20.03.1926
Neðri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

15. mál, útsvör

Klemens Jónsson:

Jeg skal ekki þreyta hv. þm. með langri ræðu. Jeg geri ráð fyrir, að þeim sjeu farnar að leiðast þessar löngu umræður, en hinsvegar ber að því að gæta, að þetta er afarmikilsvert mál, sem ekki má kasta höndunum til að afgreiða. Því fremur get jeg verið stuttorður, sem hæstv. atvrh. og hv. nefnd hafa tekið vel í mínar brtt. En það var háttv. þm. Mýr. (PÞ), sem fyrsta daginn, þegar þetta mál var hjer til umræðu, mintist á tvö atriði í minni ræðu. Hann tók það fram, að jeg mundi hafa misskilið brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) við 6. gr., og sama hefi jeg heyrt úr annari átt, að hv. 2. þm. Reykv. leggi aðra meiningu í sína brtt. en jeg geri, en jeg held nú samt, að jeg hafi skilið hana rjett.

Mín meining er sú, að það megi ekki leggja útsvar bæði á fjelag og fjelagsmenn út af arði þeirra af fjelaginu. En þetta finst mjer ekki koma nógu nákvæmlega fram í 6. gr., eins og hún var orðuð, enda er berlega gert ráð fyrir því í greinargerðinni, að svo geti farið, að tvívegis sje lagt á sömu mennina. Þar stendur: . . . Það er hjer sjerstök ástæða til að taka niðurjöfnunarnefnd vara fyrir að leggja tvisvar á sömu eign og sömu tekjur, svo framarlega sem aðiljar gera glögga grein fyrir þessum atriðum.“ Ef ekki er gerð glögg grein fyrir þessu verður lagt tvisvar á sömu mennina.

Setjum nú svo, að lagt sje á hlutafjelag, sem er heimilisfast hjer. Nú á þetta fjelag kannske meðlimi úti um alt land. Verður það þá að skýra þeim öllum frá því, að búið sje að leggja á það, eða eiga hluthafarnir sjálfir að útvega sjer skírteini? Annaðhvort verður að eiga sjer stað, til þess að þeir sleppi við að borga líka. Nú lít jeg svo á, að í 6. gr. sje sett aðalregla fyrir því, hverjir sjeu útsvarsskyldir. En þar stendur fyrst: „.... Útsvarsskyldir eru allir einstaklingar“ o. s. frv., og ennfremur: „útsvarsskyld eru öll fjelög, með allri þeirri getu, sem þau hafa.

Þannig álít jeg, að megi skilja þetta og svona skildi jeg það og með þessum skilningi greiði jeg atkvæði með tillögu hv. 2. þm. Reykv. Þyki þetta ekki nógu skýrt, vil jeg skjóta því til hæstv. atvrh. og hv. nefndar að athuga til næstu umr., hvernig orða beri greinina, svo að það komi ótvírætt í ljós, að ekki verði lagt bæði á fjelög og fjelagsmenn. Skil jeg ekki annað en að það megi takast.

Jeg skal ekki halda því fram, að þessi skilningur minn sje óyggjandi, en hinsvegar finst mjer hann vel geta staðist.

Þá vil jeg drepa á eitt atriði í 17. gr., um að konur geti skorast undan kosningu. Jeg vil aðhyllast þá brtt., sem komið hefir fram um þetta. Ef konur ekki treysta sjer til að gegna skyldunum, verða þær að missa rjettindin, því að þetta tvent verður að fylgjast að.