07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

23. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Jakob Möller):

Þetta mál ætti ekki að þurfa að tefja deildina lengi. Að vísu gæti 2. gr. orðið nokkurt ágreiningsefni, en nefndin hefir komið sjer saman um að leggja til, að hún yrði feld niður. Efni hennar er að heimila stjórninni að veita skipstjórum með smáskipaprófi leyfi til þess að fara með stærri skip, ef ástæður þykja mæla með Þetta ákvæði hefir sætt mótmælum, er taka verður til greina. Það þykir rjett að gera meiri kröfur til manna, sem stjórna eiga stærri skipum en 60 rúmlesta, og meiri siglingafróðleiks en hægt er að búast við af mönnum með smáskipaprófi. Frv. þetta fór upphaflega í þá átt að samræma siglingalögin frá 1922. Gert er ráð fyrir, að stýrimenn sjeu á skipum, sem eru fullar 20 rúmlestir að stærð. Þó mega bátar, sem daglega koma úr róðri, vera 30 rúmlestir án þess að á þeim sje stýrimaður. Nefndin fellst á, að þessi undantekning sje gerð um báta, sem daglega koma að landi, og hyggur, að ekki verði haft á móti því. Hv. Ed. gerir ráð fyrir, að smáskipapróf verði haldin á sömu stöðum og verið hefir. Nefndin getur ekki fallist á, að þetta verði svo til frambúðar, nema sett sje frekari trygging þess, að prófin sjeu fullnægjandi. Mætti tryggja það með því að senda mann frá stýrimannaskólanum til þess að halda prófin. Vill nefndin skjóta því til stjórnarinnar, hvort ekki muni hægt að koma því við framvegis. Annars hefir komið fram í viðtali nefndarinnar við fræðimenn um siglingar, að ýmsu muni ábótavant við lögin frá 1922. Þau voru að vísu samin í samráði við forstöðumann stýrimannaskólans, en þegar á þing kom, voru gerðar á þeim breytingar, sem, að dómi fræðimanna í þessu efni, miðuðu að því að færa þau úr lagi, svo að talið er, að þau þurfi nú enn frekari samræmingar en í þessu frv. felst. Jeg vil skjóta því til hæstv. stjórnar, að æskilegt væri, að hún ljeti athuga þetta mál vandlega fyrir næsta þing. Eins og nú stendur á, legg jeg til, að deildin samþykki frv. með þeirri breytingu að fella niður 2. gr.