01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

1. mál, fjárlög 1927

Jónas Jónsson:

Jeg hefði þurft að svara hæstv. forsrh. (JM) ýmsu sem fram hefir komið hjá honum í sendiherramálinu, en því miður er hann ekki við. Jeg hafði fært rök að því, að það væri undarlegur snúningur að hafa verið með því að leggja niður sendiherraembættið fyrir 2 árum og selja húsið, en vilja nú stofna embættið af nýju. Jeg varð forviða á því, hvað hæstv. forsrh. svaraði þessu með veigalitlum rökum. Hann sagði, að það væri ekki rjett að kalla húsið embættisbústað, því að sendiherrann hefði átt það sjálfur, en það leit út fyrir, að hæstv. stjórn skoðaði sig sem eiganda, þar sem hún hljóp undir bagga með því að leggja fram peninga upp í tap á húsinu. Ef byrjað er á embættinu aftur, er ekkert því til fyrirstöðu, að stjórnin heimti hús af nýju.

Ennþá meira furðaði mig á því, að hæstv. ráðh. (JM) skyldi í sambandi við þetta gefa í skyn, að Krabbe væri ekki íslenskur. Jeg veit, að þetta hefir líka verið gert af einum þm. í hv. Nd. En það er ekki altaf hægt að fara eftir þjóðerni. Við höfum á Íslandi haft dansk-íslenska menn, sem hafa litið á íslenska hluti í gegnum dönsk gleraugu, og við höfum haft aldanska menn, sem hafa verið fyrir Ísland eins og hinir bestu Íslendingar, t. d. Rask. Jón Krabbe er að vísu að nokkru af erlendri ætt, en hefir jafnan sýnt, að hann vill vinna fyrir íslensku þjóðina eins og bestu menn hennar hafa gert. Mjer finst því mjög óviðeigandi hjá hæstv. ráðh. (JM) að tala um danskt þjóðerni í þessu sambandi. Í sumar, þegar jeg hitti hann, áttum við tal saman um ýms nauðsynjamál þjóðarinnar, og jeg hefi ekki fundið marga háttsetta embættismenn hjer, sem höfðu eins heilbrigðar skoðanir og hann, og jeg harmaði, þegar jeg hafði átt tal við hann, að við skyldum ekki eiga fleiri slíka menn hjer heima við forstöðu opinberra mála.

Hæstv. ráðh. (JM) veit það vel að jeg er ekki í fjvn. og hefi því ekki haft aðgang að plöggum þeirrar nefndar, svo að þessi brjef, sem hann var að tala um, eru mjer með öllu ókunn. En því get jeg vel trúað, að þegar Jón Krabbe veit, að stjórnin er búin að gera samning og það er á allra vitorði, að endurreisa eigi sendiherraembættið, vilji hann ekki vera að trana sjer fram. Hæstv. ráðh. (JM) nefndi ekki, að þessi mikla stefnubreyting, sem varð í fyrra, hefði komið af því, að þegar borið var fram vantraust á stjórnina, sem þá var tæp, komust þessir samningar í lag á milli hæstv. stjórnar og hv. þm. Dal. (BJ). Þetta sýna atkvgr. hæstv. ráðh. (JM) þá og nú. Jeg held því, að það væri rjettara að leita orsakanna í vanheilsu stjórnarinnar sjálfrar en hjá Jóni Krabbe.

Þá kem jeg að ræðu háttv. frsm. (EP). Hann viðurkendi, að þessar 45 þús. kr. væru verulegur sparnaður og það var í öllu auðheyrt á ræðu hans, að hjer var að tala sá góði og tryggi flokksbróðir stjórnarinnar, sem talar fyrir málinu, þó að honum blæði í augum fjárútlátin. Hann sagði, að það þyrfti að hafa eitthvert nafn á þessu í Danmörku. Einmitt það; það er nafnið, sem verið er að sækjast eftir, jafnvel þó að það kosti 45 þús. kr. á ári hverju. Hæstv. ráðh. (JM) tók fram, að jeg flytti margar till. og væri eyðslusamur, en jeg flyt líka stærstu sparnaðartillöguna, sem fram hefir komið á þessu þingi, einmitt um sendiherrann.

Hv. frsm. (EP) eyddi alllöngum tíma til þess að verja aðstöðu sína viðvíkjandi Suðurlandsskólanum og væntanlegum forstöðumanni hans. Og þótt hv. frsm. sje þegar að miklu leyti svarað af háttv. 1. landsk. (SE), þá er þó nokkuð eftir ennþá.

Jeg vil benda á það, sem háttv. frsm. sagði, að hann sæi ekki eftir laununum til þessa manns og að ekki væri hjer um neitt fordæmi að ræða. Sagði, að ekkert hefði verið þessu til fyrirstöðu, ef hann hefði verið búinn að gegna embætti í 35 ár. Þ. e. a. s., að hv. frsm. hefði verið til með að veita þessum embættismanni laun fyrir að gera ekki neitt, heldur aðeins lesa og njóta andlegrar ánægju á elliárunum. En hví vill hv. frsm. ekki vera með því, að hann fari úr vandasömu starfi og í annað vandasamt starf, að hann fái laun fyrir starf, sem hann vill taka að sjer 9? Jeg er viss um, að þetta stafar af óvild til þessa manns, þegar ekki má borga honum fyrir starf, sem hann vill taka að sjer. Þetta kann jeg ekki við að heyra frá fulltrúa úr hjeraði, þar sem allur meginþorri manna kemur til með að njóta skólans. Þá sagði hv. frsm., að með þessu væri prófasturinn í Hruna settur í freistingu, sem hann vildi forða honum frá. Jeg vil nú benda hv. þm. á það, að þetta er engin fjárhagsleg freisting fyrir mann; það er skaði fyrir hann að flytja sig og raska við því, sem hann hefir með og undir höndum, svo að, þótt um einhverja freistingu væri að ræða, getur hún ekki orðið hættuleg, ef miðað er við fjárhaginn. En það voru viss atriði í ræðu hv. frsm., sem bentu til þess, að hann skildi ekki eðli þeirra manna, sem setja sig í fjárhagslega hættu og fórna sjer fyrir áhugamál sín og hugsjónir. Hann taldi freistinguna stafa af því, að prófasturinn tæki að sjer stöðu sjer í skaða. Hjer er veilan frá sjónarmiði hugsjónamanna, nefnil. sú, að gera þá hluti, sem er beinn óhagnaður fyrir manninn sjálfan, af löngun til þess að hrinda áfram góðu máli.

Nú er það svo, sem hv. frsm. tók fram, að prófasturinn hefir lýst yfir því við skólanefndina, að hann skyldi taka að sjer skólann, ef á þyrfti að halda, og hefir ekki sett nein skilyrði fyrir því, ef úr yrði. Og þessi till. er borin fram að honum óafvitandi; hún er svar þingsins við þeirri gerð hans að vilja vinna að þessu máli, þótt það verði óhagnaður fyrir hann sjálfan, og það verður það vegna breyttrar aðstöðu. Jeg tala ekki um aðra eins fjarstæðu og þá, er hv. frsm. lagði út af því, að prófasturinn gæti notið þessara kjara 2–3 ár og svo farið frá skólanum aftur. Í þessu er fólgin aðdróttun, sem jeg kann ekki við.

Þegar Bjarni Sæmundsson fór frá mentaskólanum, þurfti ekki að breyta launum hans, þótt hann tæki að stunda eingöngu fiskirannsóknir. Allir vissu, að hann gat ekki annað en haldið áfram því starfi, þótt hann fengi enga sjerstaka skipun til þess. Sama yrði með sjera Kjartan Helgason, ef hann óskaði að fara frá skólanum vegna vanheilsu, þá væri rjett, að hann hjeldi launum sínum. Jeg er samdóma hv. frsm. að því leyti að jeg hefði verið með því, ef ósk hefði komið fram um það, að hann færi frá með fullum launum, en þó er meiri ástæða til þess, ef hann óskar þess sjálfur, og kemur þá að því, að hv. frsm. getur greitt atkv. með þessu. Felst þá í fyrsta lagi viðurkenning til þessa manns, að láta hann halda launum sínum, og í öðru lagi það, að þegar hann fer frá af því, að hann er orðinn slitinn, heldur hann fullum launum, sem hann heldur ekki, fari hann frá sem prestur. Í þessu felst dálítil trygging fyrir manninn, trygging, sem þjóð hans lætur honum í tje um leið og hann tekur að sjer starf, sem hann hefir fengið fyrir fórnfýsi, sem hann hefir sýnt í þágu hjeraðs síns.

Jeg vildi svo segja fáein orð til viðbótar því, sem hv. 4. landsk. hefir lagt til varnar harðri sókn út af till. um styrk til Skúla Guðjónssonar. Aðalmisskilningnr hv. þm. Snæf. (HSteins) liggur í því, að hann heldur því fram, að við gerum ráð fyrir því, að Skúli Guðjónsson komi strax heim og vinni að bætiefnarannsóknum, en engar aðstæður sjeu til þess. Lækninum dettur þó víst ekki í hug, að það sje meining okkar að setja hjer upp nýja rannsóknastofu. Við höfum ekkert sagt um það, að þessar rannsóknir eigi að hafa hjer heima. En þegar jeg talaði um þessa till., mintist jeg á sjúkdóm, sem mikið gerir vart við sig hjer heima, nefnilega fjöruskjögur, sem Skúli Guðjónsson hefir varið tíma ytra til rannsókna á. Jeg geri nú ráð fyrir því, að í Danmörku og Noregi sje ekki góð aðstaða til að rannsaka það, og þá sjer hv. þm. væntanlega, að þennan hluta verksins, sem Sk.-G. hefir með höndum, verður að rannsaka hjer heima. Jeg held, að leikmennirnir á þessu sviði verði að viðurkenna, að þetta stóra mál verður ekki leyst nema með því að vinna að því bæði heima og erlendis, gera athuganirnar hjer heima og rannsóknirnar erlendis. Jeg geri og ráð fyrir því, að það verði seint, sem hægt yrði að fá útlenda sjerfræðinga til þess að rannsaka okkar gamla, innlenda matarhæfi. Mjer virðist okkar merka læknastjett vera nokkuð seinheppileg hvað það snertir, að læknar gera mikið að því að draga menn upp úr brunninum, en ekki eins mikið að því að byrgja hann í tæka tíð. Læknar hafa yfirleitt lítið eða ekkert gert til þess að draga úr tóbaksnautn og vinna móti heilsutjóni af völdum hennar.

Hv. þm. Snæf. þótti till. okkar fávísleg. Jeg verð að segja það, að ekki er fávísin okkar megin, því að þessi maður, sem við förum fram á að hafi þessar bætiefnarannsóknir, er eins vel fær til starfans og frekast verður á kosið, enda verður að fara saman þekking á fæðutegundum og kunnugleiki á lifnaðarháttum manna, og svo möguleiki til þess að starfa að þessum rannsóknum undir hæfilegum skilyrðum.

Gunnlaugur Claessen hefir gert meira en margir læknar til þess að fræða leikmennina um þýðingu bætiefnanna. Jeg vil ekki draga fjöður yfir störf þess manns, en jeg geri ráð fyrir því, að bæði hann og aðrir, sem að þeim vinna, eigi nóg eftir að vinna, þótt nýr liðsmaður bætist við í þann hóp.

Hv. frsm. hafði það á móti styrknum til útgáfu Íslendingasagnanna, að hún yrði dýr og að ekki sje víst, að verðið fyrir hverja örk yrði með þessari till. hæfilegt. Það hefði reyndar mátt taka þetta nánar fram, en jeg hjelt, að það yrði auðveldara, þegar búið væri að ákveða styrkinn, t. d. ákveða brot og stærð bókarinnar í hlutfalli við hann, og geta hlutaðeigendur gert samning um það við landsstjórnina. Hv. frsm. var ekkert trúaður á það listgildi, sem þessi útgáfa hefði, en jeg vona, að umr. um þetta verði til þess að fleyta þessu máli áleiðis, þótt tillagan verði ekki samþykt hjer í kvöld. Jeg geri ráð fyrir, að þar sem hv. frsm. býr þar rjett hjá, sem Njála gerðist, að hann þekki bókina, sem Collingwood gaf út og sem er með ágætum myndum. Nokkuð líkt vakir fyrir mjer, söguútgáfa með myndum. Og þar sem við höfum svo mikinn áhuga á því að prýða sögustaðina í hans kjördæmi, þá vona jeg, að hann verði ekki á móti því að sjá þá komast inn í hina nýju Njáluútgáfu.

Jeg get endurtekið það, sem jeg hefi áður sagt um Pál Ísólfsson. Reykjavíkurbær hefir keypt orgel til afnota fyrir þá, sem vilja hlusta á hinn fagra organslátt hans. Reykjavík hefir gert mikið til að tryggja það, að Páll verði kyr í landinu. Og þótt það sje gert í viðurkenningarskyni að veita honum þennan styrk, þá greiði jeg atkv. með þessari till. sem styrk, sem framlagi hins opinbera til þess að rækta söngsmekk þjóðarinnar. Jeg held, að það sje alveg rangt, sem háttv. frsm. sagði. Við eigum að hlynna að þeim mönnum, sem standa upp úr, þeim mönnum, sem koma aftur heim til þess að vinna þjóðinni gagn. Hvaða gagn hefði hún haft af því að styrkja Einar Jónsson, ef honum hefði svo verið kastað út á gaddinn? Hvaða gagn hefði hún haft af því að gera Pál Ísólfsson að snillingi, ef þjóðin getur eða vill ekki njóta hæfileika hans? Þetta er svo mikil óbúmenska, að mig furðar á því, að prófastur í Rangárvallasýslu skuli halda öðru eins og þessu fram. Hið vitlausasta af öllu er að ala upp sjerfræðinga, sem við notum svo ekki. Við eigum að hlynna að Páli Ísólfssyni með föstum styrk meðan hann starfar að því að auka næmleika okkar fyrir fögru andlegu lífi. Í mínum augum er þessi styrkur laun fyrir að vinna að aukinni söngment í landinu.

Jeg vona, að búmannshjartað hrærist nú af hinum sterku rökum, sem jeg hefi fært fram fyrir því, að efla beri Pál til þess að geta svarað vöxtum og afborgunum af því, sem til mentunar hans hefir verið lagt.

Þá vildi jeg minnast á till. um bryggjuna í Búðardal. Það lá ekkert fyrir nefndinni um hana, af því að Dalamenn urðu svo síðbúnir með þetta mál. Kom sendimaður frá þeim með Esju síðast til vegamálastjóra, sem ljet niðurstöðu sína í málinu í tje í gær. Í Dalasýslu er engin bryggja, sem landið á, og í Búðardal er engin bryggja. En hin fyrirhugaða bryggja á að vera 80 m. á lengd og 2 m. á hæð og úr steinsteypu. Er óhugsandi annað en landið verði að leggja til 1/3 kostnaðar og að byggja bryggjuna að sumri, því það er hart að láta hjeraðið verða að leggja 20 þús. kr. til hennar og bíða svo með styrkinn þangað til löngu síðar. Jeg geri ráð fyrir því, að engin hætta sje á því, að landsstjórnin borgi þetta nema vegamálastjóri leggi fram fullkomna áætlun um verkið og hafi tilsjón með því.

Þá ætla jeg að víkja síðast að ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), og sjerstaklega að tveim liðum hennar. Hann hefir komið fram með brtt., sem jeg greiði atkv. á móti. Það er brtt. hans um íshús á kjötútflutningshöfnum. Það liggur dálítið á bak við 1. lið hennar, og vil jeg skýra það nánar. Brtt. er um það, að í staðinn fyrir „ábyrgð þá, sem landsstjórnin tekur gilda“ komi: tryggingum þeim, sem hún tekur gildar. Síðara orðalagið er miklu rýmra. Bak við liggur raunverulegt dæmi. Eitt hús hefir verið bygt á Hvammstanga í samráði við landsstjórnina. Þessi fyrsta tilraun hefir tekist prýðilega. Sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu uppfylti sett skilyrði, gekk í ábyrgð fyrir láni til byggingarinnar. En þegar hæstvirtur fjármálaráðherra (JÞ) átti að standa skil á þeim peningum, sem leggja átti fram úr ríkissjóði, stóð alt fast. Hann heimtaði ekki aðeins ábyrgð sýslunnar, heldur húsið sjálft í veð. En það vildi fjelagið á Hvammstanga ekki; vildi láta sýsluna fá það að veði. Þetta voru hin mestu rangindi af ráðherra, því að fyrirkomulagið, sem hjer var haft, miðaði að því að tryggja skynsamlega byggingu þessa íshúss. Og það á alls ekki við, að stjórnin sje að brúka form til þess að hindra eðlilega þróun íshúsmálsins. Með þessu ætlar hæstv. ráðh. að skapa grundvöll til þess að kúga fjelagið á Hvammstanga til þess að láta of mikið veð. Er því full ástæða til að fella þessa brtt.

Þá kem jeg loks að brtt. hæstv. ráðh. um eftirgjafir viðlagasjóðslána þriggja hreppa. Jeg mótmæli skoðun hans af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi er það, sent hæstv. ráðh. fer fram á, fullkomið brot á þingsköpum. Hann ætlar að láta deildina fella það, sem áður hefir verið neitað að fella í deildinni. Það er brot á þingsköpum, því að ekki má fella það, sem búið er að neita að fella. Jeg vil skora á hæstv. forseta að bera þessar till. ekki undir atkvæði. Geri hann það, brýtur hann þingsköpin.

Háttv. 1. landsk. (SE) kom með till. sama. eðlis og þessa, sem búið var að fella við 2. umr., og úrskurðaði forseti, að hún kæmi ekki til atkv. Nú er hið sama hjer á ferð, og treysti jeg því hæstv. forseta til þess að vera langminnugur úrskurðar síns, þegar kemur að þessum till. fjrh. Hann getur þá reynt að koma þeim að í Nd. á löglegan hátt, en ekki hjer með því að brjóta allar reglur. Þetta er nú formshliðin, og kemur þá að efnishliðinni. Fjrh. (JÞ) hjelt því fram, að ekki væri ástæða til að gefa þessum hreppum eftir, það mundi skapa fordæmi. Auk þess mætti ekki skerða viðlagasjóðinn. En þetta er alt endileysa hjá honum. Jeg ætla að taka Gerðahrepp hjer með, af því að jeg álít kröfu hans alveg rjettmæta, eins og líka 1. þm. G.-K. (BK) sýndi fram á. Jeg ætla þá að taka þessa 3 hreppa, — skal ekki segja um Innri-Akraneshrepp, en hann mun vera best stæður, — Árneshrepp, Grunnavíkurhrepp og Gerðahrepp, sem allir eiga rjettmætar kröfur til eftirgjafar. Tveir hinir fyrri eru erfiðustu sveitir landsins, útkjálkasveitir, en þó nokkuð fjölbygðir. En árið 1924, þegar sumar og vetur svo að segja náðu saman, þá leið fólkið þarna miklar hörmungar og hnekki, svo að það er sannarlega ekki um of, þótt ríkissjóður hlaupi undir bagga, en sje ekki að pína hreppa þessa til þess að borga lánin. Sama má og segja um Gerðahrepp. Öllum er kunnugt um hörmungalíf manna þar suður frá síðustu missirin, aflaleysi o. fl. Eru engar líkur til, að þeir geti borgað. Því hefir verið haldið fram, að ef gefin væru eftir þessi lán, mundi ekki vera hægt að ná inn lánum frá öðrum stöðum. Setjum, að Vestmannaeyjar, sem eru auðugasta fiskistöð landsins, tækju lán, þá má altaf gera ráð fyrir, að þær geti borgað, ef ekkert kemur fyrir. En ef nú fiskurinn hverfur frá Eyjunum og hallæri kæmi í staðinn, –mundi landið þá ganga að þeim með borgun á láninu? Nei, það væri óhugsandi. Hjer færi eins og með önnur lán, sem gefin eru upp af þörf. Hvað hafa líka bankarnir gert? Ef við lítum á skuldalista. þeirra, þá sjáum við, hve mikið þeir hafa gefið upp. Sama nauðsyn mælir með að gefa þeim hreppum eftir lán, sem við mikla örðugleika eiga að stríða.

En það, sem fjarstæðast var í ræðu hæstv. fjrh., var alt tal hans um mun viðlagasjóðs og landssjóðs. Því að viðlagasjóður er í rauninni ekki annað en partur af landssjóði. Þá vildi hann ekki gefa þessum þrem hreppum eftir fyr en nákvæm rannsókn hefði farið fram, eins og niðursetningar eða þurfalingar ættu í hlut.

Þá vildi hæstv. fjrh. fara að verða nokkuð húsbóndalegur gagnvart þinginu, eða gerast forsjón þess við umr. og afgreiðslu fjárlaganna. En þetta er alveg óþarfi, því að það er þingið, sem hefir valdið. Það er ekkert í þessari stjúpmóðurumhyggju ráðherrans nema ofbeldi. Það hefir aldrei heyrst annað eins, og ber því deildinni skylda til að fella þessar till. hans, en samþykkja till. 1. þm. G.-K., sem rjettmætt svar við tilraunum fjrh. að gera þingið ómyndugt.