29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þeir hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. 2. þm. Rang. (KIJ) sögðust ekki hafa búist við, að málið kæmi svona fljótt til 3. umr. Þar til er því að svara, að það er venjulegt og í samræmi við þingsköp, að ekki líði nema tvær nætur milli 2. og 3. umræðu. Og jeg hefi ekkert gert til að flýta málinu, annað en það, sem jeg sagði við 2. umr. þess, að það þyrfti að komast í gegn á þessu þingi.

Jeg er þó þakklátur hæstv. forseta fyrir að taka málið svona fljótt á dagskrá, því að jeg legg mikla áherslu á, að það verði að lögum á þessu þingi.

Út af þeim ummælum hv. þm. Str. (TrÞ), að ilt hafi verið að átta sig á málinu, af því að frv. var ekki prentað, skal jeg taka það fram, að það var gert beinlínis af sparnaðarástæðum að prenta ekki frv. upp, fyr en vissa væri fengin fyrir því, að þingið vildi sinna málinu. En í þingbyrjun, þegar frv. var lagt fyrir, var allmikið til af gömlum eintökum, og hafi hv. þm. Str. (TrÞ) þá ekki getað fengið eitt eintak, er það af því, að hann hefir orðið of seinn að biðja um það.

Út í ræður þeirra háttv. 2. þm. Rang. (KIJ) og háttv. þm. Dala. (BJ) sje jeg ekki ástæðu til að fara. En það þykir mjer leitt, ef setja á svo ströng skilyrði fyrir sjerleyfi, að enginn gangi að þeim. Kemur þá fram það, sem jeg sagði við 2. umr. þessa máls, að sumir vilja, að fossarnir fái að belja óbeislaðir enn um langt skeið, eins og þeir hafa gert þessi 1000 ár síðan land bygðist. Þar með er jeg ekki að segja, að taka eigi hverju tilboði, sem fæst, hversu vitlaust sem það er, heldur að taka eigi hverju skynsamlegu tækifæri, sem býðst. Og jeg held, að frv. þetta, verði það að lögum, tryggi þetta eftir föngum.

Hjer er ekki um það að deila, hvort stjórnin sje færari að hafa þessi mál á sinni hendi en Alþingi, heldur hitt, hvort heppilegra sje fyrir þjóðina að láta valdið vera í höndum stjórnarinnar eða þingsins. Fellur mín skoðun þar alveg saman við skoðun hv. 2. þm. Rang. (KIJ), að það muni yfirleitt verða betra, að valdið sje meira hjá stjórninni. Því til stuðnings má benda á, að ef þingum yrði fækkað, þau aðeins háð annaðhvert ár, þá getur jafnvel dregist svo lengi að gefa svar, að umsækjandi verði hættur við fyrirtækið. Þetta getur jafnvel komið fyrir, þó að þing sje haldið á hverju ári.

Þessa reikninga verða þingmenn að gera upp við sjálfa sig. En eins og jeg hefi þegar látið í ljós, tel jeg þessu máli eins vel komið í höndum stjórnarinnar eins og þingsins.

Um brtt. get jeg verið stuttorður. Fyrsta brtt. er frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), Skilst mjer hún helst vera til að leiðrjetta málvillu, er hann telur vera í 2. gr. Jeg sje ekki ástæðu til að vera á móti henni, þó jeg hefði kunnað betur við, að greinin hefði staðið eins og hún er í frumvarpinu.

Um seinni till. hans verð jeg að segja það, að hún er óþörf, af því að jeg lít svo á, að þetta ákvæði, sem hann vill fá inn með þeirri brtt., liggi nú þegar í frv., því að þar sem ekki má veita útlendingum sjerleyfi án samþykkis Alþingis, þá skilst mjer, að þar af leiðandi megi ekki heldur framselja það til útlendinga án samþykkis Alþingis. En eigi að síður tel jeg þetta ekki svo stórvægilegt atriði, að jeg vilji beita mjer á móti því.

Þar sem hv. 1. þm. S.-M., sem flestra manna er kunnugastur þessum málum, hefir ekki getað gripið niður á þýðingarmeira atriði en þetta, þá sýnir það fyllilega, að hjer er ekki mikið að athuga og frv. vel undirbúið.

Um till. hv. þm. Str. get jeg vísað til þess, sem jeg sagði við 2. umr. Það er vitanlega á valdi þingsins, hve mikið vald stjórnin fær í þessum efnum. En jeg get endurtekið það, sem jeg sagði áðan, að jeg til heppilegra, að valdið sje sem mest í höndum stjórnarinnar í þessum málum.