08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

15. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Eggert Pálsson:

) Hv. frsm. minni hl. hneykslaðist á því, að jeg sagði, að jeg hefði ekki grundvallaða þekkingu á útsvarsmálum. En það er samt svo. Fyrst er jeg kom í embætti mitt eystra, kusu sóknarbörn mín mig í hreppsnefnd, en mjer þóttu þau störf ekki svo skemtileg, að mig langaði til að hafa þau á hendi lengur en jeg þurfti. Þegar kosið var aftur, bað jeg því hreppsbúa að láta mig lausan, og gerðu þeir það að óskum mínum. Og þótt jeg haf langan tíma setið í sýslunefnd, hefi jeg ekki þurft þar á að halda svo óttalega víðtækri þekkingu í sveitartjórnarmálum. Þess vegna hefi jeg orðið að styðjast við reynslu annara í þessum málum. Hefir mjer ekki dulist, að þeir hafa þar róttæka þekkingu, og ber jeg því fult traust til þeirra. Á jeg þar sjer í lagi við höfunda frv. og hæstv. atvrh., auk hv. samnefndarmanns mín, þm. Seyðf. (JóhJóh). Hversu oft byggja þm. ekki á nál.? Þegar nefndir klofna ekki, þá sökkva einstakir þm. sjer oft ekki niður í málin, en treysta nefndinni. Frsm. minni hl. gat um það, að tíminn, sem allshn. hafði til þess að athuga frv., hafi verið stuttur. Því hefir nú ekki verið neitað af okkur. En það mætti segja líkt um fleiri mál, ef ætti að fara að bera slíkt fyrir sig. Tíminn er oft alt of stuttur og mörg merk mál daga uppi vegna þess. En annars held jeg, að ekki hafi verið svo sjerlega hrapað að athugun þessa máls. Nefndin las frv. yfir og bar það saman við gildandi lög, enda var hún vel sett að því leyti, að það var ágætur lögfræðingur í nefndinni. Nefndin hafði fjóra fundi um málið, og getur það tæplega talist lítið um eitt mál. Ef fjórum fundum hefði verið varið til hvers máls, sem fyrir nefndina kom, þá hefðu fundir hennar þurft að vera margir. En því er ekki svo varið. Stundum eru 3 og 4 mál afgreidd á sama fundinum. Hv. frsm. sagði, að það liti út fyrir, að við vildum samþykkja þetta frv. nú til þess að næsta þing hefði nóg að gera við að breyta því. En ef þetta frv. verður ekki samþykt nú, þá er enginn grundvöllur til þess að byggja á. Að vísa frv. til sveitarstjórnanna nú, held jeg að væri verra en að samþykkja það og láta þær glöggva sig á því sem lögum. Athugunin verður skarpari í framkvæmdinni en við yfirlestur. En ef tekin væri upp leið hv. minni hluta, að fresta samþyktinni til næsta þings, þá mundi þetta mál taka upp mikinn tíma á næsta þingi, án þess að betri niðutstaða fengist. Það er óhugsandi, svo skiftar sem skoðanirnar eru hjer á þinginu, að sveitarstjórnirnar yrðu sammála eða ánægðar. Alstaðar kæmi fram einhver óánægja. Það, sem mjer þykir einkennilegast hjá hv. minni hl., er, hve fáar breytingar hann kemur fram með, úr því hann fór að koma með breytingar á annað borð. Jeg vissi, að hann hafði hug á fleirum, og þá varð það ekki síður ljóst af ræðu hans. Jeg get nú leitt hjá mjer að gera athugasemdir við þessar brtt. Það hefir hæstv. atvrh. gert og sýnt fram á, að þær eru ekki bráðnauðsynlegar. Háttv. frsm. hefir borið það fyrir sig, að sig hafi skort tíma til þess að bera fleiri brtt. fram. Það má vera, að svo sje, en með sum atriði, sem hann vildi breyta, hygg jeg, að ekki hefði þurft langan tíma til að koma fram með brtt. um, svo sem t. d. almanaksárið. Það hefði ekki þurft langan tíma til brtt. í þá átt. Jeg get ekki neitað því, að grunur minn er sá, að úr því að brtt. eru ekki fleiri eða merkilegri en þetta, þá sje tilgangurinn með þeim aðallega sá, að fresta málinu, svo það nái ekki fram að ganga nú. Það þurfti ekki nema eina eða tvær brtt. til þess. Jeg finn svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Hæstv. atvrh. hefir tekið brtt. til athugunar, og svo sje jeg líka, að tveir hv. þm., sem flutt hafa brtt., standa hvor á móti öðrum.