10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1927

Jakob Möller:

Jeg á nokkrar brtt. við þennan kafla fjárlaganna. Fyrst er að minnast á brtt. á þskj. 304,II, um 750 kr. ferðastyrk vegna stúdentaskifta. Það hefir láðst að koma umsókn um þetta til fjvn., annars hefði hún vafalaust tekið þetta upp. Það er ekki nýtt hjer. 1924 voru veittar 1500 kr. í þessu skyni, og það var þá þannig sett í fjárlögin, að það var sýnilegt, að til þess var ætlast, að þetta yrði fastur liður í fjárlögum hvers árs. Þar er það talið undir föstu styrktarfje í sambandi við háskólann. Það er vafalaust, að hjer er um gott og nytsamt mál að ræða. Síðan háskólinn var stofnaður hafa lagst niður utanferðir stúdenta til náms í greinum þeim, sem hjer eru kendar. Af þessu leiðir, að stúdentar fara á mis við mentun þá og menning, sem ferðir og dvöl utanlands veitir. En námsárin eru sá tími, sem best skilyrði eru fyrir hendi til þess að njóta slíkra áhrifa. Til þess að bæta úr þessu, hafa stúdentar hafist handa með það að koma nemendum háskólans til annara landa með stúdentaskiftum, þannig að þeir útvega stúdentum ókeypis dvöl erlendis, gegn samskonar fríðindum hjer heima. Þessi skifti eru gerð í tvenskonar skyni bæði til náms og svo til viðkynningar. Hvorttveggja er þarft. Margir hafa stuðlað að þessu, svo sem Eimskipafjelagið og Bergenska fjelagið með ívilnanir í fargjöldum, og svo hafa ýmsir „privat“menn veitt ókeypis dvöl bæði hjerlendis og erlendis. Jeg býst við, að allir hv. þm. geti gert sjer grein fyrir því, hverja þýðingu það hefir fyrir íslenska stúdenta að komast til útlanda. En svo er önnur hlið á þessu máli. Með kynningu erlendra stúdenta á landi og þjóð er það nokkurnveginn víst, að Ísland eignast þar góða vini, er gera því gagn síðar með umtali og þekkingu. Jeg hefi fengið skýrslu um nokkra af erlendu stúdentunum, sem hjer hafa dvalið. Það er sýnilegt, að þeir hafa tekið að sjer að vinna íslensku þjóðinni gagn. Þeir hafa vakið athygli á bókmentum vorum með því að þýða þær og flytja fyrirlestra o. s. frv. Jeg geri ekki ráð fyrir að þurfa að fara fleiri orðum um þetta. Hjer er um litla upphæð að ræða, en sjálfsagt mál. Jeg vænti þess, að fjvn. mæli með till. Verði mótmælum hreyft, geymi jeg mjer rjett til að tala frekar um þetta síðar.

Þá á jeg ekki sjálfur fleiri brtt. við 14. gr., en við 15. gr. á jeg 4 brtt., og auk þess hefi jeg lofað að mæla með einni brtt. frá hv. þm. Dal. (B.T). um ferðastyrkinn til Ásmundar Sveinssonar. Hann hefir dvalið í Stokkhólmi um nokkur ár við myndhöggvaranám við konunglega listháskólann þar. Hann hefir getið sjer þar góðan orstír. Hann fjekk verðlaun 1922 fyrir ýms verk, sjerstaklega myndastyttu, sem hjer er mynd af, ásamt fleiri verkum hans. Þessari styrkbeiðni fylgja eindregin meðmæli kennara hans. Styrkinn ætlar hann að nota til Rómaferðar, en þangað getur hann ekki komist nema hann fái styrkinn. Annars hefir hann lokið námi og vinnur nú fyrir sjer, ekki eingöngu með list sinni, heldur einnig með húsaskreytingu, sem hann hefir líka lagt stund á. Hann gæti fengið betri atvinnu í Svíþjóð, ef hann vildi gerast sænskur ríkisborgari, en hann metur svo mikils þjóðernið, að hann vill ekki afsala sjer ríkisborgararjettinum, þó að fjárhagsleg fríðindi komi á móti. Af meðmælunum sjest, að hjer er um efnilegan listamann að ræða, og vil jeg því leyfa mjer að mæla hið besta með því, að hv. deild samþykki þessa brtt.

Þá á jeg hjerna þrjár till. Tvær af þeim bar jeg fram við 2. umr., en þær voru feldar þá. En nú hefi jeg fært upphæðirnar lítið eitt niður og vænti því, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja þær nú. Þriðja brtt. er ný, um 2000 kr. styrk til Guðmundar Gíslasonar Hagalíns til ritstarfa. Það er kunnugt af því, sem hann hefir þegar látið frá sjer fara, að hjer er um efnilegan skáldsagnahöfund að ræða, og má gera sjer miklar vonir um hann í framtíðinni, ef hann fær að njóta sín. En til þess að geta náð sem mestum þroska í list sinni, er honum nauðsyn að geta ferðast meðal erlendra þjóða og kynna sjer líf þeirra og bókmentir. Og þess vegna er farið fram á þennan litla styrk.

Þá er loks till. á þskj. 310 um 2500 kr. styrk til frú Guðrúnar Indriðadóttur leikkonu. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er hún ein hin besta og þektasta leikkona landsins. En þó er ekki farið fram á fjárveitingu þessa af þeim ástæðum, heldur af þeirri sjerstöku ástæðu, að hún hefir farið utan í vetur í þeim tilgangi að kynna sjer þjóðdansa meðal Norðurlandaþjóða, með það fyrir augum að endurreisa hina fornu vikivaka hjer á landi. Frú Guðrún hefir áður fengist við það að búa til dansa og hefir mikla hæfileika og glögt auga fyrir slíku og er mjög líkleg til þess að gera gagn á þessu sviði, og jeg vænti þess, að hv. þdm. muni gjarnan óska þess, að hinir gömlu vikivakar verði iðkaðir af nýju hjer á landi. Fornir þjóðdansar hafa náð mjög mikilli hylli um öll Norðurlönd og fengið þar mikla útbreiðslu. Og það væri leiðinlegt, ef það gæti ekki orðið einnig á Íslandi. Upphaflega ætlaði frú Guðrún aðeins til Oslo. En þegar þangað kom, komst hún að raun um það, að það væri nauðsynlegt fyrir sig að fara víðar. En við það varð kostnaður við ferðina miklu meiri en upphaflega var til ætlast. Þess má enn geta, að hv. deild hefir veitt öðrum leikkonum styrk til þess að fullkomna sig í list sinni, og væri það því mjög óviðkunnanlegt að neita frú Guðrúnu um styrk þennan, því fremur sem hjer er um mjög mikilsvert mál að ræða, en hún hefir hinsvegar aldrei notið styrks úr ríkissjóði áður.

Loks á jeg brtt. við 16. gr., LIV. lið á þskj. 297, um 2000 kr. styrk til Kvenrjettindafjelags Íslands upp í kostnað við að senda fulltrúa á alþjóðasambandsþing kvenrjettindafjelaga í París 1926. Jeg vildi gera það fyrir Kvenrjettindafjelagið að flytja þetta erindi. Það sótti til hv. fjvn., en hún vildi ekki sinna því. En mjer finst það ekki vera vansalaust, úr því Kvenrjettindafjelagið er í alþjóðasambandinu, að geta ekki sent fulltrúa þangað á sambandsþing. Og mjer finst þingið ekki geta varið það atferli gagnvart kvenþjóðinni í landinu að neita um slíkan styrk, þar sem vitanlega hafa verið greiddir styrkir til manna til þess að sækja fundi í útlöndum, sem fulltrúum hjeðan hefir verið boðið að sitja. Jeg vænti því, að hv. þdm. taki till. vel og veiti þessa upphæð, sem að vísu verður ekki greidd fyr en 1927, þó hún eigi að notast á næsta sumri.