23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg verð einkum að snúa máli mínu til háttv. þm. Str. (TrÞ), því að hann hefir nú sent mjer og hinum ráðherrunum ársreikninginn fyrir síðastl. ár. Það verður ekki sagt, að hann sje seinn með reikninginn, því að jeg held, að í gær hafi verið rjett ár síðan stjórnin tók við völdum. Jeg get verið fáorður, því að á þessum reikningi er lítið, sem snertir mig. Mjer dylst ekki, að heildarreikningurinn svarar ekki til smáreikninganna, sem háttv. þm. Str. hefir sent mjer í blaði sínu á árinu. En jeg finn ekkert að því. Það er mjer í hag.

Jeg ætla að svara hv. þm. í hógværum tón, eins og hann talaði sjálfur. Það, sem hann einkum færði mjer til gjalda, var Krossanesmálið og innflutningshöftin. Mjer skildist, að það hefði einkum hneykslað hann, að jeg leyfði mjer að greiða atkv. í Krossanesmálinu. En jeg verð að minna hann á það, að þó að jeg sje ráðherra, þá er jeg einnig þm. Skagf., og því hefi jeg rjett til þess að greiða atkvæði í hverju máli. Það er nú orðið ljóst, að í því máli hefi jeg ekkert gert annað en það, sem nú er viðurkent að hafa verið hið rjetta. Hann gaf það í skyn, að jeg hefði löggilt svikin síldarmál. En í öllum umræðunum hefir ekkert komið fram, sem rjettlæti þessi ummæli. Annars get jeg bent hv. þm. Str. (TrÞ) á það, að í fyrrakvöld greiddi hann sjálfur atkv. á móti því, að málið væri rannsakað eftir landslögum og málavöxtum.

Þá kem jeg að innflutningshöftunum. Hann segir, að framkvæmd þeirra hafi orðið nokkuð önnur en lofað var í fyrra. Jeg skal bæta því við, að hann færði þar fram sjálfur afsakanir fyrir mig og benti á, að í stjórninni væru auk mín tveir ráðherrar og árferði hefði verið gott.

Jeg vil nú taka það fram, að því, sem kann að vera ábótavant um framkvæmd innflutningshaftanna, ber jeg einn ábyrgð á. Hinir ráðherrarnir hafa látið mig algerlega sjálfráðan um framkvæmd þess máls. Þó skal þess getið, að hæstv. fjrh. lagði það til við mig í september síðastl. haust, af fjárhagslegum ástæðum, að leyfður yrði innflutningur tveggja vörutegunda (súkkulaði og öl), sem mikill tollur var á. Að öðru leyti hafa hinir ráðherrarnir ekkert látið þetta mál til sín taka.

Jeg skal viðurkenna það, að framkvæmdin hefir verið nokkuð önnur en búist var við í fyrra, og háttv. þm. benti sjálfur á ástæðuna. Árið hefir verið óvenjugott. Jeg held það láti nærri, að á þessu eina ári hafi þjóðin borgað hjer um bil 1/3 skulda sinna við útlönd, 20 milj. kr. af 60 milj. kr. Hver sem vill getur stungið hendinni í sinn eiginn barm, og hann verður að játa, að við þessu bjóst enginn á þingi í fyrra, og það liggur í hlutarins eðli, að til þess varð að taka tillit.

Mín aðstaða hefir æfinlega verið sú, að nota mætti höftin sem hemil, ef viðskiftin við útlönd eru óhagstæð.

Þess vegna var það, að þegar jeg bjó til frv. til laga um innflutningshöftin, þá var gert ráð fyrir, að stjórnin gæti slakað til um framkvæmd laganna og hert á eftir ástæðum. Það hefir safnast svo mikið fje erlendis, sem við erum færir um að eiga þar. Við erum ekki sterkari á svelli en það, að við höfum ekki efni á að eiga meira en 10 milj. á lágum vöxtum erlendis.

Jeg bjóst við því á þingi í fyrra, að þegar dæmt yrði um framkvæmd innflutningshaftanna eftir ársreynslu, að aðfinslurnar yrðu miklu meiri. Jeg þakka mjer það ekki; jeg þakka það árferðinu. Jeg hefi orðið fyrir árásum á báðar hliðar, frá vinum haftanna fyrir lina framkvæmd og frá andstæðingum þeirra fyrir stranga framkvæmd haftanna. Þetta bendir til, að jeg hefi ratað hinn rjetta meðalveg, enda hefir hv. þm. Str. (TrÞ) sjálfur kveðið upp dóminn í nál. fjvn. Þar segir:

„Þetta ár voru líka innflutningshöft á ýmsum þeim vörum, sem tollurinn hvíldi á, og þó að nokkrar undanþágur hafi verið veittar á þessum vörum, þá er það þó víst, að ef engar hömlur verða á innflutningi árið 1926, sem nefndin gerir ráð fyrir, þá muni það stórmikið hækka tollinn“.

Undir þetta nál. hefir hv. þm. (TrÞ) skrifað, og ef gert er ráð fyrir, að tollurinn stórvaxi við það, að höftin falli úr sögunni, þá hefir hann líka stórminkað við framkvæmd þeirra. Það er erfitt að sýna tölur í þessu máli, fyr en hagskýrslur koma. En jeg er sannfærður um, að þegar verslunarskýrslurnar koma, þá sýna þær, að innflutningur hefir verið heftur mikið.

Eitt dæmi get jeg þó nefnt um verkanir innflutningshaftanna, og það er tekjuliðurinn „annað aðflutningsgjald“ 1924.

Allir háttv. þdm. vita, hvaða vörur heyra undir þennan lið, svo sem súkkulaði, kakaó, brjóstsykur. Sá tollur var 1922 um 126 þús. kr., 1923 um 112 þús. kr., en 1921 83600 kr., þrátt fyrir það, þótt tollar á þessum vörutegundum væri hækkaður um 25%, 1. apríl f. á. Ef samskonar hækkun hefði verið alt árið og samskonar innflutningur og hin árin. Þá hefði þessi tollur átt að vera 1924 140 þús. kr., í stað þess að hann varð rúm 80 þús. kr. Á þessum eina pósti munar því 60 þús. kr., og er það ekki svo lítil upphæð á ekki stærri lið. Jeg skil því ekki í öðru en að um 4–5 milj. kr. hafi sparast landinu við innflutningshöftin. Er jeg sannfærður um, að svo er, þótt jeg þori ekki alveg að fullyrða um upphæðina, en jeg get ekki ímyndað mjer, að hún sje minni.

Eitt atriði var það, sem hv. þm. Str. (TrÞ) færði hæstv. fjrh. (JÞ) til synda, en ef rjett hefði verið, þá hefði hann átt að færa mjer það til synda; það voru sjúkratryggingarnar. Hann taldi þær nefskatt og ekki annað. En háttv. þm. má ekki gleyma því, að nefskattur er lagður á alla, jafnt fátæka sem ríka, til hjálpar þeim fátæku. Má hann ekki gleyma seinni partinum, ef hann vill ekki gefa ranga skýrslu um málið.