01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg skal fyrir mitt leyti verða sem stuttorðastur; en hinsvegar er það svo, að jeg verð víða við að koma. Býst við að verða að víkja að flestum ef ekki öllum brtt. Mjer þykir fyrir mitt leyti hentugast að taka mælendaskrána í röð eins og hún liggur fyrir. Reyndar er hæstv. fjrh. ekki við, sem fyrstur tók til máls. Um till. hans hefi jeg sáralítið að segja. Þrjár af þeim eru aðeins til skýringar. 3. brtt. á þskj. 457 raskar ekki útkomu fjárlagafrv. Eins og hæstv. ráðh. tók fram, er þessi brtt. fram komin fyrir þá skuld, að nú er ætlað samkv. þáltill. í Nd., að tillag frá Vestmannaeyjum til útgerðar skipsins Þórs verði aðeins 15 þús. kr., í stað 25 þús. Nefndin er þessu fyllilega samþykk.

Viðvíkjandi 2. brtt., frá hæstv. fjrh., hefir nefndin ekkert á móti, að hann falli niður, með þeim skýringum, sem hann hefir gefið og hæstv. forsrh. (JM) hefir tekið gildar, að presturinn fái þessa erfiðleikauppbót greidda úr prestlaunasjóði.

Þá er till. hæstv. fjrh. nr. XXIV. Hana er ekki að skoða öðruvísi en sem leiðrjettingu. Það var víst ekki öllum nefndarmönnum ljóst, eða þdm., að þessi maður var búinn að ljúka námi í þessari grein. Nú hefir hæstv. fjrh. upplýst þetta, og þá er ekki rjett að kalla það lokanám, ef menn bæta við sig einhverju námi. Þó hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hafi gert aths. um þetta, þannig að ef þessu er breytt, gæti af því leitt, að maðurinn fengi styrk til framhaldsnáms koll af kolli, þá kemur það ekki til greina, úr því að búið er að yfirlýsa því, að það sje ekki meiningin með till.

XXVI. till., sem er frá hæstv. fjrh., verður einnig að skoðast sem leiðrjetting, og hefir nefndin ekkert á móti henni að segja.

Þá eru aftur á móti brtt. hans nr. XIX, um eftirgjafirnar. Það er áður upplýst, hvernig meiri hl. nefndarinnar hefir litið á þær eftirgjafir, og þarf ekki þar við að bæta. En hinsvegar getur verið nokkuð álitamál um það, hvort þessar brtt. megi komast að samkv. þingsköpum. Heyrðist mjer það á ræðu hv. 1. þm. Eyf., að hann áliti það ekki leyfilegt. Jeg veit ekki, hvernig nefndin lítur á þetta þingskapaspursmál, en jeg lít svo á, að þetta sje fullkomlega leyfilegt. Miklu fremur er það þingskapabrot að bera þessa liði upp alla saman í einu heldur en að greina þá sundur og bera upp hvern fyrir sig. Jeg get tekið ógnar einfalt dæmi. Það er frv., sem við höfðum fyrir skömmu með höndum, um veitingu ríkisborgararjettar. Þar var talið sjálfsagt að bera hvern lið upp út af fyrir sig. Nú getur það átt sjer stað, að þær upplýsingar kæmu fram, að deildinni þætti með öllu óverjandi að veita einhverjum af þessum mönnum, sem um væri að ræða, ríkisborgararjett. En eftir þeim skilningi, sem hv. 1. þm. Eyf. ljet uppi, ætti þá að vera algerlega ómögulegt að breyta því. Einnig má benda á annað algengt dæmi. Við 2. umr. hvers frv. er hver einstök grein borin upp út af fyrir sig og samþykt. En svo kemur það einatt fyrir, að við 3. umr. þykir nauðsynlegt að breyta einhverri sjerstakri grein eða fella úr, ef greinin þykir skaðleg. Annars skal jeg ekki fara frekar út í þetta. Það er mál, sem forseti hefir úrskurðarvaldið um.

Um till. frá hv. 1. þm. G.-K. (BK), um eftirgjöf til Gerðahrepps, er það að segja, að eftir því, sem á undan er farið, er það ekki nema eðlilegt, að þm. beri hana fram. Það liggur í hlutarins eðli, að svo framarlega sem hinar eftirgjafirnar fengju að standa óhreyfðar, þá hefir þessi hreppur eftir atvikum meiri rjett til eftirgjafar. Hv. þm. las upp hjer í deildinni skýrslur, sem sýndu, hversu illa þessi hreppur er staddur. Þar að auki höfum við haft þær skýrslur með höndum í nefndinni; svo að mjer er óhætt að segja, að nefndin getur ekki snúist á móti þessari beiðni, svo framarlega, sem hinar eftirgjafirnar fari í gegn. Enda væri engin sanngirni í öðru; því að þótt mönnum sje ekki vel kunnugt um hag hinna þriggja hreppa, sem hjer er um að ræða, þá hafa að minsta kosti legið fyrir reikningar Árneshrepps. Og það verð jeg að segja, að ólíkt er að sjá hag þess hrepps í samanburði við hag Gerðahrepps. Hinsvegar vænti jeg þess af hv. flm., að verði hinar eftirgjafirnar feldar, taki hann sína till. aftur. Enda hefir hæstv. atvrh. (MG) talað hjer mjög hlýlega að því er snertir þessar till. og lofað öllu góðu um það, að hann mundi taka ástand þessara hreppa og annara, sem eru líkt á sig komnir, til alvarlegrar íhugunar síðar meir og reyna eitthvað að bæta úr hinum erfiðu kjörum þeirra, án þess að endilega þyrfti að koma til uppgjafar á viðlagasjóðsláni. Það er, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram, hál braut að fara að gefa eftir viðlagasjóðslánin. Hætt við, að reki hver beiðnin aðra um eftirgjafir, og þá verði loks að loka viðlagasjóðnum fyrir öllum lánum, því að þá væri aldrei trygging fyrir því, að nokkurt lán úr honum kæmi til baka.

Viðvíkjandi till. sama hv. þm. (BK) get jeg ekkert sagt fyrir hönd nefndarinnar, með því að hún er svo seint fram komin, að nefndin hefir ekki átt kost á að koma sjer saman um hana. En frá mínu sjónarmiði vil jeg segja, að þar sem svo margt nauðsynlegt verður að bíða, þá getur þetta beðið um stund, sjerstaklega með tilliti til þess, að þegar er nokkur girðing um húsið. Kæmi það til að taka sig einkennilega út, ef tvær girðingar yrðu kringum húsið. Yrði girðing utan við girðingu á parti.

Hæstv. forsrh. (JM) tók næstur til máls. Um hans ræðu hefi jeg sama sem ekkert að segja. Jeg er honum samþykkur í því að fella niður styrkinn til Ögurþingaprestsins, þar sem hann lýsti því yfir, að hann fengi sem því svaraði úr prestlaunasjóði.

Frá hæstv. forsrh. er fram komin brtt. við XXIII. brtt. á þskj. 457, um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni til Dalasýslu til Hjarðarholtsskólans. Þessu vill hæstv. ráðh. breyta þannig, að það verði styrkur til Dalasýslu vegna halla á skólahaldi í Hjarðarholti. Þó að um sömu upphæð sje að ræða og komi í sama stað niður fyrir sýsluna, hvort veitt er, þá er það óneitanlega margfalt aðgengilegra að veita þessar 4 þús. í þessu formi. Og það er að vissu leyti ekki ósanngjarnt, að ríkissjóður hlaupi undir bagga með þessari sýslu fyrir það óhapp og tap, sem hún hefir beðið af því að ráðast í þetta skólahald. Þótt tala megi um of mikinn ákafa um það að koma upp skólum, þá er ekki hægt að lá slíkt einn hjeraði fremur en öðru.

Þá ljet hæstv. ráðh. (JM) í ljós, að hann væri ekki fullkomlega samþykkur tillögu nefndarinnar að lækka skáldastyrkinn um 2 þús. kr. Þótti nefndin hafa tekið helsti litla upphæð til þess að klípa af taldi hann vandkvæði á að fá hæfa menn til að þiggja þennan styrk, eftir það að búið væri að tína svo marga einstaka, bæði skáld og listamenn.

Þá er næst hv. 3. landsk. (JJ). Fyrst er till. hans um að fella niður fjárveitingu til sendiherrans í Kaupmannahöfn. Eins og allir sjá, er hjer um 45 þús. kr. að ræða, og væri það vitanlega gott og blessað að geta sparað slíka upphæð. En meiri hluti fjvn. lítur svo á, að það sje ekki unt. Það stóð nú svo á, er sendiherraembættið í Kaupmannahöfn var lagt niður, að þá höfðum við ágætum manni á að skipa, er allir flokkar báru mikið traust til að fara með þessi mál um stundarsakir. Og væri hann fús til þess áfram, mætti segja, að lítil ástæða væri til að endurreisa sendiherraembættið nú þegar. En eins og skýrt hefir verið frá, hefir maður þessi óskað að vera leystur frá þessu starfi, sem hann hefir gegnt með prýði þann tíma, sem hann hefir haft það á hendi, og jeg get ekki skilið; hvernig þingið ætti að þvinga hann til að gegna því áfram. Það getur því ekki verið um annað að ræða en að veita honum þessa lausn, sem hann hefir beðið um. Enda væri það lítil virðing eða þakkarskuld, sem við sýndum þessum manni fyrir gott og vel unnið starf, ef við yrðum ekki við ósk hans um lausnarbeiðnina.

Og hvert eigum við þá að fara?

Mjer vitanlega er enginn sá Íslendingur í Höfn, er við getum borið það traust til að fara eins með þessi vandamál þjóðarinnar eins og Jón Krabbe gerir. En hinsvegar getum við ekki falið það dönskum manni, þótt fáanlegur væri. Mjer skilst því, að hjer sje ekki um annan veg að þræða en að endurreisa sendiherraembættið í Kaupmannahöfn: Við komumst hvort sem er ekki hjá því að hafa þar mann. Mjer er um tvö sjálfstæð ríki að ræða, sem eru í „personalunion“. og úr því sambandsríkið sendir hingað sendiherra, sem er búsettur hjer, verðum við að gera sömu skil og hafa sendiherra búsettan í Kaupmannahöfn. Þetta er ekki aðeins kurteisisskylda, heldur er þetta þjóðarmetnaður. Það liggur í augum uppi, að okkur getur verið afarnauðsynlegt að hafa slíkan mann búsettan í Höfn, ekki vegna Dana eingöngu, heldur vegna svo margs annars sem við höfum saman að sælda við önnur ríki, er sá maður mundi gera samninga um fyrir okkar hönd. En svona mann eins og Jón Krabbe er ekki hægt að senda fram og aftur til Svíþjóðar, Noregs eða Englands, en gagnvart öllum þessum ríkjum höfum við hagsmuna að gæta, og þau störf mundi sendiherrann annast fyrir okkar hönd. Reynslan hefir líka sýnt okkur að við höfum fulla þörf fyrir svona mann. Allir flokkar eru nú sammála um og viðurkenna, að lausnin á kjöttollsmálinu mundi hafa orðið önnur, hefðum við ekki átt jafnágætum manni á að skipa eins og fyrverandi sendiherra okkar, Sveini Björnssyni, til þess að eiga í þeim samningum fyrir okkar hönd.

Þá mintist hv. 3. landsk. (JJ) á V. brtt., sem hv. 4. landsk. (IHB) er meðflm. að. En af því að hv. 4. landsk. talaði um hana líka, ætla jeg að hlaupa yfir hana í bili, en taka hana til athugunar, er jeg svara þessum hv. þm. (IHB).

Þá mintist hv. 3. landsk. sjerstaklega á mig vegna ummæla minna um VIII. brtt., um að greiða Kjartani prófasti í Hruna full laun, ef hann lætur af prestsskap og tekur við stjórn Suðurlandsskólans. Um það, sem hann vjek að mjer í ræðu sinni, verð jeg að segja, að hann umhverfði nokkuð orðum mínum, sem jeg get raunar fyrirgefið honum, vegna þess að jeg þykist vita, að hann hafi ekki gert það viljandi, því að hann var ekki við, er jeg flutti ræðu mína. Jeg tók það skýrt fram, að jeg teldi sjera Kjartan alls hróðurs og heiðurs maklegan. Hann hefir rækt köllun sína framúrskarandi vel í þau 35 ár, sem hann hefir verið þjónandi prestur. Jeg tók það líka fram, að jeg teldi ekki eftir ríkissjóði að greiða sjera Kjartani full laun, þegar hann ljeti af prestsskap hvenær svo sem það yrði. Slíkt er ekki ilt fordæmi og má á margan hátt forsvara. Jeg sje ekki eftir, þó slíkur ágætismaður væri leystur frá embætti með fullum launum, þegar hann vildi hætta, eins og t. d. var gert við Bjarna Sæmundsson. þegar hann ljet af starfi sínu við mentaskólann.

En það, sem jeg hefi á móti þessu, eru skilyrðin, sem honum eru sett. Með þeim er hann leiddur í freistni að nota sjer þetta, og það held jeg, að honum sje ekki til róðs. Hann er maður á sjötugsaldri, þegar honum er boðið þetta, fjárhagur hans þröngur, og mundi kannske freistast til að taka því, þótt meinbugir sjeu á. Að sjera Kjartan sje reiðubúinn að taka við stjórn skólans, hvar sem hann stæði í hjeraðinu og með þeim launum, sem sýslusjóður sæi sjer fært að greiða, efast jeg um, að sje rjett. Jeg get ekki ímyndað mjer, að maður á sjötugsaldri breyti um stöðu og taki upp nýtt starf fyrir mun lægri laun en hann hafði áður og flytji þaðan, sem hann hefir svo lengi búið. En hitt get jeg betur skilið, að hann hefði viljað taka við skólastjórninni, ef skólinn hefði verið reistur á Högnastöðum eða í námunda við Hruna, því að þá hefði hann getað tekið kapelán. Frá því sjónarmiði horfir málið alt öðruvísi við, því hefði honum ekki líkað skólastarfið, er hann fór að kynnast því, hefði verið hægt um vik fyrir hann að hverfa að sínu gamla starfi, er hann hafði svo lengi þjónað með heiðri og sóma. En segi hann af sjer prestsskap, er ekki um neinar útgöngudyr að ræða fyrir hann, færi svo, að honum fjelli ekki á einhvern hátt skólastjórnin. Hjer er erfitt hlutverk og um mikinn vanda að ræða fyrir hvern sem er, að taka við stjórn á skóla, sem reistur er af vanefnum og sárfátækt sýslufjelag á að kosta, sem sokkið er í óbotnandi skuldir, en á hinn bóginn ólgar óánægja hjeraðsbúa undir. Það er meira vandaverk en menn gera sjer í hugarlund að stýra því máli í höfn, svo að allir verði ánægðir. En jeg þekki svo skaplyndi sjera Kjartans, að hann mundi ekki hætta, þótt á móti bljesi, tæki hann á annað borð við skólastjórninni, heldur mundi hann berjast við í lengstu lög að halda skólanum uppi. Hinsvegar hefði honum verið í lófa lagið, ef skólinn hefði verið reistur á Högnastöðum, að hafa skólastjórnina með höndum 2 eða 3 ára bil ásamt prestsskapnum, og sleppa því þá, fjelli honum það ekki, og hverfa aftur að sínu fyrra embætti. En jeg þekki sjera Kjartan svo vel, að hann mundi ekki hætta við skólastjórnina á Laugarvatni eða annarsstaðar og halda áfram samkvæmt tillögu þessari sínum fullu prestslaunum, heldur stritast við örðugleikana á meðan kraftar hans entust.

Þar að auki er leiðin hættuleg fyrir sýslufjelagið, því jeg býst ekki við, að það noti sjer það að greiða sjera Kjartani lægri laun fyrir skólastjórnina en hann hefir áður haft. Heimilishagir hans leyfa honum ekki að taka lægri laun en hann hefir haft. En svo kemur hitt líka til athugunar, að maður, sem kominn er á sjötugsaldur, getur ekki stýrt skólanum nema skamma stund. Því ræður lífsins lögmál, sem allir verða að beygja sig fyrir. Og þá þarf að ráða annan skólastjóra, þegar sjera Kjartans nýtur ekki lengur við, og kæmi mjer þá ekki á óvart, að sýslunni reyndist erfitt að ná í annan eins skólastjóra fyrir 3 þús. kr. árslaun, þó að dýrtíðaruppbót fylgdi, og mundi því verða að hækka launin á annan hátt, ætti eftirmaður sjera Kjartans að gera sig ánægðan með þau.

Það er frá þessum tveimur hliðum sjeð, að jeg verð að vera á móti brtt. En hinu mótmæli jeg kröftuglega, að það sje óvild eða öfund gegn mínum gamla vini og bekkjarbróður, sem liggi til grundvallar. Honum vil jeg unna alls góðs og tel hann fyllilega maklegan hvers sæmdarauka, sem í boði væri.

Um eftirgjöfina til Dalasýslu sleppi jeg að ræða meira en jeg hefi gert í svari mínu til hæstv. forsrh. (JM).

Þá mintist hv. 3. landsk. á daufdumbraskólann og var mjer sammála um, að brýn þörf sje á viðbótarbyggingu við skólahúsið, en ljet þess jafnframt getið, að koma þyrfti þar upp blindraskóla og hæli fyrir önnur vanefna börn. Jeg efast ekki um, að full þörf væri á að koma upp slíkri stofnun, en skal ekkert um það segja, hvort hentugt muni að hafa það í sambandi við daufdumbraskólann. Annars skal jeg leyfa mjer að benda á annað, sem er hæli fyrir fábjána, er brýn nauðsyn væri til, að kæmist sem fyrst á stofn. Sem stendur munu vera um 100 fábjánar í landinu, og eins og gefur að skilja, þá eru þeir alstaðar vandræðapersónur.

Í frv. þessu, er hjer liggur fyrir, mun vera 1000 kr. styrkur handa einum slíkum manni til dvalar erlendis. Nefndin og þingið hefir ekki haft á móti því að veita slíkan styrk, enda mun sýnt verða, að brýn nauðsyn sje til að hjálpa slíkum aumingjum, og því fremur, sem fólkið á heimilum sveitanna er mun færra en áður var. Í annarihverri sveit er svo að segja fábjáni, sem koma þyrfti fyrir vegna þess að heimilin geta ekki annast þá sem þyrfti. Jeg þekki t. d. eitt heimili í minni sveit, þar sem svo er ástatt, að einn slíkur krossberi er, og enginn kvenmaður nema móðirin til þess að annast um aumingjann, og hún oft sárveik; og svona getur það verið víðar. Þess vegna er spurning um, hvort heilbrigð skynsemi leyfi lengur að ekkert sje gert aumingjum slíkum til bjargar.

Um 2500 kr. styrkinn til prentsmiðjunnar Acta get jeg sagt, að ekki væri nema gott og blessað, að þingið sæi sjer fært að veita hann, því óneitanlega væri það gaman, að geta gefið fornsögur okkar út með myndum og landabrjefum. En við getum ekki veitt okkur alt, sem löngunin þráir; til þess erum við of fátækir og smáir. Hinsvegar er mjer ekki ljóst, þótt styrkur þessi yrði veittur, hvort útgáfan yrði svo úr garði gerð, að almenningur gæti eignast bækurnar. Þetta kæmi því aðeins að fullu liði, að bækurnar yrðu ekki dýrari en svo, að almenningur geti keypt þær. Bækurnar mega ekki vera dýrari en útgáfa Sigurðar Kristjánssonar af Íslendingasögunum, til þess að alþýðu manna verði kleift að eignast þær.

Þá kem jeg að Rómaferðarstyrk til Finns Jónssonar málara. Nefndinni finst nóg komið af þessum utanfararstyrkjum inn í frv. og finst ekki hægt að bæta þar meiru við. Um verðleika mannsins og dugnað skal jeg ekkert segja, en nefndinni finst, að á þetta sje ekki bætandi, og leggur því á móti brtt.

Þá flytur sami hv. þm. (JJ) ásamt hv. 1. landsk. (SE) brtt. um 2000 kr. styrk til Páls Ísólfssonar í virðingarskyni. Nefndin verður að segja eins og er að fyrir sitt leyti var henni mjög illa við, er brtt. þessi kom fram, og það af þeim ásæðum, að þó að þessi maður hafi leyst starf sitt mjög vel af hendi, þá sje hann enn of ungur til þess að honum verði veittur sjerstakur styrkur í virðingarskyni. Það er leiðinlegt mannsins vegna, að bera fram svona till., sem hv. þdm. neyðast til að vera á móti. Þessi maður fjekk styrk á sínum tíma til fullkomnunar í list sinni, sem honum hefir tekist vel. En það er ekki rjett gagnvart svo mögum öðrum að þjóta strax í, er hann hefir gert arðberandi þann styrk, sem hann hefir fengið, að veita honum sjerstaka viðurkenningu. Að Páll Ísólfsson hafi með fullkomnun á listabraut sinni bætt fyrir alla þá styrki, sem mishepnast hafa, eins og hv. þm. (JJ) komst að orði, getur vel verið. En upp úr slíkri fullyrðing er þó tæplega það hafandi, að hv. deild eigi nú að bregða við og veita þennan styrk. Ef að þessu ráði yrði horfið mætti segja, að líkt stæði á um bæði Ásgrím málara og Nínu Sæmundsson. Sá styrkur, sem þeim hefir verið veittur, hefir borið fullan árangur, að dómi þeirra manna, sem vit hafa á þeim hlutum. Þau ættu því að koma á eftir, væri Páli Ísólfssyni veitt þessi viðurkenning, sem brtt. fer fram á.

Nei, við eigum að geyma okkur það þangað til menn fara að reskjast, að veita slíkar viðurkenningar, nema þá að sjerstaklega standi á, eins og t. d. um frú Björgu Þorláksdóttur doktor, sem er eina íslenska konan, er gert hefir fræðimensku að æfistarfi sínu.

Við höfum átt afbragðsmann á sama sviði og Pál Ísólfsson, og eigum enn, þar sem er Sveinbjörn prófessor Sveinbjörnsson, og þó hefir ekki verið fengist um að veita honum viðurkenningu fyr en á elliárum hans.

Þá kem jeg að brtt. hv. 3. landsk. um 3 þús. kr. styrk til bryggjugerðar í Búðardal. Jeg verð nú að segja fyrir mig, að jeg man ekki til, að erindi um þetta efni hafi legið fyrir fjvn. (JJ: Það er nýkomin áætlun vegamálastjóra; kom fyrst í gær). En þessa áætlun hefi jeg ekki sjeð, og nefndin heldur ekki, að jeg held, svo jeg get ekkert um það dæmt, hvaða nauðsyn beri til að ráðast í þetta fyrirtæki. Læt því vera að minnast frekar á þessa brtt., en lýsi því yfir fyrir mitt leyti, að jeg muni að svo vöxnu máli ekki geta greitt henni atkvæði.

Um till. hv. sama þm. (JJ) um eftirgjöf á láni Ólafs Hvanndals er það sama að segja og um hina, sem hann flytur um eftirgjöf á láni til Dalasýslu, að till. þessi er komin í annað horf, og býst jeg því við, að atkv. nefndarinnar sjeu óbundin um hana.

Þá kem jeg að síðustu brtt. þessa hv þm. (JJ), um 1500 kr. styrk handa Ólafi Marteinsyni til þess að safna alþýðuvísum og öðrum fróðleik. Það er nú svo, að smekkur manna er mismunandi um þetta efni, og jeg get sagt fyrir mig, að jeg hefi engan smekk fyrir allskonar vísnarusl, sem gengur manna í millum, og jeg held nefndin ekki heldur. Auk þess er kunnugt, að ýmsir fleiri fást við slíka söfnun, og eru misjafnir dómar manna um það.

Þá held jeg, að jeg hafi gert hv. 3. landsl., nokkur skil, og sný mjer þá næst að háttv. 2. þm. S.-M. (IP). Jeg var þá ekki inni í deildinni, er hann hóf mál sitt, en kom síðar, og býst því við, að ummæli hans hafi aðallega snúist um till. hans um hækkun á styrknum til þess að reisa barnaskóla. Nefndin lítur svo á, að vart sje gerlegt að fara hærra með þennan lið en komið er. Hann hefir nú verið færður upp um helming frá því, sem hann var í frv. stjórnarinnar. En þessi brtt. mun vera sprottin af umhyggju hv. flm. (IP) fyrir barnaskólanum í Nesi. En nú hefir mjer skilist, að ekkert sje því til fyrirstöðu, að þessi skóli geti orðið aðnjótandi einhvers af þeim styrk, sem nú er áætlaður, og ætti því brtt. að vera óþörf, enda mun fjvn. greiða atkv. móti henni.

Hvað snertir það, sent hv. 2. þm. S.-M. ljelt fram, að Norðfjörður greiði svo mikið í tollum og sköttum til ríkissjóðs, að nema mundi 240 kr. á mann, þá efast jeg um, að svo sje, að þorpsbúar greiði sjálfir svo mikið. Það mun vera mikil skipakoma á þessum stað, og mun mikið af þessu fje koma frá þeim. Það mundi líka sýna sig, ef það væri athugað, að ekki yrði minna á mann hjer í höfuðstaðnum, ef ætti að eigna Reykvíkingum sjálfum öll þau gjöld, sem hjer eru greidd til ríkissjóðs.

Um till. hv. 1. landsk. (SE) um að hækka skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta þarf jeg ekkert að segja. Hæstv. forsrh. hefir lýst skoðun sinni á þessu atriði, og má skilja á honum, að hann sje ánægður með þá upphæð, sem nú er í fjárlögum, og telji hana nægilega, með þeim fyrirvara, að hann hafi leyfi til að bæta við, ef með þarf. Samkvæmt því virðist engin ástæða til þess frá þingdeildarinnar hálfu að samþykkja þessa hækkun.

Þá hefir sami hv. þm. (SE) tekið upp aftur till. um sjúkrastyrk til Haralds Sigurðssonar, með þeim mun, að upphæðin er nú 900 kr., en var áður 1000 kr. Það liggur í hlutarins eðli, að afstaða þeirra, sem voru á móti 1000 kr., verður hin sama á móti 900 kr. Hjer er vitanlega ekki um svo mikið að ræða, að ástæða sje til að telja það eftir, ef þessi styrkur gæti orðið til þess, að þessi maður fengi bót á heilsu sinni. Hinsvegar gæti þetta orðið byrjun á öðru meira, að fleiri kæmu á eftir og sæktu um slíkan styrk til þingsins, og telur nefndin því varhugavert að gefa fordæmi í þessu efni.

Þá hefir hv. þm. (SE) flutt brtt. við 14. gr., um 800 kr. styrk til fræðslumálarits. Þessari till. er nefndin á móti. Henni þykir ekki ástæða til að styrkja sjerstakt rit í þessu efni, fremur en önnur. Það eru til sjerstök fræðirit, svo sem Prestafjelagsritið, Læknablaðið og Tímarit verkfræðingafjelagsins. Ef ætti að fara að styrkja eina stjett manna í þessu efni, þá væri engin ástæða til að skilja hinar eftir. Það virðist líka síst ástæða til að styrkja rit fyrir kennara, þar sem sú stjett er fjölmennust, og því flestir kaupendur.

Viðvíkjandi till. hv. þm. (SE) og annara hv. þm. um styrk til nýrra listamanna skal jeg taka það fram um þá alla, að nefndinni finst nóg komið af slíku og getur ekki mælt með neinum. Enda er töluverð upphæð veitt í fjárl. til styrktar skáldum og listamönnum, og ættu þessir menn að geta fengið styrk af því fje.

Þá er till. hv. þm. (SE) um að veita fjelaginu Landnám 5 þúsund króna styrk til nýbýlaræktunar. Nefndin vill ekki efast um, að þetta sje gott fjelag og hafi leitt töluvert gott af sjer, en henni virðist starfsemi fjelagsins ganga mest út á það að hlynna að Reykjavík, en slíka aðhlynningu vill nefndin ekki styðja, því að hún hefir vitanlega óbeinlínis í för með sjer aukna aðsókn að bænum og dregur fólkið úr sveitunum. En þar eru margar jarðir orðnar lítt byggilegar vegna þess að fólkið streymir úr sveitunum til kaupstaðanna. Og þó að hugsað væri til nýbýlaræktunar í sveitum, hefi jeg ekki trú á því, eins og nú standa sakir. Þar varðar mestu, sem annarsstaðar, að rjettur grundvöllur sje lagður, en hann er fólginn í bættum samgöngum. Meðan sá grundvöllur er ekki lagður, er óhugsandi að smábýli geti þrifist í sveit. Það væri annað mál, ef breyting væri komin á samgöngurnar, t. d. járnbraut austur, þá lægi opið fyrir að taka nýbýlamálið til athugunar austur í Flóa eða annarsstaðar, en eins og nú standa sakir, væri það óðs manns æði að ganga inn á þá braut. Hinsvegar á fjelagið, að því leyti, sem það hefir unnið þarft verk hjer, viðurkenningu skilið, og finst mjer þess vegna, að Búnaðarfjelagið ætti að styrkja það. En ef þessu fjelagi væri veittur styrkur úr ríkissjóði, þá er hætt við, að fleiri kæmu á eftir. Það var sú tíðin, að búnaðarfjelögin voru fleiri en eitt, en menn sáu, að það var óheppilegt, og voru fjelögin því sameinuð í eitt, Búnaðarfjelag Íslands. Það veitir svo búnaðarsamböndunum styrk frá sjer, og ef það telur þetta fjelag styrks maklegt, þykir mjer ekki ólíklegt, að það veiti því einhvern styrk.

Þá flytur hv. 4. landsk. (IHB) ásamt hv. 3. landsk. (JJ) till. um að veita Skúla Guðjónssyni lækni 3 þús. kr. styrk til bætiefnarannsókna. Hv. þm. er kunnugt um það, hvernig jeg lít á þetta mál, og þó að till. hafi nú verið breytt frá því, sem áður var, er afstaða mín hin sama.

Þó að það eigi að líta svo út, að ekki sje verið að stofna nýtt embætti, finst mjer það liggja í loftinu, að svo eigi að verða að lokum. Ef þessi maður er ekki fær um að taka að sjer hjeraðslæknisembætti eða „praktisera“, er það vitanlega meiningin að stofna nýtt embætti handa honum.

Þá er næst till. hv. 4. landsk. og hv. 1. þm. Eyf. um 1000 kr. styrk til Guðmundar Jónssonar frá Mosdal, til þess að halda uppi kenslu og námsskeiðum í trjeskurði og heimilisiðnaði. Hv. flm. er kunnugt um það, að meiri hluti nefndarinnar er þessari till. sinnandi. Meiri hlutinn telur ekki rjett að setja þennan mann hjá styrk. Þessi hv. deild feldi niður athugasemdina um styrkinn til heimilisiðnaðarfjelaganna, um að þau greiddu Guðmundi Jónssyni styrk af sinni upphæð, og ef þessi till. verður feld, er sennilegt, að sama aths. verði sett inn aftur í hv. Nd.

Jeg hefi nú minst nokkuð á till. hv. 1. þm. Eyf., bæði um till. hans um styrk til nýrra listamanna í sambandi við aðra listamenn, og till. þá, sem hann flytur með hv. 4. landsk.

Um till. hv. þm. Vestm. hefi jeg einnig talað að því er listamennina snertir, og er þá næst till. hans um að veita Guðbrandi Jónssyni 1200 kr. styrk til að semja íslenska miðaldamenningarsögu. Jeg held að meiri hluti nefndarinnar sje með þeirri till. Meiri hlutinn lítur svo á, að það hafi verið óverðskuldað að fella þennan lið niður af fjárl., úr því að hann var þar kominn. Það hefði verið miklu betra að veita þennan styrk aldrei en að fara að fella hann niður nú. Þessi maður hefir líka sýnt það, að hann bæði vill vinna fyrir þessum styrk og er fær um það.

Að því er snertir till. hv. þm. (JJós) og hv. 3. landsl. (JJ) um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni Ólafs Hvanndals, skal jeg geta þess, að um það eru óbundin atkv. í nefndinni. Sama er að segja um till. hv. þm. (JJós) um lán til Vestmannaeyja vegna rafveitunnar, enda horfir það nú öðruvísi við en áður. Nú er um að ræða lán, ef fje er fyrir hendi, en var áður ábyrgð. Hv. þm. kom fram með skriflega viðaukatill., en jeg hefi ekki heyrt hana. (Forseti: Jeg skal lesa till. upp). Þess gerist ekki þörf; jeg get hvort sem er ekki sagt neitt um hana frá sjónarmiði nefndarinnar.

Jeg held, að það sje svo ekki fleira, sem jeg hefi ástæðu til að minnast á.