17.03.1926
Neðri deild: 33. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

15. mál, útsvör

Pjetur Þórðarson:

Jeg ætla að byrja á því að beina nokkrum orðum til hv. 2. þm. Rang. (KlJ), ef ske kynni, að hann yfirgæfi sæti sitt áður fundi væri lokið.

Viðvíkjandi vorkunnsemi við þingmenn, þegar kemur til að greiða atkvæði um þessar brtt., verð jeg að segja það út af ummælum hv. 2. þm. Rang. og ummælum hæstv. atvrh. um örðugleika fyrir hæstv. forseta, að jeg tel það alt of mikið siðferðilegt hirðuleysi, ef hv. þm. yfirleitt eru ekki færir um að athuga sig um þessar brtt. áður en þær eru bornar upp til atkvæða. Ef þeir eru ekki færir um það, þá eru þeir ekki færir um að gera sjer grein fyrir, hvernig málinu víkur við yfirleitt.

Annað atriði, sem jeg vildi beina til hv. 2. þm. Rang., var það, að hann ljet í ljós, að þrátt fyrir það, að honum litist örðugt að ganga að því að greiða atkv. með frv., að því leyti sem það hefir ákvæði um að skifta útsvörum milli sveita, þá mundi hann þó heldur taka þann kost að fylgja þessu ákvæði en að ganga að breytingum mínum um að fella þessi ákvæði niður. Það væri af þeirri ástæðu, að mínar breytingar myndu valda meiri örðugleikum. Það myndi verða flóknara að fara eftir þeim, til þess að rjettlátlega væri skipað þessum málum, heldur en ef skiftingarákvæðin kæmust í kring. Þetta hlýtur að stafa af því, að hv. þm. hefir ekki nægilega sett sig inn í samband minna brtt. við aðalefni frv. Jeg veit, að þetta er ekki sprottið af skilningsleysi hv. þm. nje heldur af því, að hann vilji ekki setja sig inn í samband till. við frv., heldur af því, að hann hafi litið of fljótlega yfir það, hversu nauðsynlegt er að gera það.

Þriðja atriðið, sem jeg vildi beina til hv. þm., er það, að hann virtist taka fegins hendi á móti og aðhyllast brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um það, að fella niður það ákvæði frv., að ekki megi leggja á sömu eignir og sömu tekjur hjá hlutafjelagi og hluthafa. Þetta finst mjer enn sanna það, að háttv. þm. hafi ekki nægilega sett sig inn í þessi ákvæði. Að lokum vildi jeg mælast til þess, að hann tæki sjer enn tíma til að yfirvega þetta mál. Þetta mál er — eins og hann sjálfur sagði — svo mikils vert, að það mun ekki af veita, að góðir menn sem hann gefi sjer tíma til að athuga það ítarlega, svo menn viti, hvað meint er. Og ef eitthvað er óljóst orðað í mínum till. eða annara, að leggja sinn skerf til þess, að það verði leiðrjett.

Að svo mæltu skal jeg snúa mjer að hæstv. atvrh. Eftir að hann hafði farið nokkrum lofsorðum um það, að jeg hefði sett mig inn í málið og jafnvel skilið það til hlítar, þá sneri hann sjer að því að skipa brtt. mínum í þrjá flokka. Þessi skifting hjá honum var að sönnu vel skiljanleg og að mörgu leyti greinileg. En mjer er ekki grunlaust um, að hann hafi sjálfur vitað betur en hann ljet í ljós um það, að það má ekki gera neina skiftingu á þessum brtt. Þær eru í svo nánu sambandi hver við aðra, að ef sú fyrsta er feld, þá álít jeg þar með sjálfsagt að taka hinar hjer um bil allar aftur. Fyrsti flokkurinn, sem hann nefndi, á svo skylt við annan flokk, að þar má ekki á milli sjá; hvorugur má án annars vera. (Atvrh. MG: Ætlar þm. að taka allar till. aftur. ef ein er feld?). Að minsta kosti til 3. umr. Jeg sagði, að mjer væri ekki grunlaust um, að hæstv. atvrh. hefði skilið betur en hann hefði látið í veðri vaka. Því mjer þótti hann verja furðu miklum tíma og mörgum orðum til að gera mikið úr því, að jeg hefði með fyrsta flokknum, sem hann svo nefndi, þóst finna upp eitthvert nýtt kerfi, áður óþekt. Jeg ætla ekki að segja margt um þau mörgu orð hæstv. atvrh. til að sýna, að það hafi löngu áður verið kunnugt um þetta kerfi, sem í fyrsta flokki ræðir um. En jeg skal segja honum það aðeins, að þetta var mjer fullkomlega ljóst, að jeg var ekki að finna upp nýtt kerfi, og jeg þóttist ekki í framsöguræðu minni í gær halda því fram, að jeg hefði fundið upp nýjan mælikvarða, sem öðrum var ókunnugt um. Nei, það er þvert á móti. Þessi fyrsti flokkur, sem hæstv. ráðh. talaði um, er aðeins undirstöðuatriði undir þær meginbreytingar, sem jeg vil gera á frv., að útsvarsskiftingin geti fallið niður. Hafi hæstv. atvrh. ekki skilið þetta, þá þykir mjer nokkur ástæða til að ætla, að aðrir hv. deildarmenn hafi ekki skilið það.

Um þessar brtt. mínar, sem hann setti í fyrsta flokk, sagði hæstv. atvrh. það, — sem jeg auðvitað áður vissi —, að hver niðurjöfnunarnefnd gæti tekið sjer hvaða reglur sem væri við niðurjöfnun, þessar eða aðrar. Þetta er mjer ljóst, og jeg veit, að það er búið að framkvæma það fyrir löngu í ýmsum sveitum landsins, og er altaf hægt, hvort sem frv. gengur fram óbreytt að því er snertir skiftingu útsvara. En það var ekki þess vegna, að jeg áleit nauðsynlegt að setja í lögin þessar reglur, að jeg álíti nauðsynlegt að framkvæma þær í hverju sveitarfjelagi. Það gæti líka komið einhver annar mælikvarði í staðinn fyrir þessar reglur. En jeg álít hinsvegar engu spilt, þótt slíkur mælikvarði væri ákveðinn með lögum, að svo miklu leyti sem jeg hefi gert í mínum brtt. Það er sannarlega ekki þröngur mælikvarði, að leggja á eftir efnum og ástæðum. Það er aðeins þetta, að það, sem niðurjöfnunarnefndin er vön að skrifa á bak við eyrað svo að segja, eða geyma á vitundinni, — og þá oftast nær nokkuð óljóst —, það ætlast jeg til, að hún sje skylduð til að ákveða og skrá með tölum. Hún á ekki að ákveða þetta fyr en hún er búin að framkvæma alt, sem tilheyrir því að taka til greina alt hugsanlegt, sem tilheyrir gjaldþolinu. Þetta verður hver niðurjöfnunarnefnd að gera, og hjer er engin breyting á öðru en því, að nú á að ákveða niðurstöðu með skráðum tölum, í staðinn fyrir að hafa þetta óskráð á vitundinni, sem engir aðrir geta áttað sig á. En hjer er ekki neitt nýtt kerfi fyrir því, hvernig eigi að meta gjaldþolið.

Þá kem jeg að því, sem hæstv. atvrh. vildi hálfpartinn gera gys að, sem mjer fellur svo sem ekki illa, ef aðalatriðið verður skilið. Hann fór að tala um, að það ætti að hækka og lækka þessa meðalhundraðstölu eftir því, sem hæfa þykir. Hjer kem jeg enn að því, að jeg ætlast ekki til, að settar verði neinar þröngar skorður, sem ekki sje hægt að rýmka eftir því, sem á þarf að halda. Það er aðeins hemill, en ekki fastar skorður, og hver niðurjöfnunarnefnd getur hreyft sig eftir því, sem henni þykir við eiga. Þessi hemill er það, að hún á sjálf að búa til gjaldstiga, sem gildi fyrir hundraðsgjald á útsvörum fyrir eitt ár í senn.

Þá var jeg áður búinn að útlista, hvaða atriði það eru í þessum flokki brtt. minna, sem eru undirstöðuatriði fyrir því, að ekki verði lagt hlutfallslega hærra útsvar á nokkurn gjaldanda í annari sveit en hann á heima í heldur en lagt er á gjaldendur í þeirri sveit. Því það er sama hundraðsgjald, sem gengur yfir hann og alla aðra í þeirri sveit. Það er rangt, frá mínu sjónarmiði, að ætlast til annars frekar en að lagt sje sama hundraðsgjald á þá og hina, sem heima eiga í sveitinni. Þar með er rutt úr vegi þeim galla, sem nú þykir áberandi í framkvæmdinni, að það sje lagt hlutfallslega hærra á þessa menn en í heimasveitinni. (Atvrh. MG: En ástæðurnar, koma þær til greina?). Jeg sagði, að það væri ekki sanngjarnt að ætlast til þess, að ástæður manna annarsstaðar sjeu teknar til greina í þessari sveit. Jeg álít fullkomlega rjettlátt og sanngjarnt, að aðeins sje litið á eignir og tekjur manna þar og að því leyti sem þær koma fram þar. Meira sje ekki sanngjarnt að taka til greina um ástæður hans. Það er einmitt vegna þessarar ástæðu, að allir liðir 9. gr. eru færðir í 8. gr., til þess að fella niður skiftingu.

Jeg álít það sanngjarnt, að heimasveitin fái þær tekjur allar sem álögustofn, sem ekki eru gjaldskyldar í atvinnusveitinni. Þannig álít jeg, að með öllu þessu sje alveg fyrirbygt, að það sje lagt á sama gjaldþol hjá einum manni í einni sveit og það sem lagt er á hann í annari sveit, og það er sanngirniskrafan á báða bóga í þessu máli.

Jeg vil leyfa mjer að nefna dæmi um skiftingu, ósanngirnina, sem felst í henni. Tveir menn, sinn úr hvorri sveit, t. d. í Mýrasýslu leita sjer atvinnu í Reykjavík og þeir fá 2000 kr. í kaup, en annar er aðeins tæpa 3 mánuði. Hinn maðurinn er rúma 3 mánuði og fær sömu upphæð. Sú sveit, sem á manninn, sem ekki var fulla þrjá mánuði, missir einskis í eftir ákvæðum frv. En hin sveitin verður að líkindum að missa 2/3 af því, sem á þennan mann verður lagt. Þetta er ekki sanngjarnt. Jeg álít miklu sanngjarnara að ákveða, að einungis skuli heimilt að leggja í atvinnusveitinni á það, sem er umfram þessar 2000 kr., en alls ekki á þessar 2 þús. kr. í neinum kringumstæðum.

Með því að jeg kemst ekki af með mjög stutta ræðu, en hefi orðsendingu fengið frá hæstv. forseta, hvort ekki sje best að fresta umr., þá fellst jeg á það. Jeg þarf enn ýmislegt að segja, en mjer hættir ekki til að gleyma neinu í þessu máli, þótt jeg geymi það til næsta dags.