17.02.1925
Neðri deild: 9. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

30. mál, laun embættismanna

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg get látið mjer nægja að mestu að vísa til athugasemdanna við frv., sem eru nokkuð ítarlegar, og leyfi jeg mjer að vænta þess að hv. þdm. kynni sjer þær. Jeg vil einungis segja það, að þær ástæður, sem voru fyrir hendi 1919, þegar ákvæðin um dýrtíðaruppbótina voru gerð, hafa ekki tekið miklum breytingum til þessa dags. Og sje jeg því ekki, að það geti komi til mála að láta þau ákvæði falla úr gildi í lok yfirstandandi árs, en það verður, ef ekki verður gerð ný lagasetning um þetta nú á þinginu. Jeg skal geta þess, að þær opinberu tölur, sem fyrir liggja um almenna verðhækkun frá því fyrir stríð, sýna ekki mjög mikinn mismun. Lítum t. d. á vísitölu framfærslukostnaðar fjölskyldu í Reykjavík frá því í okt. 1919 og til þess í okt. 1924. Hún er 348 kr. í okt. 1919, en 321 kr. í okt. síðastliðnum. Munurinn er því miður æðilítill. Á vísitölu á almennu smásöluverði á þessum tíma er mismunurinn nokkru meiri, í okt. 1919 368, en í síðastliðnum okt. 317. En þessi lækkun er ekki svo mikil, að jeg telji, að það komi til mála, að löggjöfin um dýr tíðaruppbótina falli alveg burt.

Jeg hefi í aths. við frv. gert grein fyrir þeirri skoðun minni, að þegar nægileg festa er komin á verðlag og peningagildi í landinu, þá sje rjett og best að leggja, sjálft peningagildið til grundvallar, þegar reikna á út laun og launauppbót embættismanna, en ekki dýrtíðarvísitölu, sem tekin er einungis á einum stað á landinu, því að hún hefir ekki óyggjandi gildi nema fyrir þann eina stað. En þessi festa á verðlagi og peningagildi er enn ekki fyrir hendi, svo stjórnin hefir ekki sje sjer annað fært en að halda áfram fyrst um sinn að byggja dýrtíðaruppbótina á sama eða svipuðum grundvelli og áður, þ. e. á vísitölu verðhækkunar þeirra vörutegunda, sem valdar hafa verið til útreikningsins.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta nú, en vonast eftir, að það fái að ganga til 2. umr., og vil leyfa mjer að leggja til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjhn.