03.03.1925
Efri deild: 21. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

23. mál, atvinna við siglingar

Ingvar Pálmason:

Jeg geri ráð fyrir því, að hv. frsm. (JJós) taki aftur til máls, en út af ummælum hæstv. atvrh. (MG) þykir mjer þó hlýða að segja nokkur orð. Hæstv. atvrh. tók yfirleitt vel í brtt. nefndarinnar. Er jeg honum þakklátur fyrir það. En hann var óánægður með, að ekki væri fylt með öllu sú gloppa, sem er í lögin. Jeg játa, að ástandið er eins og áður að því er snertir 12–20 smálesta báta, þ. e. það er ekki skylda að hafa á þeim stýrimenn, en það er heimil að. Til þess að bæta úr þessu eru tvær leiðir. Önnur sú, að færa takmarkið upp í 20 smálesta skip, þannig að hvorki væri skylt nje heimilt að hafa stýrimenn á minni skipum. Hin sú, að færa stýrimannsskylduna niður í 12 smálesta skip. Báðar leiðirnar voru athugaðar í nefndinni. Hún komst að þeirri niðurstöðu, að ekki mundi heppilegt að færa takmarkið upp í 20 smálesta skip. Víða á Austfjörðum er fjöldi af bátum 12–20 smálesta að stærð, sem liggja úti dögum saman, og er sjálfsagt að hafa á þeim stýrimenn. 3. gr. siglingalaganna mælir svo fyrir, að stýrimenska á 12–20 smálesta skipum veiti rjett til skipstjóraprófs. Þýðir það sjerstaklega mikið á Austfjörðum, að hægt sje að vinna sjer inn þessi rjettindi á slíkan hátt. En það væri ekki hægt, ef takmarkið væri bundið við 20 smálestir. Og vil jeg á engan hátt missa þessi ákvæði 3. gr. siglingalaganna, því að það þrengdi svo kosti stýrimanna- og skipstjóraefna. Ef því á að fylla gloppuna, verður að færa takmarkið niður í 12 smálestir. En jeg sje ekki, að til þess beri nein nauðsyn. Er vert að líta á það í þessu sambandi, að þótt atvinnuvegur vor Íslendinga sje líkur um land alt, er hann rekinn nokkuð mismunandi á hinum ýmsu stöðum. Víða eru notaðir einmitt bátar af þessari stærð, svona 12–20 smálestir, og mjer finst sanngjarnt, að við höfum skilyrðin fyrir skipstjórarjettindum á þeim lík og þau, sem gilda um báta, sem eru 20–60 smálestir. Reyndar orkar það tvímælis, hvort rjett var, þegar lögunum var breytt, að hafa stigið svona stórt — alla leið frá 20 upp í 60 smálestir. En það liggur ekki fyrir að ræða um það hjer, en eins og hv. frsm. (JJós) benti á, þá þyrfti að endurskoða öll lögin, og get jeg fyllilega tekið undir það.

Þá kemur næst sú breyting til greina að færa prófin til kaupstaðanna úti um land. Hæstv. atvrh. tók þeim breytingum sæmilega vel. Jeg tel breytingu þessa nauðsynlega, því að útgerð okkar úti um landið er þannig fyrir komið, að henni er það lífsnauðsyn að ala upp menn, er geti tekið við af þeim, er fyrir eru, og að þessir menn sjeu aldir upp á þeim grundvelli, sem þeir eiga að vinna á. Okkur er sagt, að nú sje búið að unga út svo mörgum stýrimönnum með prófi, að ekki sje þörf á fleirum, og til dæmis um það er mjer sagt, að á ýmsum togurum sjeu nú margir menn með skipstjóraprófi, er vinna þar aðeins sem hásetar. Jeg tel það ekki heppilegt eða til farsældar fyrir hinn smærri útveg úti um land — til dæmis á Austfjörðum — að slík regla komist þar á, að fá stýrimenn og skipstjóraefni alda upp á togurum hjer frá Reykjavík. Það tel jeg miklu betra, að við ölum upp formenn okkar sjálfir. Það er og vitanlegt, að talsverðir örðugleikar eru á því að sækja nám hingað til Reykjavíkur. Hefir því Fiskifjelag Íslands reynt að ljetta undir í því efni með því að halda námsskeið á ýmsum stöðum og til skiftis í fjórðungum landsins. Þetta hefir reynst heppilegt og er að mínum dómi heilbrigð stefna. En eftir núgildandi lögum óbreyttum er óheimilt að leysa smáskipapróf annarsstaðar en í Reykjavík. Úr þessu vill nefndin bæta með brtt. og leyfa, að slík próf verði framvegis haldin í öllum kaupstöðum landsins, eins og heimilt hefir verið hingað til, alt fram að síðastl. nýári.

Jeg vil mælast til þess við hv. deild, að hún fallist á brtt. okkar. Um hitt atriðið, gloppuna, sem hæstv. atvrh. var að tala um að fylla þyrfti upp í, skal jeg ekki fjölyrða. En það vil jeg taka fram, að ef sú gloppa skal fylt, þá tel jeg, að skyldan til að hafa stýrimann auk skipstjóra eigi að miðast við 12 smálesta bátstærð. Það kunna að þykja nokkuð þungar búsifjar, en jeg vil, að útgerðarmönnum sje heimilt að hafa 2 menn með prófi á slíkum bátum, og að það sje skylda, að stýrimaður sje á þeim bátum, er liggja úti dögum saman. Heimildin ætti að vísu að vera nóg, því að flestir útgerðarmenn munu svo forsjálir, að þeir gera þetta ótilkvaddir, enda hafa þeir tekið vel flestum þeim hugmyndum, er fram hafa komið á þessu sviði og miðað til bóta.