14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

125. mál, seðlaútgáfa

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. fjrh. benti á það, og það var rjett, að með brtt. 594 eru Landsbankanum veitt betri kjör en áður um seðlaútgáfuna og að hann mundi hafa talsverðan hagnað af henni. Þá sagði hæstv. fjrh., að þessum gróða bankans yrði varið til að bæta upp halla, sem bankinn kynni að verða fyrir af því að viðhalda genginu; en í 2. gr. frv. sagði hæstv. fjrh., að bankanum væru veitt of góð kjör, sem gætu leitt til þess, að of mikið yrði gefið út af seðlum. Jeg er þó alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að núverandi stjórn Landsbankans fellur ekki í þessa freistni, en með þessu gefur hæstv. ráðh. í skyn, að hlunnindi frv. til bankans hafi verið ennþá meiri, ef brtt. fer nærri því fulllangt.

Mótmæli hæstv. ráðh. gegn brtt. minni hl. eiga ekki við rök að styðjast, og ber hjer að þeim sama brunni og áður í umræðunum um þetta mál, að hjer er ekki um neinn árekstur í deildinni að ræða út af gengismálinu. Jeg endurtek því áskoranir mínar til háttv. deildar að halda fast við yfirlýsta stefnu í þessu máli og skora eindregið á menn að veita ekki stórfje til þeirra framkvæmda, sem áður er búið að mótmæla, að verði framkvæmdar.