þessu atriði er ekkert annað en venjuleg undanbrögð til þess að leiða athyglina afvega og rugla rjetta hugsun.

Jeg benti á það við 2. umr., hvað eftir dr. Alexander lægi af vísindaritum og vísindastarfi. Jeg get ennfremur í þessu sambandi upplýst um það, að hann hefir orð á sjer fyrir það að vera duglegur og eftirgangssamur kennari. Og ef nokkuð þykir mega marka minn dóm, þá vil jeg geta þess, að hann kendi við kvennaskólann 4 –5 ár og þótti þá bera á þessum kennarakostum, sem jeg áðan nefndi. Jeg hefi líka áður getið um það, hvað hann hefir afrekað á sviði bókagerðarinnar. Háttv. þdm. hlýtur öllum að vera ljóst, hve nauðsynlegt það er að eiga á sinni eigin tungu kenslubækur í málinu, í stað þess að verða að nota þýska kenslubók. Úr þessu hefir dr. Alexander bætt mjög vel að dómi skynbærra manna, og margt fleira hefir hann gert í líka átt, sem jeg líka tók fram við 2. umr., og skal jeg ekki endurtaka það. Og bak við þetta starf liggur afarmikil vinna. Til þess að geta samið þessi málfræðiverk sín hefir dr. Alexander orðið að lesa málfræðirit og ritgerðir svo tugum skiftir og notað þœr til þess að viða að sjer efni í bækur sínar.

Jeg hefi spurt hv. 5. landsk. (JJ) að því, hvort honum sýndist ekki rjett að leita álits prófessors Sigurðar Nordals, sem við bæði viðurkennum sem ágætan vísindamann og áttum nokkum þátt í á síðasta þingi að stuðla að því, að yrði kyr hjer við háskólann. Það er beint áframhald af því, sem gert hefir verið í þessum málum, að leita nú til prófessors Nordals, hvort hann álíti ekki þetta kennaraembætti nauðsynlegt. Á meðan ekki liggur fyrir yfirlýsing frá próf. Nordal þess efnis, að embættið sje ekki nauðsynlegt, þá get jeg ekki breytt skoðun í þessu efni. Jeg álít starf þessa manns, sem nú er farið fram á að tengja fastar við háskólann, algerlega nauðsynlegt fyrir kensluna í íslenskum fræðum. Í öðru lagi felst í því viðurkenning fyrir það starf, sem hann hefir nú þegar leyst af hendi. Og í þriðja lagi er hjer um gamalt loforð að ræða, sem verður að uppfylla.

Jeg mun svo ekki orðlengja þetta frekar, en undirstrika það, sem háttv. frsm. meiri hl. (SE) og hæstv. forsrh. (JM) hafa flutt fram til stuðnings frv.