10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) beindi til mín nokkrum spurningum við 2. umr. fjárlagafrv. Jeg skal byrja með því að gefa einstakar upplýsingar eftir því, sem spurningarnar hafa gefið tilefni til, án þess að vilja segja, að jeg ætli að svara þeim svo, að hv. þm. verði ánægður með. En hv. þm. spurði kurteislega, og sumt af því, sem hann spurði um, er um fjárhagsatriði, og þykir mjer því rjett að gefa upplýsingar um þau. Fyrst spurði hv. þm. að því, hvers vegna Íslandsbanki hefði ekki lækkað forvexti niður í 7% á síðasta hausti eins og Landsbankinn. Viðvíkjandi þessu vil jeg segja það, að þessi lækkun hjá Landsbankanum, sem gekk í gildi um mánaðamótin sept.-okt. síðastl., var gerð eftir tilmælum stjórnarinnar. En það, að Íslandsbanki lækkaði ekki sína vexti eins mikið, var af því að framkvæmdarstjórn bankans vildi ekki fara eins langt niður. Næst spurði hv. þm., hvort nokkrar ráðstafanir hefðu verið gerðar til þess að breyta enska láninu frá 1921 í hagkvæmara lán. Jeg hefi látið grenslast eftir því, hvort hægt muni vera að ná kaupum á þessum skuldabrjefum. Þetta lán var tekið með þeim hætti, að ríkissjóður gaf út handhafaskuldabrjef, sem síðan voru boðin til sölu á kauphöllinni í London. Eftir þeirri vitneskju, sem jeg hefi fengið, mun enginn kostur vera á því nú að ná í þessi brjef nema með frjálsum kaupum á kauphöllinni. Og það er leið, sem ekki er tiltækileg. En lánssamningurinn áskilur ríkissjóði rjett til þess að innkalla öll skuldabrjefin árið 1931, og gæti það orðið mikilsvert fyrir okkur.

Þá spurði þessi hv. þm. um kaup ríkisstjórnarinnar á gullforða Íslandsbanka. Það var svo ráð fyrir gert í lögunum frá 1921, að jafnóðum og Íslandsbanki drægi inn seðla sína skyldi ríkissjóður kaupa gull það, er losnaði á þennan hátt, við nafnverði. Þetta kom ekki til fyr en síðastliðið haust, en 8. sept. 1925 tilkynti bankastjórn Íslandsbanka, að hún vildi selja 150 þús. dollara, og hún fór fram á, að þessi fúlga yrði keypt með þáverandi gengi dollarsins, en þá var hann skráður á 546½ eyri. Því var svarað af stjórninni, að hún vildi kaupa samkvæmt lögunum. En stjórnin skilur lögin svo, að með nafnverði sje átt við verð það, sem ákveðið er í peningalögunum, en þar er dollarinn metinn á 3,73. Það varð svo að samkomulagi, að stjórn Íslandsbanka ljeti gullið af hendi gegn greiðslu þeirrar upphæðar, sem stjórnin vildi borga, að óskertum rjetti til að fá meira með dómi, ef hún færi í mál. Síðan hefir mál verið höfðað til greiðslu á mismuni upphæðarinnar, er nam ca. 200 þús. kr. En það mál er nú skamt á veg komið. Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að jeg hefði fundið ástæðu til þess að skýra þinginu frá þessu, ef jeg hefði talið nokkurn vafa á því, hvernig þetta mál færi. En jeg hefi aldrei talið nokkurn vafa á úrslitunum og hví ekki skýrt frá þessn fyr, en get þess, nú að gefnu tilefni. Mjer þykir rjett að benda á það, að þótt teljast megi sanngjarnt, að Íslandsbanki geti skotið málum sínum til dómstólanna til þess að fá þau útkljáð, svo sem lög standa til, þá hefir löggjafinn það þó í sínu valdi að loka þessari leið fyrir Íslandsbanka, ef ástæða þykir til. Á þá leið er vísað í lögum nr. 16, 18. maí 1920, um ráðstafanir yfir gullforða Íslandsbanka. Jeg geri nú ekki ráð fyrir því, að það komi fyrir, að Íslandsbanki vinni málið, en jeg get þessa til þess að hv. fjhn. geti tekið þetta til athugunar og gert upp við sig, hvort henni þyki ástæða til, að þingið geri ráðstafanir til þess að draga þetta mál úr höndum dómstólanna.

Þá spurði hv. þm., hvernig gengi með framkvæmd á merkingu á tóbaki, samkv. lögum frá 1925, sem gengu í gildi um síðustu áramót, svo og hver kostnaður hefði orðið af framkvæmdinni. Jeg get nú ekki gefið nema fremur ófullkomna skýrslu um þetta atriði, því að það eru engar fregnir komnar um það, hvernig þetta hefir gengið utan Reykjavíkur. En hjer í Reykjavík hefir þessu verið hagað svo, að lögreglustjóri hefir látið menn, er hann hefir haft í sinni þjónustu, framkvæma verkið. Kostnaðurinn á þessum fyrsta ársfjórðungi, frá 1. janúar til 31. mars, hefir orðið liðugar 6 þús. kr. Það hafa verið ýmsir annmarkar á framkvæmdinni, sem stafar af því, að tollstjórnin hvorki á nje hefir yfir að ráða húsnæði, er lagað sje til slíkrar vinnu. Því verða ýms vandkvæði á framkvæmd þessa ákvæðis hjer. En aðalatriðið er það, að kostnaðurinn verður hjer rúman 20 þús. kr. yfir árið. Jeg geri ráð fyrir því, að hv. þm. hafi spurt um þetta til þess að geta myndað sjer skoðun um það, hvort rjett sje að halda þessu áfram eða ekki. Jeg skal nú ekkert segja af eða á um það, en skal benda á, að það er ekki alveg hugsanarjett að taka þessa einu tollvöru út úr kerfinu. Tolleftirlit er framkvæmt hjer á annan hátt, sem talinn hefir verið sæmilega viðunandi. Það er bygt á tollskýrslum, sem heimtaðar eru með vörunum úr kindum þeim, sem þær eru sendar frá. Þetta, sem jeg hefi sagt, er í samræmi við skoðun lögreglustjórans; en hann er sá maður, sem mesta reynslu hefir í þessum efnum hjer á landi. Þegar þessi uppástunga um merkingu kom fram á síðasta þingi, þá vildi jeg ekki beita mjer á móti henni, þótt jeg teldi hana kostnaðarsama og ýmsum annmörkum bundna og í henni fælist ekki veruleg viðbótartrygging gegn smyglun. Jeg hefi ekki heldur talið rjett að koma fram með tillögur af hálfu stjórnarinnar um breytingu á þessu, þar sem reynslan er enn svo lítil hjer í Reykjavík og engin vitneskja komin utan Reykjavíkur.

Hið fimta, sem hv. þm. spurði um, lá fyrir utan umræðuefni það, sem nú liggur fyrir. En það var um sambandið milli steinolíueinkasölunnar og ullartollshækkunarinnar í Bandaríkjunum. Jeg ætla nú ekki eiginlega að svara þeirri spurningu, er hann bar fram um þetta efni. Jeg ætla ekki að gera meira en það að taka fram nokkrar upplýsingar, er hafa áður komið opinberlega fram, og leiðrjetta skakkar upplýsingar, er einnig hafa komið fram opinberlega. Þetta var gert að umtalsefni á þinginu 1923 út af fyrirspurn frá núverandi 3. þm. Reykv. (JakM) um steinolíueinkasöluna. Þá var ágreiningur milli mín og þáverandi atvrh. (KlJ) um tímaröð viðburðanna á þessu sviði. Jeg hefi nú litið yfir þær umræður, er þá fórn fram, og hefi sjeð, að það hafa komist inn í Alþingistíðindin skakkar upplýsingar, sem máli skifta og þörf er á að leiðrjetta. Það stendur í D-deild Alþingistíðindanna frá 1923, dálki 789, að ullartollurinn hafi komist á um áramótin 1921–'22, eða um 8 mánuðum áður en enski samningurinn um steinolíueinkasöluna var gerður. Jeg hefi hinsvegar látið sjá eftir mjer í Alþingistíðindunum, að ullartollshækkunin hafi gerst 1. jan. 1923. Nú skal jeg leggja fram rjettar dagsetningar. Steinolíusamningurinn var gerður 10. ágúst 1922. En sá stjórnarúrskurður í Bandaríkjunum, sem færði íslensku ullina upp í hæsta tollflokk, var gefinn 15. janúar 1923, þó þannig að úrskurðurinn skyldi ganga í gildi mánuði síðar, 15. febr. 1923. Jeg vona, að þetta nægi til þess að sýna, hvor rjettara hefir fyrir sjer um tímaröð viðburðanna. Jeg þarf nú ekki að segja mikið meira um þetta atriði. Það var auðheyrt á ummælum fyrirspyrjanda, að honum var fullkunnugt um sambandið milli þessara atburða. Hann fór ótilkvaddur að spyrja um það, hverjir hafi verið milligöngumenn að því, að ullartollshækkunin var gerð. Um það get jeg engar nýjar upplýsingar gefið. En á þinginu 1923 kom það opinberlega fram í umræðunum, að stjórn Bandaríkjanna hafi látið í ljós óánægju út af steinolíusamningnum, vegna þess að ameríska fjelagið, sem hafði mesta verslun hjer, var útilokað. Frá þessu skýrði þáverandi atvrh. (KlJ) og það stendur hjer í þingtíðindunum. Um hitt skal jeg ekki leiða neinar tilgátur, hverjir verið hafi milligöngumenn. En jeg vil minna á, að steinolíusamningurinn frá 10. ágúst 1922 var ekki birtur hjer fyr en löngu seinna; jeg veit ekki fyrir víst hvenær hann varð almenningi kunnur hjer, Jeg finn ekki opinbera tilkynningu fyr en reglugerðina, sem birt var í Lögbirtingi 19. des. 1922. Jeg get vísað til þess, sem fram kom á þinginu 1923. Þá kom í ljós, að það var einn maður fyrir utan samningsaðiljana, sem hafði fengið að vita um samninginn, sjeð hann og lesið. En það var forstjóri danska steinolíufjelagsins í Kaupmannahöfn.

Jeg tók það fram, að jeg ætlaði ekki eiginlega að svara þessari fyrirspurn frá hv. þm. En nú hefi jeg rifjað upp og gefið upplýsingar um það, sem mjer að svo stöddu þykir ástæða til.

Þau hefir orðið hjer dálítið þras milli hv. þm. Ak. (BL) og hv. þm. S.-Þ. (IngB), og vjek hv. frsm. (TrÞ) þar að nokkrum orðum í sambandi við þetta. Nú skal jeg segja það út af ummælum hv. þm. Ak., að jeg lít svo á, að þegar veittur er styrkur eða framlag úr ríkissjóði í fjárlögum til byggingar, alt að 2/5 kostnaðar, gegn því að 3/5 hlutar kostnaðarins komi annarsstaðar frá, þá verði þessir 3/5, sem koma eiga annarsstaðar frá, að fást án þess að nokkur hluti af því fje sje afturkræfur af stofnuninni síðar. Og það má því ekki eiga sjer nokkurn stað, að stofnun sje veðsett fyrir einhverjum hluta af því framlagi, enda getur slíkt aldrei átt sjer stað, ef stofnunin er sjálfseignarstofnun og hefir sjerstaka stjórn, sem ekki hefir um annað að sjá en það að ráða fyrir henni fjárhagslega. Nú er mjer ekki kunnugt um það, að neitt hafi verið brotið á móti þessari reglu að því er þennan skóla snertir. En ummæli hv. þm. Ak. gefa tilefni til þess, að það verði athugað, hvernig háttað sje um söfnunarsjóðslán það, sem tekið hefir verið af einstökum mönnum til þess að greiða nokkurn hluta af byggingarkostnaði skólans.

Þá vil jeg ennfremur andmæla ummælum frá hv. þm. S.-Þ. um það, að þeir menn, sem væru í andstöðu við skólann, væru annaðhvort móti alþýðumentun yfirleitt eða þeir vildu að öðrum kosti, að öll alþýðumentun kæmi úr kaupstöðunum, og þeir menn væru ekki til, sem ljetu í ljós andstöðu gegn skólanum, nema þeir hefðu aðrahvora þessa skoðun. Jeg get nú ekki neitað því, að jeg varð var við það á ferð minni í vor um það hjérað, sem þessi skóli er í, að þar voru ýmsir menn, sem ljetu í ljós við mig ummæli, sem jeg býst við, að hv. þm. (IngB) mundi telja að lýsti andúð gegn þessum skóla. En ástæðurnar voru aðrar en þær, sem hv. þm. (IngB) nefndi. Og þegar jeg nefni þær ástæður hjer, þá er það eingöngu til þess að bera blak af þessum mönnum, sem hv. þm. hefir nú beint að þeim. Um mæli þeirra fjellu mjög á þessa leið: Það er ákaflega leiðinlegt, þegar við erum búnir að fá myndarlegan skóla í hjeraðið, að þá sjáum við okkur ekki fært að senda unglinga okkar þangað. — Og hver var ástæðan? Ástæðan var sú, að þeir vildu ekki trúa skólastjóranum fyrir sínum unglingum. Hv. þm. Str. sagði, að hv. þm. S.-Þ. hefði talað hjer fyrir hönd bestu og merkustu manna í Þingeyjarsýslu. En jeg hygg, að þeir menn, sem við mig töluðu, svo sem jeg hefi nú lýst, verðskuldi fyllilega að teljast til þess flokks. Þá vísaði hv. þm. Str. til þess að það hvíldi lán á fleiri skólum, svo sem Hvítárbakkaskóla og Blönduósskóla. Og líklega mundi einnig fara svo um alþýðuskólann í Árnessýslu, að á honum mundi hvíla lán, þegar þar að kæmi. Um Blönduós- og Hvítárbakkaskólana er það að segja, að þeir eru óviðkomandi þessu máli, því styrkur hefir ekki verið veittur til þess að koma þeim upp með sömu skilyrðum og til þingeyska skólans, og jafnvel enginn styrkur. En hvað snertir skólann í Árnessýslu, þá eru ummæli hv. þm. (TrÞ) algerlega órökstudd, enda í fullu ósamræmi við skilyrðið fyrir því fjárframlagi, sem hugsað er, að verði veitt til þessa skóla.

Jeg geri ráð fyrir því, að hv. 2. þm. Skagf. sje fullkomlega maður til þess að svara hv. þm. Str. út af því, sem þeim ber á milli. En þó er eitt atriði, sem jeg finn nokkra ástæðu til að minnast á. Hv. þm. Str. hafði þau orð, að hv. 2. þm. Skagf. hefði verið að marka stefnu íhaldsflokksins með því að snúast á móti alþýðuskólanum í Þingeyjarsýslu og stúdentagarðinum. Þetta tel jeg villandi, og þar sem slíkt hefir áður heyrst frá hv. þm. (TrÞ), þá tel jeg sjálfsagt að mótmæla þessu enn ákveðnar.

Þegar svo er komið, að búið er að hlaða á fjárlögin eins miklu og telja má að ríkissjóði sje fært að bera, þá er eðlileg afleiðing þess sú, að menn verði oft knúðir til þess að vera á móti fjárframlögum, sem í sjálfu sjer eru gagnleg, en maður hinsvegar sjer sjer ekki fært að bæta á ríkissjóð á því fjárhagsári, sem um er að ræða. Með öðrum orðum: Afstaða manna gagnvart þeim málum, sem um er að ræða, fer ekki eftir því, hvernig þeir kunna í sjálfu sjer að líta á málin sjálf út af fyrir sig, heldur markast hún af afstöðu manna gagnvart þessu eina og mesta máli: fjárhag ríkisins. Hv. þm. Str. mun finna, að þetta á meðal annars við um hann sjálfan. Hann er sjer þess að sjálfsögðu meðvitandi, að hann hefir lagst á móti ýmsu, sem hann í sjálfu sjer hefir ekki verið mótfallinn, sökum þess, að hann hefir ekki treyst sjer til að veita þær fjárhæðir úr ríkissjóði, sem nauðsynlega þurfti til framkvæmdar þessum málum. Og þetta hygg jeg, að gildi líka um okkur alla, sem hjer eigum sæti í þessari hv. deild, að afstaða okkar til slíkra einstakra útgjaldaauka getur ekki venjulega mótast af hug okkar og áliti á þeim málefnum sjálfum, sem farið er fram á fjárveitingu til, heldur af hinu, hvar við álítum, að setja verði takmörkin um gjöld ríkissjóðs.

Þá skal jeg snúa mjer að nokkrum einstökum fjárveitingatillögum, sem nú liggja fyrir, og minna á það, að útgjaldahlið fjárlaganna hefir við 2. umr. í þessari deild hækkað nokkuð á fjórða hundrað þúsund króna, og við þessa umr. hefir hún hækkað um tæpar 60 þúsund krónur. og nú liggja fyrir til atkvgr. hækkanir um nær 280 þús. krónur. Jeg verð að endurtaka það, sem jeg áður hefi sagt við þessar umræður, að jeg álít, að það sje nauðsynlegt, að hv. þdm. sýni talsverða sjálfsafneitun gagnvart þessum tillögum, og jeg vil beina þeim tilmælum til hv. þd., að hún reyni að fylgja hv. fjvn. um það að fella þær till., sem máli skifta og hv. fjvn. hefir lagst á móti. En það er nú svo, að mjer sýnast sumar hækkunartillögur fjvn. sjálfrar orka nokkurs tvímælis, og þar með sumar, sem hv. 2. þm. Skagf. hefir mælt á móti, t. d. brtt. XXXIV.1, við 14. gr. Hv. frsm. ljet í ljós það álit sitt, að það væri eldsneytissparnaður að setja upp miðstöðvarhitun í skólahúsið, en mín reynsla mælir á móti því, að það sje nokkursstaðar eldsneytissparnaður að setja miðstöðvarhitun; en hitt er auðvitað, að það fæst miklu meiri hiti og er notaður meiri hiti. Nú er það svo, að á Eiðum eru aðflutningar mjög erfiðir, vegna fjarlægðar frá kaupstað, svo að kol hljóta að verða mjög dýr, en ljettara eldsneyti, mór og skógarviður, vel fáanlegt þar; slík hitun mun því eiga best við á Eiðum og verða ódýrust í rekstri, og jeg er því ekki viss um, að það sje nokkur velgerningur, hvorki við ríkissjóð nje þessa stofnun, að vera að samþykkja að setja miðstöðvarhitun þar.

Þá vil jeg næst minnast á till. frá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), um að veita nú allháa upphæð til aðgerðar á öldubrjótnum í Bolungarvík. Þetta mál var fyrir síðasta þingi, og þá var samþykt að gefa Hólshreppi eftir allháa upphæð, rúm 16 þús. kr., með því skilyrði, að Hólshreppur tæki að sjer viðhald á þessum öldubrjót. Það er nú nýbúið að greiða þessa upphæð, gegn yfirlýsingu hreppsnefndar um það, að hún taki að sjer þetta viðhald, og jeg get ekki neitað því, að það ber nokkuð fljótt að, þegar strax er farið fram á fjárveitingu til viðhalds úr ríkissjóði, þegar búið er að uppfylla það skilyrði, sem leysir ríkissjóð frá viðhaldsskyldu. En jeg væri nú samt ekki svo mikið um þetta að fást, ef ekki hefði beinlínis verið bent á það á síðasta þingi, að viðhaldið mundi verða hreppsnefndinni ofvaxið, og að sú ráðstöfun, sem þá var gerð, þýddi sama sem að hætta að viðhalda þessu mannvirki. Jeg leit svo á, að hv. þm. N.-Ísf. gengi inn á þetta á síðasta þingi, en það má vera, að honum og máske öðrum hv. þm. hafi ekki verið ljóst, að ef á að viðhalda þessu mannvirki, þá þarf til þess upphæðir, sem þessu hreppsfjelagi er ofvalið að greiða.

Þá ætla jeg að minnast á tillögur frá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), á þskj. 297, LXIII. Það eru talsverðar fjárhæðir alls, sem farið er fram á, rúm 30 þús. kr., og jeg held, að það sje ekki svo aðkallandi, að það sje nauðsyn, eins og nú stendur á, á neinum af þeim framlögum, sem þar er farið fram á svo að það geti verið rjett að bæta þeim ofan á útgjöld í fjárlögum, sem þegar eru svo hlaðin útgjöldum eins og þetta frv. er. Hv. fjvn. hefir lýst yfir því, að hún sje mótfallin tveim fyrri tillögunum, og vænti jeg að ekki þurfi að fjölyrða um þær, en um síðustu till., sem er fjárveiting til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík, er það að segja, að jeg veit ekki annað en að sá sjóður hafi að opinberri tilhlutun fengið svo stóran stofnsjóð, að honum muni ekki vera fjárvant eins og stendur.

Hv. þm. N.-Þ. (BSv) á hjer brtt. LXIV, um styrk til þess að stofna og reka Íslendingaheimili í Kaupmannahöfn, 5000 krónur. Vil jeg nú fara fram á það við hv. þm. (BSv) að taka þessa brtt. sína aftur, því að hún getur ekki á nokkurn hátt fullnægt neinu því, sem henni er ætlað samkvæmt texa hennar, og ætti að minsta kosti ekki að standa í fjárlögum þannig orðuð eins og hún er nú. Jeg ætla ekki að segja neitt meira um þetta að svo stöddu.

Þá ætla jeg að minnast á stærstu hækkunartillöguna, sem jeg ætla að muni koma til atkvæða hjer. Hún er frá fjvn. og er byggingarkostnaður til stúdentagarðsins, 50 þús. krónur. Jeg ætla ekki að gera það til þess á neinn hátt að mæla á móti því, að lagt verði úr ríkissjóði til stúdentagarðsins, en jeg ætla að segja það, að það er ekki mögulegt að gera það með því að veita í fjárlögum, athugasemdalaust og skilyrðistlaust, nokkrar fjárhæðir. Mjer skilst, að þá muni svo fara um þetta, ekki síður en alþýðuskóla Þingeyinga, að það viti enginn, hver á hann. Mjer er kunnugt um, að stúdentar hafa sett nefnd, sem gengst fyrir fjársöfnun í því skyni. Það er ákaflega loflegt, og hefir henni orðið talsvert ágengt í því efni, en jeg álít, að slíkri stofnun verði ekki komið upp af almannafje, nema með því að það verði sett löggjöf um að stofna hana. Það kynni að mega gera þetta með athugasemd í fjárlögum, þó að það sje ávalt ófullkomið. Slíku á að skipa með lögum, hvort fært sje að byggja, hvort fje sje til umráða, hvar og hvenær eigi að byggja, svo og hver á að hafa forsjá og stjórn þessarar stofnunar og sjá um viðhald og rekstur hennar og er rjettast að þetta komi fram með því að setja lög um það. Ef svona fjárveiting er veitt án þess að neitt sje um þetta orðað, þá get jeg varla skilið það öðruvísi en svo, að fjeð sje lagt til hliðar og haft til umráða í því skyni að grípa til þess, þegar búið er að setja nauðsynleg ákvæði til þess að tryggja hagkvæma byggingu og framtíð og rekstur stofnunarinnar. Og megi skilja þetta svo, þá ætla jeg ekki að leggjast neitt sjerstaklega á móti þessari fjárveitingartillögu.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) á svo hjer brtt. á þskj. 297, LXVI. lið, um eftirlaun til Ögmundar Sigurðssonar, ef hann lætur af skólastjórn. Eftir því, sem mælt hefir verið fyrir þessari till., þá álít jeg rjettast að taka hana aftur. Jeg er öldungis samþykkur því, sem hv. frsm. fjvn. (TrÞ) lýsti yfir, að það myndi talið sjálfsagt að veita þessum skólastjóra eftirlaun, þegar hann lætur af skólastjórn, og jeg skal bæta því við, að þótt slík eftirlaun sjeu ekki tekin upp í þau fjárlög, sem gilda fyrir það ár, sem starfsmaður fer frá, heldur í þau næstu á eftir, eins og oft vill verða, ef till. um eftirlaun er ekki tekin upp fyr en starfsmaðurinn er farinn frá, þá má segja, að það sje venja stjórnarinnar að byrja að borga eftirlaun út og greiða þau frá þeim tíma, sem starfsmaður fór frá, og tekur þau þá upp í væntanleg aukafjárlög, þar til þau fjárlög ganga í gildi, sem hans eftirlaun hafa verið samþykt á, svo að það þarf ekki að taka slík eftirlaun upp í fjárlög á meðan maðurinn er í starfinu, til þess að tryggja það, að engin eftirlaun falli niður, því að þau verða greidd fyrir allan tímann eftir að starfsmaðurinn fer frá. Í þeim fáu tilfellum, þar sem eftirlaun starfsmanns eru samþykt áður en hann fer frá, þá hefir það óneitanlega verið gert eins og til þess að styðja að því að starfsmaður færi frá, en það ætla jeg að engum þyki ástæða til um þennan skólastjóra.

Þá ætla jeg loksins að minnast á nokkrar till., sem hjer eru fram komnar um eftirgjöf á viðlagasjóðslánum, og það eru þá fyrst tvær till. um eftirgjöf til sýslufjelaga, nefnilega til sýslufjélags Austur-Húnvetninga, um eftirgjöf á láni til kvennaskólabyggingar, og til sýslufjelags Dalasýslu, um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni, sem veitt var til Hjarðarholtsskólans. Jeg held, að bæði þessi sýslufjelög sjeu þannig stæð, að hvorugt þeirra þurfi í rauninni slíkrar eftirgjafar með, og mjer er ekki kunnugt um, að þessi sýslufjelög sjálf hafi farið fram á þessar eftirgjafir. En það verð jeg að segja, að mjer finst það ákaflega óviðkunnanlegt að gefa eftir lán, sem veitt eru sveitarstjórnum eða slíkum opinberum stofnunum, án þess að hlutaðeigendur sjálfir hafi að minsta kosti snúið sjer til stjórnarinnar um það og hafi sent þau skilríki um efnahag sinn, sem rjettlæti það. Um það, hvort um þetta hafi verið sótt fyrir Dalasýslu, skal jeg ekki segja, nema það hefir verið borið fram sem ástæða til eftirgjafar fyrir Dalasýslu, að það fyrirtæki, sem sýslan tók lán til, hafi mishepnast. Það kann að vera, en jeg álít, að það sje hættuleg braut að komast inn á, að lána til eins og annars, sem sýslufjelögin gera upp á sína ábyrgð, og losa þau svo við afleiðingarnar, ef mistök kunna að verða, nema því aðeins, að óhöppin hafi verið alveg ófyrirsjáanlegum atvikum að kenna.

Sama hefi jeg í rauninni að segja um eftirgjöf á dýrtíðarlánum, sem farið fram á á þskj. 297, undir LVI lið.

Það eru æðimörg hreppsfjelög, sem hafa fyr og síðar fengið lán úr viðlagasjóði af ýmsum ástæðum, og jeg er hræddur um, að ef það færi að tíðkast svo mjög, sem hjer er farið fram á, að gefa þau eftir, myndi það draga á eftir sjer illan dilk t. d. þegar veitt eru viðlagasjóðslán sjerlega bágstöddum hreppsfjelögum, sem ekki áttu annars úrkosta en að beiðast slíkra lána, til þess að rjetta við fjárhag sinn, án þess að hreppsfjelögin hafi þó farið fram á neinar gjafir, heldur einungis farið fram á að fá lán úr viðlagasjóði, sem eru þeim hagstæðari heldur en þær lausaskuldir, sem hvíldu á þeim. Mjer finst, að það geti ekki verið önnur ástæða gild fyrir slíkum eftirgjöfum, sem hjer er farið fram á, en að þau væru svo sjerstaklega bágstödd frekar en önnur, að þau þyrftu þess með að fá eftirgjafir af opinberu fje, en það hefir ekki verið gerð grein fyrir þessu í hv. deild, og jeg hefi þess vegna útvegað mjer síðustu reikninga þessara hreppsfjelaga, sem fyrir liggja, og vil jeg þá leyfa mjer að gera hv. deild ofurlitla grein fyrir fjárhag þeirra. Það er þá fyrst Grunnavíkurhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu. Samkvæmt reikningi hans fyrir fardagaárið 1923–24, sem er sá síðasti, sem jeg hefi getað náð í, þá eru eignir hans í fardögum kr. 6909,05, en skuldir hans eru kr. 5585,17, og af skuldunum ætla jeg, að mestur hlutinn, það mun vera að minsta kosti 3000 krónur, sje af þeim, sem hjer er farið fram á að gefa eftir að nokkru. Til þess nú að geta sjer fulla grein fyrir þessu, er rjett að líta á, hverjar þessar eignir hreppsins eru, og reikningarnir bera það með sjer, að hann á í sjóði kr. 2418,32, innieign í sparisjóðum og bönkum kr. 389,00, ógoldin sveitarútsvör kr. 3367,78, og útsvörin í þessum hreppi hafa verið þetta fardagaár á 88 gjaldendum kr. 3679,00, og er það að vísu mjög erfitt án kunnugleika að dæma um, hvort þetta sjeu tiltölulega há útsvör eða ekki, um 40 krónur á gjaldanda; en jeg hygg, eftir því, sem útsvör eru hjer á landi, að þetta geti ekki talist sjerlega hátt. Jeg er hræddur um, að það myndu nokkuð mörg sveitarfjelög geta beiðst gjafa af opinberu fje, ef það er brýn nauðsyn að gefa þessu hreppsfjelagi.

Þá er Innri Akraneshreppur. Hjer er farið fram á 2000 króna eftirgjöf af 3000 króna dýrtíðarláni. Nú er efnahagur þess hrepps óneitanlega talsvert lakari. Þar eru á þessu sama fardagaári eignir kr. 2142,05, en skuldir kr. 5380,40; með öðrum orðum, að skuldir hreppsins eru talsvert hærri en eignir hans. Útsvör í hreppnum á 63 gjaldendur eru kr. 4048,00, eða milli 60 og 70 krónur á hvern gjaldanda, og voru þannig nokkuð hærri en í hinum hreppnum. Það gæti því virst svo, sem það væri frekar ástæða til eftirgjafar hjer, en það eru þó atriði í þessum reikningi, sem benda til þess, að hreppurinn sje heldur að rjetta við. Fyrst er það, að fátækraframfærsla er þar í ljettasta lagi; af þessum rúmum 4000 krónum, sem útsvörin voru, hafa farið til þurfamanna og í greftrunarkostnað þurfalinga rúmar 900 krónur, eða ekki ¼ hluti af útsvörunum, enda virðist mjer, að reikningurinn beri það með sjer, að hreppurinn hafi á fardagaárinu minkað skuldir sínar ekki óverulega.

Mjer sýnist, að skuldirnar hafi minkað á árinu um ca. 1600 kr., svo jeg held, að þó að efnahagur þessa hreppsfjelags sje óneitanlega ekki vel góður og beri vott um undangengna erfiðleika, megi þó gera sjer von um, að hreppsfjelagið muni komast af án gjafa.

Þá er það þriðja og stærsta upphæðin, sem beðið er um eftirgjöf á. Það er viðlagasjóðslán til Árneshrepps í Strandasýslu, að upphæð 10 þús. kr. Það getur verið, að eftir sje ógreitt af þessu láni dálítið meira en þessar 10 þús. kr. en það munar þó vart miklu.

Efnahagsreikningur þessa hreppsfjelags fyrir fardagaárið 1924 sýnir, að eignir hreppsins eru um 22 þús. 251 kr., en skuldir 11 þús. 650 kr., eða liðlega helmingur á móts við eignirnar. Jeg vil gjarnan gera grein fyrir, hvernig eignum þessa hreppsfjelags er varið. Peningar í sjóði eru 606 krónur, innieign hjá kaupmönnum 6 þús. 73 kr., ógoldin útsvör ca. 700 kr., aðrar eignir liðlega 200 krónur. Þetta er liðl. helmingur á móts við skuldirnar, en svo á hreppurinn útistandandi lán, og verður ekki annað sjeð en hann fái vexti af þeim, því í reikningnum eru taldir ársvextir af útlánum hreppsins 609 kr. 59 aur., en þetta samsvarar vöxtum af viðlagasjóðsláni hreppsins. Ávöxtun skuldanna hvílir því alls ekki á hreppnum sjálfum, svo að þetta þarf ekki að taka af hreppsbúum með niðurjöfnun útsvara, eins og annars mundi vera gert. Hreppurinn á talsvert fje í útlánum og fær vexti af því fje, svo að útsvörin á 174 gjaldendum verða samtals aðeins 6984 kr., eða ca. 40 kr. á hvern gjaldanda.

Jeg er hræddur um, að ef þessi eftirgjöf verður veitt, þá muni æðimargir hreppar á landinu þykjast eiga sanngirniskröfur til eftirgjafar á fje ríkisins.

Jeg skal bæta, því við það, sem jeg nú hefi sagt, að jeg veit ekki til, enda þótt jeg geti ekki fullyrt um það, að þetta hreppsfjelag, eða nokkur fyrir hönd þess, hafi snúið sjer til stjórnarinnar með beiðni eða tilmæli um ívilnun eða eftirgjöf á þessu láni. Þetta tek jeg fram vegna þess, ef þetta verður samþykt, sem jeg þó vona að verði ekki, þá er hjer komið inn á hættulega braut, fordæmisins vegna. Ef slíkar eftirgjafir yfir höfuð koma til mála, má ekki minna vera en að viðkomandi sveitarfjelag hafi snúið sjer til stjórnarinnar þessu viðvíkjandi og lagt fram skilríki fyrir fjárhagsástæðum viðkomandi hreppsfjelags eða aðrar tilsvarandi ástæður fyrir eftirgjöfinni.

Þá vil jeg að lokum aðeins víkja örfáum orðum að einni brtt. á þskj. 297, LXVIII. brtt., um heimild til að lána sóknarprestinum á Ísafirði 25 þús. kr., gegn veðrjetti í húseign hans þar. Bæði er þetta algert nýmæli í fjárlögum og svo er jeg hræddur um, að fje verði tæplega til, sem hægt verði að lána, ef samþyktar verða allar þær lánsheimildir, sem farið hefir verið fram á. Svo hygg jeg, að þetta, sem er algert nýmæli, — að lána kaupstaðaprestum fje til bygginga eða gegn veði í þeim — verði til þess, ef þetta verður samþykt nú, að ekki verði hægt að komast hjá því að halda áfram að lána kaupstaðaprestum framvegis fje í þessu skyni. En það er satt best að segja, að sveitaprestar hafa ekki átt svo góð viðskifti við hið opinbera út af lánveitingum til byggingar á prestssetrum, að bein ástæða sje til í framhaldi af því að fara að veita kaupstaðaprestum slík viðlagasjóðslán og þetta.