10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (2055)

59. mál, gróðaskattur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg hefi í raun og veru ekki neitt sjerstakt að taka fram um þetta mál að svo komnu annað en það, sem stendur í nál. á þskj. 471. Meiri hl. nefndarinnar er yfirleitt á því, að tekju- og eignaskattur sje hærri tiltölulega hjer á landi á þeim gjaldendum, sem þessi gróðaskattur mundi helst koma á, og ekki sje ástæða til að hækka þessi gjöld, enda ekki sjáanlegt, að ástæða sje til að búa til nýja skatta í því skyni. Hitt er líklega rjett, sem margir halda fram, að tekju- og eignaskattslögin þurfi að endurskoða. Þau eru að ýmsu leyti þannig, að þau þurfa endurskoðunar við. En þetta sjerstaka frv. um gróðaskatt bætir ekkert úr því og getur á engan hátt komið í stað endurskoðunar laganna. Einnig er nú sú stefna ráðandi á þinginu að minka fremur en auka skatta, svo þegar af þeirri ástæðu er nefndin á móti frv. Jeg sje á nál. á þskj. 397, að hv. minni hl. nefndarinnar hefir gert breytingar á frv. í þá átt að lækka skattinn, enda var hann mjög hár í upphafi. En stefnan er sú sama, að taka aukinn skatt af þeim, sem nú borga hæstan skatt. Þeir, sem mundu verða fyrir þessum skatti, eru togarafjelög og önnur stóratvinnufyrirtæki, sem eins og kunnugt er eiga nú mörg hver mjög fult í fangi og verða ef til vill að stöðva rekstur sinn í bili vegna of mikils taps. Jeg segi: vegna of mikils taps, vegna þess, að reksturinn í vetur hefir, ef ekki rætist úr með verðlag, í sumum tilfellum sjálfsagt haft tap í för með sjer, svo þeir, sem að fjelögunum standa, treystast ekki til þess að halda áfram, þegar enn minni hagnaðarvon er af rekstrinum. Það eru þessi fyrirtæki, sem gróðaskattinum er ætlað að ná til. En eins og nú stendur er ólíklegt, að hann nái til nokkurra stórfyrirtækja á þessu landi, því það mun vera líkt ástatt t. d. um síldarverksmiðjurnar nyrðra. Jeg veit að vísu ekki neitt ákveðið um hag þeirra, en mjer er þó kunnugt um, að eigendur þeirra sækja það nú mjög fast að selja verksmiðjurnar sumar hverjar, svo það er ekki líklegt, að þeir álíti sjer hag að því að halda rekstri þeirra áfram. Yfirleitt sýnist mjer hugmyndin um gróðaskatt vera úti á þekju, eins og nú horfir við. Það er gagnslaust að semja pappírslög um gróðaskatt, þegar ekki er sýnilegt, að það hittist nokkur, sem lögin geti náð til.

Jeg mun svo ekki segja fleira að sinni fyr en þá hv. minni hl. hefir látið til sín heyra. En meiri hl. nefndarinnar leggur það til. að frv. verði felt.