06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Jón Kjartansson):

Allshn. hefir ekki orðið sammála um þetta frv. Meiri hl. ræður til, að það sje samþykt með ofurlitlum breytingum, en minni hl. vill fella það.

Jeg tel nauðsynlegt fyrir þá, sem ætla sjer að fylgja minni hl. í þessu máli, að athuga vel, hvaða ástand var ríkjandi hjer í bænum, þegar húsnæðislögin voru sett og svo hvernig ástandið er nú.

Aðalatriðin í húsaleigulögunum eru frá 1917. Þá var hjer svo mikið húsnæðisleysi, að til stórvandræða horfði. Þá var það, að þáverandi stjórn gaf út bráðabirgðalög um húsaleigu 14. maí 1917, og náðu þau samþykki Alþingi. Í þessum lögum voru þau tvö aðalatriði, 1. að ekki má segja upp húsnæði, og 2. að leiga skyldi haldast óbreytt eins og hún var þá. Það er auðsjeð á þingræðum þeim, er snerta þetta mál, að litið var á þessa ráðstöfun sem neyðarúrræði vegna stríðsins. Það var játað, að lögin gengju fullnærri eignarrjettinum, en sá rjettur yrði að þoka vegna almenningaheilla, og því voru þessi þvingunarlög samþykt. Menn voru ekki í vafa um, að svona lög myndu draga úr húsbyggingum hjer, en þá var varla um nokkrar nýbyggingar að ræða, þar sem verð á byggingarefni var hátt og fór hækkandi og vinnulaun fóru mjög hækkandi. — Þetta óvenjulega ástand varð þess valdandi, að lögin voru samþykt 1917. Árið 1919 var ástandið hjer líkt, eða ekki betra. Þá gaf stjórnin út ný bráðabirgðalög, sem heimiluðu bæjarstjórninni að ráðstafa lausum íbúðum. Það ár reis upp mikil óánægja út af húsaleigulögunum og Alþingi fjekk áskoranir frá fjölda bæjarbúa um að afnema þau. En það sá sjer ekki fært að verða við þeim áskorunum, vegna þess ástands, sem ríkti í bænum. En umræðurnar í Alþt. sýna, að á þetta var litið aðeins sem bráðabirgðaráðstöfun vegna ófriðarins.

1921 kom málið enn fyrir Alþingi. Fluttu þingmenn Reykjavíkur það að tilhlutun bæjarstjórnarinnar. Skyldi málið falla í hendur bæjarstjórnar og átti hún að setja reglugerð, er kæmi í stað laganna frá 1917–19. Áttu þau lög að falla úr gildi, þegar reglugerðin yrði samþykt. Þetta var samþykt á Alþingi og varð að lögum 27. júní 1921. Þannig komst málið í hendur bæjarstjórnarinnar. Í þrjú ár reyndi svo bæjarstjórnin að koma á reglugerð, en það tókst ekki. Loks í árslok 1924 samþykti bæjarstjórnin reglugerð, en stjórnin synjaði staðfestingar á henni, af því að hún taldi farið út fyrir heimildarlögin frá 1921.

Saga málsins sýnir, að þetta hefir verið mesta vandræðamál. Nú ber að líta svo á, að bæjarstjórnin sjái sig ekki færa til að ráða því til lykta á farsælan hátt. Síðasta tilraun hennar var gerð í desember síðastl., en hún splundraðist. Bæjarstjórnin sneri sjer þá til stjórnarinnar og vildi láta hana afnema lögin, en stjórnin varð ekki við þeim tilmælum, þar sem skamt var til Alþingis, en vafasamt. hvort hún hafði heimild til að nema lögin frá 1917 úr gildi án þess að bæjarstjórnin skipaði þessu máli með reglugerð, eins og gert er ráð fyrir í lögunum frá 1921. Og víst er það, að stjórnin hefir enga heimild til þess að afnema lögin frá 1921. Málið stendur þá þannig, að þvingunarlögin frá 1917 eru enn í gildi. En ef borið er saman ástandið þá og nú, verður að líta svo á, að bæði sje ranglátt og óviðeigandi, að lögin sjeu í gildi framvegis, enda munu allar aðrar ófriðarráðstafanir úr gildi numdar. Meiri hluti allshn. hefir því lagt til, að frv. yrði samþykt með þeirri breytingu, að í stað þess, að segja megi upp húsnæði 1. október 1926, sje það ekki heimilt, fyr en 14. maí 1927. Nefndin neitar því ekki, að talsvert muni verða um uppsagnir, og álítur því heppilegra, að það fari fram að vori til. Jeg vil benda á, að nú orðið er miklu minni ástæða til þess að halda þessum gömlu þvingunarlögum, þar sem nú horfir vænlegar en áður með byggingar í bænum, einkum ef frv. um nýja veðdeildarflokka verður að lögum. Þá má gera sjer von um, að viðunandi lánskjör fáist til bygginga. Jeg vona, að hv. deild sjái ekki eftir þessum lögum og verði sammála meiri hl. nefndarinnar um, að rjett sje að nema þau úr gildi.