23.04.1926
Efri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2084)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Það er, eins og hv. frsm. meiri hl. (IHB) tók fram, ekki alveg nýtt þetta mál hjer í deildinni, og gat hv. þm. (IHB) svo að einhverju leyti sparað sjer rök með því að vísa til þess, sem í fyrra var sagt í málinu. Jeg ætla þá fyrst að snúa máli mínu að því, sem fyrir liggur í frv., þar sem farið er fram á að taka Kvennaskólann í Reykjavík og á Blönduósi og reka þú sem nokkurskonar ríkisfyrirtæki. Eins og tekið hefir verið fram hjer í dag, var þetta mál rætt hjer í fyrra og felt með jöfnum atkv., og jeg þykist viss um, að ef þeir menn, sem fallið hafa frá í þessari deild á liðna árinu, væru hjer enn, myndi hæstv. stjórn ekki hafa borið fram þetta frv., því að þá var svo ákveðinn mótvilji gegn því, að jeg geri ekki ráð fyrir, að hún hefði þá viljað fara að eyða tíma þingsins árangurslaust til þess. En jeg geri nú ráð fyrir, að þessi mannabreyting, sem orðið hefir, muni máli þessu hagkvæm, enda hefir hæstv. stjórn síðan tekið það ráð að breyta um stefnu í málinu, því að í fyrra barðist hæstv. forsrh. gegn því, að Blönduósskólinn yrði gerður að ríkisskóla, og ef jeg man rjett, munu flokksbræður hans og háttv. flokkssystir (IHB) hafa fylgt hæstv. forsrh. (JM) í því að slátra Blönduósskólanum. Þessi breyting var að því leyti órjettlát, að sá skóli var þá miklu nær því að uppfylla þau skilyrði, sem þingið mundi setja í því efni, nefnilega það, sem hv. 4. landsk. (IHB) ekki vill kannast við, að Blönduósskólinn er að verða sjerfræðiskóli fyrir konur, eins og bændaskólar eru það fyrir karla. Aftur á móti verður þetta ekki sagt um kvennaskólann í Reykjavík, því að hann er að mestu bóklegur skóli, eins og hv. 4. landsk. (IHB) er kunnugt, og eru þar kendar flestar sömu námsgreinar og í almennum gagnfræðaskólum, nema hvað hann stendur lengur og þar eru kend þrjú útlend tungumál (IHB: Nei, ekki nema tvö!) Jú, þýska hefir verið kend þar til skamms tíma. þetta er svo opinbert og kom svo ljóst fram, þótt óþarft væri, í ræðu hv. 4. landsk. (IHB) við 1. umr. þessa máls, þar sem sagt var, að það væri ekkert því til fyrirstöðu, að mjög margar stúlkur, útskrifaðar af kvennaskólanum, gætu tekið gagnfræðapróf nær fyrirhafnarlaust. Þessi kensla er því svo hliðstæð kenslunni í Flensborgarskólanum, sem er virkilegur gagnfræðaskóli, enda er það vitanlegt, að úr 3. bekk Flensborgarskólans fara margir nemendur inn í lærdómsdeild mentaskólans.

Þetta er aðalgallinn á frv., að stjórnin hefir ekki sjeð sjer fært að stíga sporið til fullnustu, og til þess að bæta úr þessum galla frv. hefi jeg leyft mjer að bera fram viðaukatill. við það, þess efnis, að inn í lögin sjeu teknir nokkrir skólar, sem ríkið hlýtur að taka að sjer að reka, ef það á að verða að lögum, að þessum tveimur kvennaskólum verði komið á ríkissjóð.

Jeg álít eins og aðalmálið liggur fyrir um rekstur þessara tveggja kvennaskóla, að eftir þeim reglum, er gilda, þá sje það að mörgu leyti forsvaranlegt, að ríkið taki að sjer Blönduósskólann, og þá með það fyrir augum, að hann verði framvegis sjerskóli í húsmæðrakenslu. Jafnhliða játa jeg, að rjett sje, að húsmæðradeild kvennaskólans hjer sæti sömu lögum, en ætti þá að vera stærri en hún er nú. Hinsvegar er það alveg hugsunarrangt hjá hæstv. stjórn að taka upp á arma ríkisins annan skóla, sem eingöngu er bóklegur, nema þá að það vaki fyrir henni að skapa fordæmi, sem leiða mundi til þess, að eftir nokkur ár yrðu allir bóklegir skólar teknir upp á ríkissjóð. Þetta býst jeg nú samt við, að sje ekki meining hæstv. stjórnar. En aðstaða hennar verður slæm, ef hún vill ekki sinna kröfum þessum, þegar hún hefir bundið hendur sínar. Því komist Kvennaskólinn í Reykjavík á ríkið, þá er ekki hægt að vera á móti því, að hjeraðsskólarnir fljóti í kjölfarinu. Hjeraðsskólarnir eru jafn-þarfir ungum og námfúsum mönnum úti um sveitir landsins eins og Kvennaskólinn í Reykjavík er fyrir ungar stúlkur í höfuðstaðnum. Þó að hæstv. stjórn þykist ekki geta nú gengið inn á brtt. mínar, verður hún áður en langt um líður að þola það, að sporið sje stigið fult út.

Jeg vil benda á í þessu sambandi, að í fyrra hjelt hæstv. stjórn, að hún gæti tekið kvennaskólann í Reykjavík einan upp á ríkissjóð, þrátt fyrir mótmæli hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ), sem hjelt því fram, að Blönduósskólinn yrði að fylgjast með. Nú hefir hún sjeð að sjer og játað, að hún hefði þá á röngu að standa, og leggur því til, að Blönduósskólinn fylgi með hinum.

Þessvegna verður með atkvgr. um frv. slegið föstu, hvort unglingafræðslan í landinu skuli rekin á kostnað ríkisins eða ekki.

Jeg hefi ekki lagt út í að rekja allar veilur frv., en kemst þó ekki hjá að minnast á nokkrar þeirra, sem eru mest áberandi. Er þá fyrst, að nokkurs ósamræmis gætir í því, að taldar eru upp námsgreinar þær, sem kenna á í kvennaskólanum hjer, en þeim slept að því er Blönduósskólann snertir. Jeg hjó eftir því í ræðu hv. frsm. meiri hl. (IHB), að ætlast væri til, að námsgreinar þessar yrðu teknar upp í reglugerð skólans. En það er rangt og óeðlilegt og hefir heldur ekki tíðkast við skóla hjer, að telja ekki upp í lögunum námsgreinar þeirra. Og þó að vitnað sje í Eiðaskólann í þessu efni, þá hefir það ekkert að segja. Í lögum um hann er tekið fram, hverjar námsgreinar skuli kenna.

Þá er ekki síður um ósamræmi að ræða í launum þeim, sem greiða á við skóla þessa. Forstöðukonu kvennaskólans hjer eru ætlaðar 3 þús. kr. á ári og dýrtíðaruppbót, en á Blönduósi aðeins 1400 kr. þetta er óeðlilegur mismunur og tekið út úr rjettum hlutföllum. Þó að báðar þessar forstöðukonur hafi haft lág laun hingað til, má ekki rugla svo hlutföllunum, að bersýnilegt ranglæti komi niður á öðrum stöðum. Annars virðist, að sömu hlutföll ættu að gilda hjer og t. d. á sjer stað um launamismun rektors hins almenna mentaskóla og skólameistarans á Akureyri.

Þá er eitt „princip“, sem hæstv. stjórn hefir tekið upp í frv. þetta, sem aldrei hefir sjest í neinu skólafrv. áður, en það er, að forstöðukona skólans hafi ókeypis fæði í skólanum. Jeg hefi nú viljað sýna hæstv. stjórn þær eðlilegu afleiðingar, sem þetta hefir í för með sjer, og þessvegna tekið þetta ákvæði upp í allar viðaukatill. mínar. Eigi að lögleiða þetta við einn skóla, leiðir af sjálfu sjer, að sama verður að ganga yfir alla aðra. Annars vænti jeg, að hæstv. forsrh. (JM) skýri nánar, hvað átt er við með þeirri nýbreytni. Það væri hugsanlegt, að þetta miðaðist við, að einhleyp kona stýrði skólanum. En það gæti líka hugsast, að forstöðukonan hefði þann hug til karla, að hún giftist, og yrði þá að líkindum að sleppa stöðunni, því ótrúlegt er, að ríkissjóður eigi að bera allan kostnað af fjölskyldu forstöðukonunnar.

Annars skilst mjer, að hæstv. stjórn hafi ekki athugað, hverjar afleiðingar þetta muni hafa. Þessvegna tel jeg, að rjettara væri að hækka launin, svo að þau væru viðunandi, en sleppa þessum fríðindum, sem hljóta að draga þann dilk á eftir sjer, að aðrar stofnanir heimti það sama. Jeg hefi leyft mjer í viðbótartill. mínum að bera fram þær kröfur, sem eru sú hugsunarrjetta afleiðing af stefnu hæstv. stjórnar í frv. Hinsvegar er mjer ekkert kappsmál, að það nái fram að ganga, því að jeg álít, að sú stefna í raun og veru sje ekki eins heppileg og sú, sem hingað til hefir verið fylgt, en þetta er rökrjett afleiðing af því, sem frv. ætlast til.

Jeg vil nú leyfa mjer að vekja athygli á því, að í síðustu málsgrein viðaukatill. minna á þskj. 376 er prentvilla. Lögin um stofnun húsmæðraskóla á Norðurlandi eru frá 1917, en ekki 1907, eins og stendur í þskj., og er þetta leiðrjett hjer með.

En áður en kemur að því, að viðbótartill. mínar komist í framkvæmd, þá er ekki nema von, að sumum landshlutum finnist hart, að landið taki að sjer tvær stofnanir, sem reknar hafa verið áður sem einkafyrirtæki, en sýni engan lit á því að uppfylla þær skyldur, er það tók sjer á herðar um leið og sett voru lögin um stofnun húsmæðraskóla í grend við Akureyri. Nú er vitanlegt, að konur norður þar hafa safnað stórum sjóð til byggingarinnar og altaf haft það mál á oddinum nú síðustu árin. Hæstv. forsrh. (JM) hefir undirskrifað þessi lög og með því óbeinlínis gefið loforð um, að eitthvað yrði hafist handa í þessu máli. Konurnar nyrðra bíða með fjeð og halda áfram að auka við sjóðinn. þær hafa vænst þess, að landið stæði við gefin loforð, en um þetta hefir hvorki heyrst stun nje hósti frá hæstv. stjórn. þær hafa heldur ekki notið neins stuðnings hjá fulltrúa sinum á þingi, hv. 4. landsk. (THB), þvert á móti hefir sá hv. fulltrúi kvenþjóðarinnar barist fyrir því með oddi og egg hjer á Alþingi, að ríkið tæki að sjer rekstur Kvennaskólans í Reykjavík, en ekkert hirt um að styrkja stofnun hins skólans, sem bæði lög og loforð eru um. Jeg vildi minna á þetta verkefni sem öllu þarfara fyrir hæstv. stjórn og hv. fulltrúa kvenna (IHB) að beita sjer fyrir og bjarga fram til sigurs heldur en hitt, sem hjer er aðallega barist um.

Af stefnu hæstv. stjórnar í þessu máli lít jeg svo á, sem allir þeir; er henni fylgja í þessu máli, sjeu sammála um, að landið taki á sínar herðar alla almenna unglingafræðslu, karla og kvenna, hvar sem er á landinu. Jeg er búinn að lýsa því, að aðalskóli kvenna hjer í Reykjavík er hliðstæður hjeraðsskólunum, en Blönduósskólinn, sem er sjerskóli fyrir húsmæður, er hliðstæður bændaskólunum.

Nú eru í landinu þrír hjeraðsskólar, sem staðið hafa um nokkur ár, og einn er að myndast á Suðurlandi, svo það eru þá fjórir skólar, sem bætast á ríkið. Það þarf nú ekki að kallast goðgá, þó að allir þessir skólar væru reknir á ríkissjóðs kostnað, ef menn væru vissir um, að þeir gerðu sama gagn. Barnaskólarnir, sem kosta landið offjár, eru að mestu leyti reknir fyrir landsfje. Að því leyti er hjer miklu fremur um stefnuatriði að ræða en kostnaðar.

Jeg hefi í þessum vatill. mínum lagt til, að Hvítárbakkaskólinn í Borgarfirði, hjeraðsskólinn að Núpi við Dýrafjörð og hinn væntanlegi hjeraðsskóli á Laugarvatni skuli allir teknir upp í lögin á eftir þessum tveim kvennaskólum, sem frv. nefnir, svo að sama gildi um þessa hjeraðsskóla eins og t. d. Eiðaskólann, sem er eini hjeraðsskólinn, sem ríkið hefir tekið upp á sína arma að öllu leyti. Og þar sem hæstv. forsrh. (JM) hefir verið með í því að búa til Eiðaskólalöggjöfina og skapa þar ný landssjóðslaunuð embætti, trúi jeg vart, að hann verði til að bera mjer á brýn bruðlunarsemi, þó að jeg hafi einurð til að stiga það spor til fullnustu, sem hann hefir stigið til hálfs, enda má segja, að hjer sje um troðna braut að ræða og till. mínar í beinu áframhaldi af því, sem frv. stjórnarinnar stefnir.

Viðvíkjandi námsgreinunum í þessum skólum vil jeg taka fram, að mjer finst ekki nema rjett og sjálfsagt, að þær sjeu taldar upp í lögunum, og hvað hjeraðsskólana snertir, er það sjerstaklega eitt atriði, sem jeg ætla, að þörf sje að skýra nánar. Jeg hefi í vatill. mínum talið upp ýmsar sömu námsgreinarnar og kendar eru í Kvennaskólanum í Reykjavík, svo sem: íslensku, sögu, náttúrufræði og landafræði, en svo er bætt við ýmsu fleira, sem ætlast er til, að kent sje við hjeraðsskólana, svo sem: smíði, bæði á trje og járn, steinsteypa, vefnaður, íþróttir, söngur og einfalt bókhald, auk þess, sem nemendur eiga kost á tilsögn bæði í norsku og dönsku.

Í þessu sambandi vil jeg benda hv. 4. landsk. (IHB) á það, að í Laugaskólanum er kent sumt af því, sem kallað er sjerfræði í kvennaskólum. T. d. er á Laugum í vetur fullkomin kensla í vefnaði, sem telja má gagnlegt fyrir konur og afarnauðsynlegt. (IHB: Hefir verið kent líka við Kvennaskólann í Reykjavík). Þar er líka ágætur teiknikennari starfandi við skólann, sem hefir smíðakensluna með höndum, og nú er hafinn undirbúningur um það, að kenna nemendum að steypa steina á næsta vetri. Þetta er sjerfræði fyrir karla eins og saumaskaupurinn í Kvennaskólanum hjer er sjerfræði fyrir húsmæðraefni, en hvorttveggja er jafn-mentandi fyrir báða parta. Jeg legg þetta nokkurnveginn að jöfnu og álit jafngagnlegan fyrir ungar stúlkur saumaskapinn í Kvennaskólanum. eins og smíði og steinsteypu í hjeraðsskólunum, enda er vonandi, að slíkt fari vaxandi eftir því, sem skólarnir batna. Ekkert af þessu er þó sjermentun, í strangasta skilningi, heldur almenn mentun.

Hæstv. forsrh. (JM) gat þess við mig utan fundar, er hann hafði lesið vatill. mínar, að of snemt væri að tala um skólann austanfjalls, á meðan hjeraðsbúar sjálfir væru að deila um, hvar skólinn skuli bygður. Þegar jeg samdi till. mínar, vissi jeg ekki annað en skólastaðurinn væri ákveðinn, enda ekki sjeð fyrir, að hann muni reistur annarsstaðar en á Laugarvatni, og það þegar á þessu ári. En verði breytt um staðinn, leiðir af sjálfu sjer, að breyta verður nafni skólans í lögunum. Hitt vona jeg, að hæstv. forsrh. (JM) sje mjer sammála um, að þörf sje á að koma upp góðum og fullkomnum skóla austanfjalls, enda vona jeg, eftir því sem á undan er gengið, að hæstv. mentmrh. (JM) skorti ekki vilja til að fylgja því máli til sigurs. Jeg hefi hugsað mjer jafnmarga starfsmenn við þennan skóla austanfjalls eins og Blönduósskólann, þótt vitanlegt sje, að hann verður mun stærri. Þangað má ætla að sæki 100–150 nemendur á ári í stað 35, sem er vanaleg nemendatala Blönduósskólans. En af því að austanfjalls er aðallega reiknað með bóklegum skóla, má ætla, að hver kennari komist yfir að kenna margfalt fleiri nemendum en í sjerskólanum á Blönduósi, sem nú er.

Þá kem jeg nú að því atriðinu í vatill. mínum, sem ætla má, að hæstv. stjórn og hv. 4. landsk. (IHB) geti verið mjer sammála um, en það er þörfin á að auka húsmæðrakensluna í landinu. Jeg get ekki trúað fyr en jeg tek á, að fulltrúi kvenna, hv. 4. landsk. (IHB), vilji ekki styðja það áhugamál kvenþjóðarinnar að koma á fót góðum og fullkomnum húsmæðraskólum á Akureyri og Staðarfelli. Eins og jeg tók fram áðan, er mikill áhugi á Akureyri og víða norður þar að stofna húsmæðraskóla, og sama áhugann er að spyrja um Vesturland, þó dálítil togstreita hafi orðið um skólastaðinn. En nú er hann fundinn, og skólanum ætlað að búa um sig á Staðarfelli. Og þó að hugsað hafi verið um Staðarfellsskólann sem einkafyrirtæki — aðeins af fjárhagsástæðum — þá hefði verið hægt að samþykkja stofnun hans í bæði þau skifti, sem jeg bar það mál fram hjer í hv. deild. Þessvegna stendur hv. 4. landsk. (IHB) ásamt flokksbræðrum sínum mjög illa að vígi nú með kröfur sínar, eftir að hafa áður lagst á móti jafn-sjálfsögðu máli eins og stofnun Staðarfellsskólans.

Jeg lít þessvegna svo á, að eins og hjeraðsskólarnir sjeu sambærilegir við Kvennaskólann í Reykjavík og verði þar af leiðandi eins og hann kostaðir af ríkissjóði, eins sje ekki hægt að leiða það hjá sjer lengur að koma upp þessum tveimur húsmæðraskólum, á Akureyri og Staðarfelli. Og leggist hv. 4. landsk. (IHB) á móti því, þá njóta sín vel þau rök þessa hv. þm., að lítið sje gert fyrir kvenþjóðina, og ekki nema von, að litlar bætur fáist á því sviði, á meðan þessi eini fulltrúi kvenna á Alþingi gengur í flokk með þeim, er vinna leynt og ljóst á móti aukinni mentun kvenna í landinu. Að síðustu ætla jeg að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. frsm. (IHB) og þá einkum þeim atriðum, sem jeg hefi ekki beinlínis svarað með því, sem jeg hefi nú sagt.

Hv. frsm. meiri hl. (IHB) sagði, að jeg hefði tekið munninn nokkuð fullan að því leyti, er hjeraðsskólana snertir, í vatill. mínum á þskj. 376. Hvorki mjer nje öðrum hefði dottið í hug að koma unglingafræðslunni á ríkið, ef ekki væri um þessa þrálátu baráttu þm. (IHB) að ræða; að reyna enn á ný að koma sínum skóla fram og á ríkissjóð, þrátt fyrir þau rök, sem færð voru í fyrra á móti því, er bent var á, hver afleiðingin mundi verða, ef horfið yrði að því ráði, að ríkið tæki að sjer rekstur Kvennaskólans í Reykjavík. Háttv. 4. landsk. (IHB) má því sjálfum sjer um kenna, að vatill. mínar eru framkomnar. Þær eru bein afleiðing af því, sem á undan er gengið.

Einhver hv. þm. hafði lesið Þingtíðindi Kaplskýlinga, sem nýlega eru prentuð, og fórust orð eitthvað á þá leið, að það væri engu líkara en að umr. nú og í fyrra um Kvennaskólann í Reykjavík væru þaðan, því nógir eru snúningarnir í þessu máli eins og hjá Kaplskýlingum. Sjest það best á því, að hæstv. forsrh. (JM) og hv. 4. landsk. (IHB) bera nú fram frv. um það, að ríkið taki að sjer rekstur Blönduósskólans, en í fyrra var það talið óverjandi með öllu, þegar háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) bar fram sína brtt.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. meiri hl. (IHB) sagði um sjerskólana, þá get jeg slept því að fara frekar út í það en jeg hefi nú þegar gert með því, sem jeg er búinn að segja.

Hinsvegar verð jeg að svara því, sem áttu að vera einskonar aðvörunarorð til mín, að jeg vildi draga úr mentun kvenna. Þar vil jeg láta verkin tala. Jeg hefi verið hlyntur Kvennaskólanum í Reykjavík, enda getur hv. 4. landsk. (IHB) ekki neitað því, að jeg hefi stutt þær fjárbætur, er jeg sá, að voru á rökum bygðar. Og jeg hefi gengið lengra en fulltrúi kvenna, hv. 4. landsk. (IHB), í því að bæta mentun kvenna í landinu. Jeg hefi borið fram tvisvar frv. um húsmæðraskóla á Staðarfelli, sem þessi hv. fulltrúi kvenna hefir verið á móti, en nú er því máli borgið svo, að Staðarfellsskólinn mun taka til starfa á næsta ári. Þar að auki hefi jeg í undirbúningi frv. eftir ósk austfirskra kvenna um húsmæðraskóla á Hallormsstað. Vona jeg, að hv. 4. landsk. (IHB) styðji líka þann skóla. Get jeg þannig notað tækifærið til þess að biðja hv. 4. landsk. (IHB) um lið sitt í því máli, því að það munu ekki líða margir dagar áður en jeg get sýnt í verkinu enn einu sinni hina einlægu trygð mína við áhugamál kvenþjóðarinnar með umhyggju fyrir austfirskum konum. Vona jeg þá einnig, að hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem við erum svo gæfusöm að hafa hjerna í deildinni, sýni sín góðu áhrif í þessu máli, enda mun hann nú binda sig í þessum efnum með atkvgr. í dag.

Jeg er alveg sammála hv. 4. landsk. (IHB) um hið skáldlega gildi kvæðis Matthíasar, en jeg er ósammála um innihaldið. Því að jeg vil sýna það í verkinu, að jeg er hlyntur málefnum allra kvenna á landinu. En jeg vil ekki berjast fyrir því að koma vissum starfsmönnum á ríkissjóðinn, ef það hefir enga bætandi þýðingu fyrir uppeldismálin í sjálfu sjer.

Jeg ætla þá, áður en jeg lýk máli mínu, að víkja lítilsháttar að vatill. mínum. Jeg vil skjóta því til hæstv. forseta að bera þær upp hverja í sínu lagi, þegar til atkvgr. kemur, þar sem verið getur, að þær sjeu ekki allar jafnsigursælar, og ein þeirra kann að hafa meira fylgi en önnur. Rjett er þá að geta þess, að jeg ætlast ekki til, að viðbótartill. verði samþ. af öðrum en þeim, er fylgja frv., því að jeg hefði ekki komið með þær, ef þessi undanfari væri eigi fram borinn: Það er líka í raun og veru vafasamt, hvort rjett sje að taka kvennaskóla og hjeraðsskóla á landssjóðinn. Þetta atriði er það, að verði skólarnir landsfyrirtæki, er hætt við, að þeir verði miklu stirðari í vöfunum, missi það fjaðurmagn, sem þeir höfðu, og fái engan stuðning af frjálsum framlögum. En þetta alt er mjög mikilsvert. Jeg hygg, að allir muni eftir hressingarhælinu í Kópavogi, sem kvenfjelag hjer í bænum fjekk leyfi til að koma upp. Jeg átti leið þar um í gær og sá þá, hve langt á leið hið stóra og myndarlega hæli er komið, sem fjelagið ætlar að reka. Svona eru aðstæður hjeraðsskólanna. Þeir hafa risið upp fyrir beina og óbeina hjálp þeirra manna, sem höfðu áhuga og trú á starfi þesssara stofnana. Jeg vil nú spyrja hæstv. stjórn og háttv. 4. landsk. (IHB), hvort nokkuð sje því til fyrirstöðu, ef menn vilja fá góðan og stóran skóla, að hægt sje að fá stuðning kvenfjelaganna til þess að halda honum við sem einkafyrirtæki. Í öðrum löndum eru svona skólar algengir; lifa þeir aðeins fyrir áhuga fólksins. En vafasama atriðið í þessu öllu er einmitt það, að svifta skólana þeirri stoð samúðar og hjálpfýsi, sem þeir hafa nú. Ef lítið kvenfjelag getur rekið stórt hressingarhæli, þá er það undarlegt, ef allar konur landsins gætu ekki styrkt skólann til muna, þó að hann hjeldi áfram að vera einkaskóli með styrk úr ríkissjóði eins og nú. Ef nú ríkisstjórnin og hv. 4. landsk. (IHB), sem í þessu máli eru eitt og hið sama, álíta, að kvennaskólanum sje ólíft án þess að vera ríkisskóli, hvernig halda þau þá, að hjeraðsskólarnir geti komist af, t. d. skólinn í Borgarfirði, Núpsskólinn og Laugaskólinn. Hvaða rjett hafa menn til að setja þessa skóla hjá. Það, sem því hv. 4. landsk. (IHB) sagði um einkaskólana, nær þá einnig til þessara skóla.

Jeg vil gera játningu gagnvart 4. landsk. (IHB) í þessu máli. Það stendur líkt á með okkur, þar sem við komum bæði um sama leyti inn á þingið og höfum bæði það lífsstarf að standa fyrir einkaskólum, er þó hafa ríkissjóðsstyrk. Gæti og verið, að jeg kæmist í sömu aðstöðu og hv. 4. landsk. (IHB), að jeg yrði stuðningsmaður stjórnar og gæti komið til hennar og beðið hana að vera svo væna að gera samvinnuskólann að ríkisskóla. En mjer þykir ólíklegt, að jeg muni lifa svo lengi, að jeg stigi það spor. Jeg vil ekki íþyngja ríkissjóði með því, sem getur gengið fult eins vel á annan hátt. En það hefir verið viðurhent af áhrifamiklum mönnum, að ef kaupmenn og kaupfjelög hefðu ekki haft áhuga á skólamálum sínum og stutt þá, væri nú kominn stór skóli á ríkissjóðnum með um 40 þús. kr. árlega. Á þessu sjest, að hægt er að nota framtak einstaklinganna. Mjer finst, að hv. 4. landsk. (IHB) gæti tekið mig hjer sem fordæmi, því að það sæti ekki ver á henni, þó að hún hefði sótt það með minna kappi að koma skólanum á landið, enda þótt hún hefði haft góða aðstöðu til þess. Mjer finst, að hæstv. stjórn, sem varð fyrir svo miklum óhöppum með sum frv. sín í fyrra, t. d. ríkislögreglufrv., kvennaskólafrv. o. fl., hefði átt að geta tekið meðferð þessa frv. með sama jafnlyndi og þá. Það var engin ástæða til að vekja frekar upp Kvennaskólann en herinn, því að herinn hafði tiltölulega eins mikið fylgi í Nd. og Kvennaskólinn hjer.

Að endingu vil jeg minna á það, að svo framarlega sem stjórnin beitir flokksfylgi sínu til þess að setja Kvennaskólann á ríkissjóðinn, verður afleiðingin sú, að taka þarf alla unglingaskólana upp á arma ríkisins áður en langt um líður.