08.03.1926
Neðri deild: 25. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

56. mál, vélgæsla á gufuskipum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. sjútvn., að hún hefir flutt þetta frv. Það hefir losað mig við nokkra fyrirhöfn.

Jeg skal geta þess, að mjer þykir vænt um, að hv. nefnd vill athuga frv. betur milli umræðnanna. Því það má vel vera, að heimildin til undanþágu sje ekki nægilega víðtæk í frv. Jeg býst nú við, að aukning togaraflotans muni stöðvast, í bili að minsta kosti. En það er náttúrlega gott að hugsa vel fyrir framtíðinni. Og jeg verð að segja, að það er leiðinlegt fyrir stjórnina að hafa ekki næga heimild til undanþágu, þegar svo vill til sem nú, að það vantar 1/3 af vjelstjórum með prófi í landinu. Það er ekki ábyrgðarlaust fyrir stjórnina að gefa undanþágu án þess að hafa beina stoð í lögum. Þess vegna legg jeg mikla áherslu á að frv. geti orðið að lögum á þessu þingi. Því að jeg er ekki alveg tryggur fyrir því, að ekki sje hægt að koma fram ábyrgð á lendur stjórnarinnar fyrir að veita undanþágu, sem ekki á vissa stoð í lögum, ef skipi vill eitthvað til.

Jeg vona, að hv. Alþingi sjái nauðsynina á að fá frv. í gegn á þessu þingi. Því ekki getur það verið tilgangurinn að reyna að hefta, að 1/3 skipaflota landsins geti stundað þá atvinnu, sem hann er ætlaður til.